22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Jú, jú, Alþfl., sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hefur ekki setið í ríkisstj. á Íslandi í tvö ár. Það eru rétt um það bil tvö ár síðan Alþfl. myndaði einn saman ríkisstj. með stuðningi óklofins Sjálfstfl. eftir að hafa hlaupist burt úr vinstri stjórninni vegna þess að Alþb. stóð gegn kröfu hans um launalækkun. Sannindi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um fjarveru Alþfl. frá ríkisstj. eru á borð við annað, enda þarf ekki um að efast þegar Sighvatur vitnar í Kjartan máli sínu til stuðnings.

Sighvatur Björgvinsson átti sjálfur sæti í þessari ríkisstj. Hann var fjmrh. Hér var fyrir skemmstu sögð sú saga, að Alþfl.-maður nokkur komst í prófarkir af símaskránni og hringdi í ónefndan samflokksmann og spurði: Er það tilfellið að þú hafir sjálfur sett fyrrv. fjmrh. fyrir framan nafnið þitt? Já, kvað flokksbróðirinn hafa svarað. Ég vildi bara vara þig við, sagði hinn, það er nefnilega þannig að fólk hlær að svo mörgu.

Við höfum á þessu kvöldi hlýtt á rökstudda gagnrýni hinnar samhentu stjórnarandstöðu á stefnuræðu forsrh. og á stefnu ríkisstj. Að vísu veiti ég því athygli, að flestir þessara gagnrýnenda eru nú horfnir úr fundarsalnum, munu sennilega vera komnir út í bæ að hælbíta hver annan, eins og er helst iðja þeirra utan sala þessa virðulega húss.

Það er sami söngurinn og var fyrir ári. Árangur ríkisstj. í verðbólgumálunum segja þeir að sé blekking, verðbólgan sé falin. Þeir sögðu þetta líka um áramótin síðustu og virðast nú ekki taka tillit til þess, að þrátt fyrir allt stefnir í það að verðbólgan verði ekki nema 40% um næstu áramót í stað 70–80% eins og horfði fyrir aðgerðir ríkisstj.

Þeir segja að gengið sé fallið og gengið sé falsað. Þeir sögðu þetta líka um síðustu áramót. En það hefur tekist að halda genginu stöðugu þrátt fyrir allt og leggja grundvöll að verulegum úrbótum í verðlagsmálum fyrir bragðið.

Þeir tala einrúg um slæma stöðu atvinnuveganna. Ekki var fögur lýsing þeirra á stöðu atvinnuveganna um síðustu áramót. Þá var allt að stöðvun komið. Staðreyndin við lok þessa árs er sú, að atvinnulíf hefur e. t. v aldrei staðið með meiri blóma á Íslandi en einmitt á þessu ári.

Fjárlagafrv., sem nú er lagt fram, er marklaust plagg að dómi þessara sömu manna. Um síðustu áramót héldu þeir því líka fram, að fjárlagafrv. ríkisstj. væri marklaust plagg, fyrirsjáanlegur halli væri á fjárlögunum. Raunin varð allt önnur í fyrra. Þeir spá halla á fjárlögum þessa árs. Raunin verður einnig allt önnur á þessu ári. Útkoman verður hagstæð. Alþfl.-menn halda því fram, að ástæðan sé sú að embættismenn falsi ríkisreikningana að fyrirmælum forsrh. Þessu hefur formaður Alþfl: haldið berlega fram. Þess er skemmst að minnast, að forystumenn þessa sama flokks héldu því fram, að þáv. dómsmrh. stæði prívat og persónulega fyrir spírasmygli til landsins. Nú gefa þeir þá skýringu á pólitískri siðvillu hver annars, að hinn og þessi í þeirra flokki sé ekki með öllum mjalla. Ég trúi nú því, að þeir séu með öllum mjalla, en mjallinn sé bara ekki meiri en þetta.

Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., sem hér stóð í ræðustól fyrr í kvöld, dró í efa að núv. ríkisstj. hefði þrek til þess að koma fram málum. Stjórnarandstæðingar hafa í umr. á þessu kvöldi hampað mjög því sem þeir nefna kjararýrnun á stjórnartímabili þessarar ríkisstj. Mér kom í hug, þegar Kjartan Jóhannsson sagði okkur sannleikann um verðbólgu í þessu landi og kaupmátt launa, það sem Caligúla, dálítið vafasamur keisari Rómaveldis, sagði um sannleikann. Hann sagði: Sannleikurinn er til. Hann hefur bara ekki fundist enn þá. Það var sá maður sem gerði hrossið sitt að ræðismanni í Róm. Nú kemur Kjartan Jóhannsson til okkar og segir: Sannleikurinn er til. Hann er í buddunni. — Það er maðurinn sem gerði sjálfan sig að formanni Alþfl.

Þessir sömu menn veittust að iðnrh. Alþb. sérstaklega fyrir seinagang í afgreiðslu virkjunarmála, að Alþb. stæði í vegi fyrir ákvörðunum um stórvirkjanir og nýtingu raforku. Þó er það mála sannast, að Alþb. er ekkert að vanbúnaði að taka ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir nú þegar. Því fer líka víðs fjarri, að skortur á ákvörðunum ógni á nokkurn hátt með skorti á raforku á landi hér. Fyrir utan Hrauneyjafossvirkjun, sem kemur í gagnið innan nokkurra daga, er nú í gangi framkvæmdir á Landsvirkjunarsvæðinu í Þjórsárdal þar sem Kvíslaveiturnar eru sem munu nægja til þess að við fáum 750–800 gwst. af raforku sem munu nægja okkur fram yfir árið 1990, fram til ársins 1993, ef ekki kemur til orkufrekur iðnaður á þessum sama tíma. Í mjög svo tæka tíð fyrir það ártal verða nýjar stórvirkjanir orðnar arðbærar á landi hér. Framkvæmd orku- og iðnaðarstefnu Alþb. er hafin og voru þó ærnar annirnar fyrir Hjörleif Guttormsson, þegar hann settist á ráðherrastól í iðnrn. að fást við vandamál sem áttu rætur að rekja til þeirra tíma er þar sátu þeir menn sem nú gagnrýna núv. ríkisstj. fyrir aðgerðir í orku- og iðnaðarmálum.

