15.03.1982
Efri deild: 55. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef raunar ekki mikið að segja eftir ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Hann vék að nokkrum atriðum, sem ég kom að í ræðu minni, og að brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. En það, sem hv. þm. sagði, var þess eðlis, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þau atriði. Ég hef gert ítarlega grein fyrir þeim áður og mér fannst ekkert koma fram sem veikti eða hrekti þau rök sem ég hef áður flutt, svo sem um skipan hljómsveitarráðs, eins og gert er ráð fyrir í brtt. okkar veg eins og Seltjarnarneskaupstað. Þetta er ekki rétt ef menn skilja það á þann veg. Ég nefndi Ísafjörð. Ég nefndi líka Akureyri. Hv. 3. þm. Vesturl. minntist ekki á Akureyri. En hvers vegna nefndi ég þessa tvo merkisstaði? Það var til áréttingar því sjónarmiði að það skipti engu máli í þessu sambandi hvort sveitarfélagið væri fjarlægt Reykjavík eða í næsta nágrenni, vegna þess að það er ekki nema eitt sveitarfélag sem þjóðin ein stendur að í þeim skilningi sem ég túlkaði það. Það er þjóðin öll sem á sína höfuðborg. Þeir, sem bera ábyrgð á því frv. sem við ræðum nú, virðast vera á sömu skoðun og ég í þessu efni, að það skipti ekki máli í hvaða fjarlægð sveitarfélag er frá Reykjavík. Ef þeir hefðu talið að það skipti einhverju máli hefðu þeir sett inn í þetta frv. ekki einungis Seltjarnarneskaupstað heldur líka Kópavogskaupstað og Mosfellshrepp. Og auðvitað mætti í þessu sambandi nefna alveg eins Kópavog og Garðabæ, Hafnarfjörð og raunar fleiri. Ég held því að þetta liggi ljóst fyrir.

Hv. 3. þm. Vesturl. gaf hér yfirlýsingu um það sem hann fyrir sitt leyti ætlar að fylgja í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. á þskj. 373. Hv. 3. þm. Vesturl. lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkvæði með 1. brtt. okkar, breytingu á 2. gr. frv. Hv. sami þm. lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkvæði með 2. málsgr. í 2. brtt. okkar sem varðar breytingar á 3. gr. frv. Hv. 3. þm. Vesturl. gaf einnig þá yfirlýsingu, að hann mundi styðja og greiða atkvæði með 5. málsgr. í 2. brtt. okkar á þskj. 373 sem einnig varðar 3. gr. frv.

Ég þakka hv. þm. fyrir þennan stuðning, og ég get ekki varist þeirri hugsun, að ef við hefðum haft frv. lengur til meðferðar hefði kannske komið frekari stuðningur frá hv. þm., vegna þess að hann er athugull maður og góðviljaður og vill hið besta í þessu efni. Samt sem áður mun ég ekki gera neitt til að tefja framgang þessa máls. Við hv:4. landsk. þm. höfum viljað hraða meðferð þess, enda leggjum við til að frv. verði samþykkt. Það er ekki að okkar ráðum eða í okkar þágu sem hv. menntmn. hefur haft þetta mál svo lengi til meðferðar sem raun ber vitni, enda höfum við ekki forræði í þeirri nefnd.

Þetta vildi ég að hér kæmi skýrt fram um leið og ég undirstrika það viðhorf sem liggur til grundvallar brtt., okkar, að okkur er mjög umhugað um að þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands er loksins sett löggjöf verði sem best vandað til hennar til þess að hún geti sem best þjónað sínum tilgangi. (StJ: Hvaða dylgjur eru þetta?) Hv. 4 þm. Norðurl. e. segir: Hvaða dylgjur eru þetta? Það er furðulegt ef það er flokkað undir dylgjur að vilja vanda sem best alla málsmeðferð við afgreiðslu þessa frv. Ég læt mér ekki detta í hug að hv. 4. þm. Norðurl. e. meini þetta í raun og veru, heldur er innskot hans aðeins til þess að krydda þessar umr. Ég þakka honum fyrir þá áherslu sem hann hefur með því lagt á þau orð sem ég hef áður sagt.

Ég vék að því minni seinustu ræðu um þetta efni, að ég hefði fylgst með málum Sinfóníuhljómsveitarinnar frá fyrstu byrjun, og það er með þeim hætti að mér er alls ekki sama um framtíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það vill svo til að ég hef verið viðriðinn mál Sinfóníuhljómsveitarinnar stundum þegar mikið lá við um framtíð hennar og rekstur. Ég hef alltaf reynt að leggja Sinfóníuhljómsveitinni lið, og það hefur viljað þannig til að fyrir rás viðburðanna hef ég stundum fundið mig vera í baráttusveit þeirra sem hafa viljað tryggja sem best stöðu hennar. Það er einmitt í þessum anda sem við störfum að þessu máli og gerum till. í þessu máli, ég og hv. 4. landsk. þm.