22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er svo að heyra á ræðum hæstv. ráðh. hér í kvöld að þeim hafi tekist með glæsibrag að stýra þjóðarskútunni styrkri hendi á svo sléttan sjó að allt sé nú slétt og fellt. Á svo til öllum sviðum virðast í þeirra augum vera augljós batamerki, ef ekki fullkomin lækning átt sér stað á þeim meinum sem þjóðarlíkamann hafa hrjáð. Ég spyr ykkur, góðir hlustendur, hvort þetta sé svo í raunveruleikanum. Hafið þið orðið aðnjótandi þessa mikla lækningamáttar sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa komið í framkvæmd á þeim meinsemdum sem hrjáð hafa efnahagslífið æðilengi? Ég held að svo sé ekki.

Það er kannske skiljanlegt að hæstv. ráðh. sé í mun að láta líta svo út á yfirborðinu að allt sé fínt og fágað. En hversu lengi dugar það? Ég held að undiraldan í íslensku efnahagslífi sé þung og vandamálin, sem slegið er á frest að leysa, svo mörg að fyrr en seinna komi að því, að uppvíst verður að ríkisstj. hafi hagað sér með þeim hætti að flóðgáttir erfiðleika opnist. Það er augljóst öllum, sem augu og eyru hafa opin, að á mörgum sviðum þjóðlífsins eru veður öll válynd og naprir haust- og vetrarvindar koma til með að næða enn harkalegar um hæstv. ríkisstj. eftir því sem á liður og munu svipta af hulu hins slétta og fellda sem nú er látið í veðri vaka að sé raunveruleikinn.

Um þessar mundir eru launþegasamtökin að búa sig undir að rétta sinn hlut. Velflestir samningar eru nú lausir og allt bendir til harkalegra átaka á vinnumarkaðinum. Boðskapur ríkisstj. til láglaunafólks er sá, að nú skipti það sköpum að samið verði um það litlar kjarabætur að stöðu ríkisstj. verði ekki teflt í tvísýnu. Enginn furðar sig á því þó að svona boðskapur komi frá þeim sjálfstæðis- og framsóknarmönnum. En finnst engum það skrýtið eða athyglisvert að heyra slíkan boðskap berast frá vinum verkalýðsins að eigin sögn, þ. e. Alþb.? Jú, líklega finnst mörgum það skrýtið. Menn rekur minni til að hafa heyrt öðruvísi boðskap úr þeim herbúðum áður. Eða hver man ekki gífuryrði þeirra félaga, núv. hæstv. félmrh. Svavars Gestssonar og hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, veturinn 1978, í tíð íhaldsstjórnar Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar? Þá hljómaði ofar öllu úr munni Guðmundar, Svavars & Co.: Samningana í gildi. Kaupránið því aðeins afnumið að Alþb. verði sterkara. — Og Alþb. varð sterkara, svo sterkt að það hefur verið í ríkisstj. allar götur frá 1978. Og hvernig hafa kjaramál launafólks þróast frá því í mars 1978 þegar forustumenn Alþb. með þá Svavar og Guðmund J. í fararbroddi framkvæmdu útflutningsbann og ólögleg verkföll vegna þess hvað kaupmátturinn var keyrður niður?

Í mars 1978, eftir febrúarlögin alræmdu, var kaupmáttur kauptaxta verkamanna 110.9 stig og verkakvenna 116.2 stig. Eftir stjórnaraðild Alþb. hátt í þriðja ár er kaupmáttur kauptaxta verkamanna 106.8 stig á móti 110.9 hjá Geir og hjá verkakonum 110.2 á móti 116.2 hjá Geir. Kaupmáttur hefur sem sagt rýrnað verulega frá 1978 þrátt fyrir Alþb. -eða kannske vegna þess að Alþb. hefur verið í stjórn. Og heyra menn ekki núna óminn út yfir landsbyggðina úr börkum þeirra Svavars og Guðmundar: Burt með ríkisstj. Útflutningsbann og ólögleg verkföll til að koma ríkisstj. frá vegna þeirrar kaupránsstefnu sem Alþb. hefur beitt sér fyrir undanfarið?—Nei, slíkir ómar heyrast ekki nú. Ríkisstj. boðar áframhaldandi kjaraskerðingu og ætlar að halda áfram að gera Geir og íhaldið gott í þeim efnum.

