24.02.1982
Neðri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég fagnaði mjög þeirri till., sem hv. 12. þm. Reykv. flutti, og taldi að með flutningi hennar sýndi hann bæði mikla sanngirni og jafnframt kjark að brjóta sig út úr stjórnarliðinu. En þrátt fyrir þá samninga, sem hann segist hafa gert um meðferð málsins, hefur hann ekki gert samninga við stjórnarliðið um að samþykkja sína eigin till., heldur aðeins að hluta. Ég vil ekki fella mig við annað en að það sé sanngirnismál að launaskattur almennt lækki um 1%. Það eru stórar greinar iðnaðar sem falla ekki undir þessa svokölluðu skilgreiningu Hagstofu Íslands, og skal ég aðeins nefna einn og það stóran og viðamikinn iðnað, byggingariðnaðinn. Það hefur verið eitt af stefnumálum ríkisstj. að stefna að því að lækka byggingarkostnaðinn. Hann verður ekki lækkaður með því að auka sífellt skatta á byggingariðnaðinn. Ég minni á að einn stjórnarflokkanna hefur talið að afborganir og vextir af meðalstórri íbúð megi ekki fara yfir 20% af almennum launatekjum verkamanna, þetta er Alþb., ef sumir þm. myndu e.t.v. ekki eftir þessari yfirlýsingu.

Ég harma það, að hér hefur verið settur á svið skrípaleikur. Þegar vitað er að hv. þm. Eggert Haukdal styddi þessa almennu launaskattslækkun dregur 12. þm. Reykv. tillögu sína til baka. Því tökum við í meiri hl. fjh.og viðskn. till. upp og styðjum því upprunalegt mál Guðmundar G. Þórarinssonar. Ég segir já.