24.02.1982
Efri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það má kannske segja að það frv., sem hér liggur fyrir, gefi ekki tilefni til langrar umr., svo rýrt sem það er. Það skiptist í nokkra kafla, eins og hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni, og innan kaflanna eru nokkrar greinar, mismargar eftir því um hvaða kafla er að ræða. Þetta minnir mann á lýsinguna sem gefin var á stefnuskrá Alþb. fyrir kosningarnar 1978. Þá fengu kjósendur helst að vita að stefnuskrá Alþb. væri í allmörgum aðalliðum og enn fleiri undirliðum. Ef menn spurðu fulltrúa Alþb. nánar um efnisinnihaldið var bara vísað á að menn skyldu reyna að lesa bókina.

En hvað um það, hér er kannske fyrst og fremst um það að ræða annars vegar að leggja á nýjan skatt, sem er nefndur tollafgreiðslugjald, og hins vegar breytingu á stigi launaskatts. Að því er varðar aðra þætti stimpilgjalda má segja að sé um leiðréttingu að ræða sem hafi flotið með. Síðan er framlenging á tímabundnu innflutningsgjaldi á sælgæti og kex sem gefur ekki tilefni til langrar orðræðu.

Um launaskattsþáttinn er það að segja, að ákveðið hefur verið að lækka hann á vissum atvinnugreinum um 1%, og þó að upptalningin á þessari framkvæmd taki yfir allar greinar frv. frá 3–14 er efnisinnihaldið varla neitt sem talist geti annað en þetta sem ég nefndi, þetta 1%. Það er athyglisvert þegar lesin er grg. um launaskattinn, að þar segir að greinar 12, 13 og 14 samsvari greinum 9, 11 og 12 í gömlu lögunum. Þar segir um 6. gr. að í henni séu sömu ákvæði og í a- og b-liðum 4. gr. gildandi laga, 5. gr. að 1. mgr. sé efnislega óbreytt frá 3. gr. laganna, um 4. gr. að 1. mgr. sé óbreytt frá 2. mgr. 2. gr. og um 2. mgr. að þau ákvæði megi áður finna í 1. gr. gildandi laga. Það hvarflar að manni að hér sé beinlínis verið að búa til langan frv.-þátt um lítið efni, það hafi sem sagt legið nokkuð við að bandormurinn, en frv. hefur gengið undir því nafni, næði því að verða nokkrar blaðsíður og það sé verið að breiða yfir innihaldsleysið með blaðsíðutalinu og upptalningunni. Það skyldi þó ekki vera að það sé þetta mark sem frv. þetta er brennt með svipuðum hætti og stefnuskrá Alþb. fyrir kosningarnar sem taldist vera í bæði aðalliðum og undirliðum.

Þá hafa í Nd. orðið nokkrar umr. um launaskattinn og á hvaða greinar hann skyldi leggjast. Ég verð að segja að þær umr. voru að ýmsu leyti ákaflega furðulegar og þó einkum og sér í lagi vegna þess að Framsfl. hafði gefið í skyn fyrr í sambandi við umr. um þessi efnahagsmál, að hann teldi ákaflega mikilvægt að launaskatturinn yrði lækkaður og þar yrði um víðtæka niðurtalningu að ræða. Einn þm. flokksins mannaði sig upp í að flytja brtt. um þetta efni í Nd., en þar sannaðist enn sem áður að barátta Framsfl. fyrir stefnumálum sínum gerist einungis á síðum dagblaðanna, en ekki í ríkisstj., því að hvorki hafði þessi þm. erindi sem erfiði né heldur hefur Framsfl. haft það í þeim átökum sem í gangi hafa verið um efnahagsmálin í ríkisstj., og árangurinn hefur verið nánast enginn.

Það er skemmtilegt hlutskipti fyrir Framsfl. að boða ýmiss konar stefnubreytingu, en leggja svo ekkert upp úr því, hvort slíkt næst fram eða ekki, lufsast í ríkisstjórn alveg án tillits til þess, hvort stefnumiðunum er komið fram eða ekki. Það er helst að sjá að Framsfl. stefni nú í að verða eins konar útibú frá fjmrn., og kannske er það það hlutskipti sem hann getur helst og best hugsað sér.

