09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þar sem bæði hv. þm. Albert Guðmundsson og hv. þm. Tryggvi Gunnarsson kvarta undan því, að hæstv. viðskrh. skilji sig ekki, þá kemur mér í hug athugasemd Öllu fínu, sem kölluð var, þegar Manni Karls var að stíga í vænginn við hana og sagði: Konan mín skilur mig ekki. — Þá sagði hún: Reyndu að tala svolítið skýrara.

Hér hafa menn verið að tala hver í sína áttina. Ég skildi hæstv. viðskrh. fullkomlega eins vel og hann ætlaðist til þess að við skildum sig hér áðan. Við höfum ekki verið að ræða um raunverulegar ráðstafanir til þess að lækka verð á olíu. Mér er sem ég sjái andlitið á hv. þm. Albert Guðmundssyni ef hann keypti bensín á bílinn sinn á dagprísum úti í Bretlandi t.d. Ég hygg að hann mundi hrökkva í kút. Þar er kappkostað að halda verði á olíu, þ. á m. bensíni, stöðugu eftir því sem hægt er. Við mundum ekki losna við það þó að erlendu olíufélögin ættu hérna birgðastöðvar.

Aftur á móti vil ég minna á mál sem hv. þm. Albert Guðmundsson flutti hér fyrr í vetur og hefur oftar vakið máls á, með hvaða hætti við gætum e.t.v. tryggt okkur mjög hagstæð olíuviðskipti til langs tíma, með því að nenna að tala við þá verslunaraðila sem hafa boðið okkur olíuvörur á langtímasamningum á hagstæðasta hugsanlegu verði. Kom í ljós í máli hans og var ekki andmælt að við mennina væri ekki einu sinni rætt af því að þeir hefði ekki rétta pappíra.