Ef litið er á kaupmátt ráðstöfunartekna kemur í ljós að hann er a. m. k. 6–11% lægri nú en stefnt var að með sólstöðusamningunum 1977. Hvern hefði nú órað fyrir því með þær staðreyndir á borðinu, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi rýrnað um 6–11% frá 1977, að þá leggi framvarðarsveit Alþb. í verkalýðshreyfingunni til að kaup láglaunafólks hækki um 4% nú 1. nóv.? Þetta gerðist eigi að síður á þingi Verkamannasambandsins um s. l. helgi. Hvað finnst ykkur, góðir tilheyrendur? Er þetta það sem þið óskuðuð eftir eða bjuggust við? Ég spyr þær þúsundir láglaunafólks sem býr við það þröngan kost að mánaðartekjur eru á bilinu 4-5 þús. kr.: Látið þið bjóða ykkur þetta? Og þetta gerist á sama tíma og ríkisstj . sjálf telur að þjóðarbúið standi vel. Hvað gerðist þá ef hallaði undan fæti? Við hverju mættuð þið þá búast, láglaunafólk?

Slík framkoma gagnvart láglaunafólki er hreint hneyksli, ég tala nú ekki um þegar haft er í huga að ríkisstj. með sjálfan fjmrh. Alþb., Ragnar Arnalds, í fararbroddi skrifaði undir samninga við lækna á s. l. sumri sem taldir eru innihalda kjarabætur læknum til handa sem nema á bilinu 19–40%. Ekki hefur heyrst að hæstv. fjmrh. hafi neitt klígjað við því að gera svo vel við blessaða læknana í kjarabótum að svari til þess að þar teljist nú 15 mánuðir í árinu. En ykkur, sem búið við 4–5 þús. kr. mánaðarlaun, á að skammta 4% hækkun. Þetta staðfesti hæstv. sjútvrh. áðan þegar hann sagði: Ekkert svigrúm fyrir neinar umtalsverðar kauphækkanir. — Ég spyr hæstv. félmrh., sem kemur til með að tala hér á eftir: Er hann sammála hæstv. sjútvrh. um þetta?

Nei, það er ekkert samræmi í þessu. Sé það meining stjórnvalda að halda áfram á þessari braut verða allir, hvar í flokki sem er, að afstýra því. Það verður að knýja fram kjarabætur fyrst og fremst þeim til handa sem minnst hafa. Gerist það ekki í gegnum samninga verður löggjafinn að koma þar til. Ég heiti á allt launafólk að varða veginn til leiðréttingar frá því ranglæti sem nú ríkir á mörgum sviðum. T. d. verður ekki undan því vikist að leiðrétta þann gífurlega mun, sem er á milli framfærslukostnaðar eftir því hvar fólk er búsett. Það verður að gerast t. d. með jöfnun orkuverðs.

Sjómenn hafa nú staðið í miklu stríði við stjórnvöld, en hafa sigrað. En enn eiga líklega sjómenn eftir enn frekara stríð í komandi samningum, t. d. vegna, olíugjaldsins. Ég spyr því hæstv. sjútvrh. eða aðra ráðh.: Ætlar ríkisstj. enn að svíkja gefin fyrirheit og það í þriðja skiptið sjómönnum til handa um að afnema olíugjaldið eins og lofað var?

Að síðustu, herra forseti: Í stefnuræðu hæstv. forsrh. segir, að það skipti sköpum að aðilar vinnumarkaðarins semji svo um kaup og kjör á næsta ári að markmiðinu um fulla atvinnu og hjaðnandi verðbólgu verði ekki teflt í tvísýnu. Í ljósi þessa spyr ég þá ráðh. sem hér tala á eftir: Innan hvaða marka þurfa kaup- og kjarasamningar að vera svo að ekki sé teflt í tvísýnu að mati ríkisstj.? Eru það samningar lækna sem hafðir eru í huga og þjóðarbúið talið þola? Það voru samningar sem ríkisstj. sjálf stóð að. Eða ætlar ríkisstj. láglaunafólki að fá aðeins brot af þeim kjarabótum sem hálaunahópar í skjóli ríkisstj. hafa fengið? Það verður eftir því tekið, hvort svar fæst og þá hvaða svar.

Góðir tilheyrendur. Launafólk. Verið þess minnug að í því góðæri, sem nú er talið vera, er kaupmætti láglaunafólks haldið niðri. Við hverju megið þið þá búast, ef hallar undan fæti í þjóðabúskapnum? — Góða nótt.