02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en ég held að það væri á margan hátt fróðlegt fyrir Alþingi að fá að vita um þessi fordæmi. Ég tel mjög varhugavert að veita heimild til erlendrar lántöku til að fjármagna skipakaup og flytja skipin á milli staða innanlands.

Um seinna atriðið, sem hæstv. ráðh. nefndi, er það að segja, að um stórt hneykslismál er að ræða. Það er skilyrði sett fyrir lántöku og innflutningi á skipi til eigenda Ísleifs VE 63, að skipið Sporður sé tekið af skipaskrá. Eigendur vélskipsins Sporðs voru búnir að sækja um bætur úr Aldurslagasjóði og einnig úr Úreldingarsjóði vegna þess að skipið væri ónýtt. Fyrir lágu upplýsingar frá siglingamálastjóra og stjórnir þessara sjóða höfðu samþykkt bætur. Þegar skip eru tekin í Aldurslagasjóð og Úreldingarsjóð eiga eigendur kost á að hirða allt nýtilegt úr skipunum, en síðan fá þeir styrk frá þessum sjóðum til að eyða skipsskrokkunum. Það á því ekki að nota slík skip sem söluvöru til að fá innflutning á öðrum skipum.

Því til viðbótar vil ég nefna að nýlega var ráðist að stjórnum þessara sjóða í síðdegisblaði. Maður, sem sagðist hafa keypt þetta skipshræ, lýsti því yfir að það réðu kerfiskarlar í þessum stjórnum. Hræið hefur því gengið á milli fleiri en eins eiganda. Það var notað fyrst til vöruskipta við kaup á erlendu skipi til landsins. Síðan er hræið notað aftur og selt útgerðarmanni á Snæfellsnesi. Hann vill fá að selja það Stálfélaginu upp á það að Stálfélagið komi til með að fá einhvern tíma lóð svo að hægt sé að brenna þetta skip og nota í starfsemi Stálfélagsins. Ég sé ekki annað en hér sé um stórfellt hneyksli að ræða. Hjá því verður ekki komist að rannsaka þetta mál nánar, hæstv. viðskrh.