Ég hélt sannast sagna, þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson minntist á hafið í sambandi við iðnaðarframkvæmdir á Íslandi, að hann ætlaði kannske að minnast á hækkun í hafi, en ekki dollara sem rynnu í hafið án þess að hafa viðkomu í vösum Alusuisse. Fyrsta og brýnasta verkefni iðnrh. Alþb., er hann kom í iðnrn., var einmitt að glíma við auðhringinn Alusuisse sem þeir Sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn gerðu við samninginn furðulega fyrir næstum því 10 árum. Það kom nefnilega í ljós að samningurinn var þess eðlis og framkvæmd hans hafði verið fylgt þann veg eftir, að auðhringurinn hefur haft af okkur meiri fjármuni síðustu sjö árin með prettum og bellibrögðum en hann hefur greitt fyrir heildarkaup sín á raforku af okkur á þessum sama tíma.

Það getur tæpast verið tilviljun, að það skuli vera sömu aðilarnir sem nú saka Alþb. um að spilla samstarfi við Alusuisse með því að heimta efndir á samningi og endurgreiðslu á alsviknu miklu fé, — að það skuli vera sömu aðilarnir, sem sakfella Alþb. fyrir þetta, sem á sínum tíma sakfelldu Alþb. fyrir að spilla samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir með því að beita sér fyrir útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur. Það má hver sem er lá iðnrh. Alþb. þótt hann leiti nú annarra leiða til undirbúnings orkufreks iðnaðar á Íslandi heldur en felast í handsöluðum sjálfdæmum þeirra Bildernbergsbræðra við alþjóðlegu auðhringana.

Alþb. gekk til myndunar ríkisstj. ásamt Framsfl. og varaformanni Sjálfstfl. og þm., sem honum fylgdu, með þeim fyrirvara og með það fyrirheit, að við mundum beita því afli, sem við hefðum, til þess að koma í veg fyrir að haldið yrði áfram á þeirri íhaldsbraut að reyna að leysa vandamál efnahagslífsins á kostnað launþega. Við tókum þátt í myndun þessarar ríkisstj. fyrst og fremst til þess að tryggja lausn afmarkaðra efnahagsvandamála á þann veg að verkalýðshreyfingin mætti við una. Sjálfir höfðum við ekki kallað þetta vinstri stjórn. Það gera aðrir sem álita okkur Alþb.-menn svo sterka að aðild Alþb. að hverri ríkisstj. nægi til þess að tryggja vinstri stefnu.

Nú heyrum við stjórnarandstöðuna tala um kjaraskerðingu á valdatíma þessarar ríkisstj. Á borð þm. var í gær dreift skýrslu frá Þjóðhagsstofnun þar sem frá því greinir, að kaupmáttur rauntekna er þó öllu skárri í ár en hann var í fyrra, eða 164 á móti 162, og hann jafnast á við það sem hann var mestur árið 1979. Þetta geta hv. þm. lesið á bls. 20 í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar.

En Alþb. ræður því miður ekki öllu í þessari ríkisstj. Því gerum við Alþb.-menn okkur gleggsta grein fyrir. Við þurfum ekki að bera okkur upp undan samstarfinu í ríkisstj. eigi að síður. Við gerðum okkur ekki vonir um neitt miklu betra en það sem varð. Í meginatriðum höfum við náð settum áföngum, og við munum halda áfram að vinna af sömu elju að lausn þeirra verkefna sem við tókum að okkur að kljást við á þessu kjörtímabili. Fram undan eru þó býsna stór viðfangsefni og þá nærtækast að nefna það að tryggja að þær kjarabætur, sem verkalýðshreyfingunni kann að auðnast að knýja fram í næstu samningalotu, — tryggja þessar kjarabætur fyrir gengisfellingarpostulum, hvar í flokki sem þeir kunna að standa.

Við munum standa trúlega að stjórnarsamstarfinu svo lengi sem samstarfsmenn okkar vinna með okkur af heilum hug að framkvæmd þess samkomulags, sem þeir gerðu við okkur í upphafi stjórnarsamstarfsins, um stefnuna, og það er von mín og hyggja, að ríkisstj. muni sitja að völdum til loka kjörtímabilsins. En þegar sú stund rennur upp mun Alþb. biðja kjósendur um miklu meiri styrk en það nú hefur til aukinna áhrifa á efnahagsmál þjóðarinnar, kjaramál alþýðu, þjóðfrelsis- og menningarmál.

Ég tala síðastur ræðumanna hér í kvöld og því ekki aldeilis við hæfi að ég ljúki máli mínu með þeim athugasemdum um málflutning stjórnarandstæðinga sem mér er skapi næst og vert væri. Ég þakka þeim hlustendum, sem hafa haft þrek til að hlusta á þessar umr. á enda, og býð góða nótt.