Í Nd. urðu líka nokkrar umr. um tollafgreiðslugjaldið og hvort það mundi verða fellt niður af ýmsum hjúkrunartækjum t.d. og öðru því sem löggjafinn hefur ákveðið að veita heimild til að ekki séu innheimt aðflutningsgjöld af. Hæstv. fjmrh. gerði þetta að nokkru umtalsefni áðan. Hann hélt því fram, að heimild til þessarar niðurfellingar að því er tollafgreiðslugjaldið varðaði væri að finna í því frv. til l. sem hér er til umr. Nánar tiltekið benti hann á 2. mgr. 2. gr. Ég held þess vegna að það sé rétt að menn líti á hvað standi í þeirri grein. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæða þessa kafla,“ — þ.e. kaflans um tollafgreiðslugjald, — „þ. á m. hvaða vörur skuli undanþegnar gjaldskyldu samkv. 2. mgr. 1. gr. svo og að gjald samkv. 1. mgr. sömu greinar skuli falla niður sé tollverð vörusendingar innan tiltekinna marka.“

Samkv. þessari lagagrein er þessi heimild einungis takmörkuð við þá upptalningu sem finna má í 2. mgr. 1. gr. Þar er um að ræða matvörur, EFTA-vörur, aðföng til iðnaðar, flugvélaeldsneyti og brennsluolíu, skip, flugvélar og varahluti til þeirra. Þetta er tæmandi upptalning og í þessari upptalningu, sem heimild ráðh. nær til, er ekkert af þeim vörum sem voru hér sérstaklega gerðar að umtalsefni, hjúkrunarvörur af ýmsu tagi og því um líkt, sem menn hafa talið sjálfsagt af mannúðarástæðum að ekki væri tekinn tollur af. Þó að hæstv. fjmrh. tali digurbarkalega um að auðvitað væri það smámunasemi að tollafgreiðslugjaldið væri ekki fellt niður, þá er það nú svo að sú heimild, sem hann vitnar til að hann hafi til að fella þetta niður, er alls ekki fyrir hendi. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að sú nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, taki þetta atriði sérstaklega til skoðunar og einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að hæstv. fjmrh. hefur í rauninni lýst yfir að hann vilji hafa þessa heimild. Hún er greinilega ekki í þessum lögum og þessa heimild geta menn vitaskuld hvergi fundið í öðrum lögum því að hér er um ný lög að ræða. Þetta eru ekki tollalög. Þetta eru ný lög um tollafgreiðslugjald og engin önnur lög geta tekið til þessara nýju laga. Um tollafgreiðslugjaldið eru engin lög í gildi og hafa ekki verið þannig að nauðsyn ber til að skoða það mál.

Efnisinnihald tollafgreiðslugjaldsins er ákaflega einfalt. Það var samþykkt hér fyrir skömmu að lækka tolla á ýmsum heimilistækjum um 20 millj. kr. Nú er tillaga um það frá hæstv. ríkisstj. að auka tollheimtu með því að leggja á tollafgreiðslugjald sem nemur tveimur og hálfum sinnum þeirri upphæð og vel það, eða 50 millj. kr. Þetta er það sem snýr að almenningi í landinu. Lækkun stimpilgjalds og launaskatts er það sem verið er að gera fyrir atvinnurekendurna. Það, sem snýr að alþýðu þessa lands og launþegum þessa lands, er að skattheimtan á þeim er aukin um 34 millj. kr. með þeirri tollabreytingu sem hér er verið að gera: annars vegar lækkun á vissum tollum, en hins vegar að taka upp nýjan almennan toll í formi tollafgreiðslugjalds.

það, sem er merkilegt og athyglisvert í sambandi við þetta er það, að þessar auknu álögur upp á 34 millj. kr. eiga ekki að mælast í vísitölunni. Það er upplýst að svo snyrtilega sé um hnúta búið að það sé hægt að hækka þessi gjöld sem þessu nemur og það muni ekki hafa meiri áhrif á vísitöluna en nemur þeirri lækkun sem áður var ákveðin í sambandi við tolla á heimilistækjum. Hér er náttúrlega verið að leika vísitöluleikinn eins sinni enn af sama purkunarleysi og gert hefur verið áður. Hér er í rauninni fyrst og fremst verið að reyna að kroppa svolítið af launþegum, En árangurinn af þessu máli mun auðvitað enginn verða. Hinn efnahagslegi árangur af því, sem ríkisstj. hefur nú staðið í, mun ekki verða neinn til frambúðar. Það má falsa vísitöluna um nokkur stig, það má fá svolítið lægri tölur til að veifa framan í fólkið í landinu, en það mun ekkert gagna ríkisstj., vegna þess að buddan segir mönnum hver afkoman sé á hverjum tíma og hvernig kaupið endist, og hvað sem vísitöluleiknum liður finna menn á buddu sinni hvernig peningarnir endast og að þeir endast verr og verr dag frá degi.

Ég tel, herra forseti, að hér sé um léttvægan tillöguflutning að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. sem gefi ekki tilefni til lengri umfjöllunar að þessu sinni. En hitt er sorglegt, að íslenskir stjórnmálamenn, íslensk ríkisstjórn, Alþingi, skuli aldrei komast til almennilegra verka í efnahagsmálum fyrir pjatti eins og þessu.