02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég verð nú að byrja á því að segja það, að mér finnst einkennilega farið með þennan tíma hér í dag. Ég vissi ekki betur en ákveðið hefði verið að halda þennan föstudagsfund vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna að hér bíður fjöldi mála afgreiðslu milli deilda sem mjög er kallað eftir og allir þm. væntanlega sammála um að þurfi að flýta, og þess vegna hefði þessum degi verið betur varið í þær umr. heldur en það sem hefur farið hér fram til þessa.

Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir hv. 1. landsk. þm., að mér finnst að þeir þm., sem hafa þá aðferð að draga hér inn á Alþingi, gjarnan utan dagskrár, ónákvæmar fréttir úr blöðum um ýmis mál, án þess að leita áður staðreynda um viðkomandi mál, eru að mínu mati að kasta rýrð á virðingu Alþingis, það er mitt mat, og eyða þannig dýrmætum tíma þm. frá nauðsynlegri afgreiðslu mála sem allir viðurkenna að þurfi að fara fram. Þessi tímasóun er því flestum til tjóns.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að segja það, að mér finnst furðulegar og mjög ósmekklegar þær aðdróttanir hv. 1. landsk. þm. í garð sjútvrh. þar sem hann ýjar að því, að hæstv. ráðh. vilji stuðla að því að öryggi sjómanna minnki og öryggi sé ekki fyrir hendi á þeim skipum sem verið er að flytja til landsins. Þetta er ósmekkleg fullyrðing, ekki síst frá hv. þm. sem a.m.k. vill láta trúa því, að hann beri hag sjómanna fyrir brjósti sérstaklega.

Ég verð að játa í sambandi við þessar umr. að það er mín skoðun,-má vel vera að það sé vegna þess að ég er alinn upp í sjávarútvegsþorpi og þekki þess vegna vel það sem þar fer fram, — að það sé lífsnauðsyn fyrir þessa þjóð að endurnýja fiskiskipaflotann og sú stefna sé viðurkennd, að við eigum ávallt fullkomnasta fiskiskipaflota í heimi. Við erum að státa af því á mörgum málþingum, að við séum meðal mestu fiskveiðiþjóða heimsins. Við eigum að minna á það, sem auðvitað allir vita, að lífsafkoma þessarar þjóðar byggist á fiskveiðum og sjósókn.

Ég verð að segja það, að mér finnst furðulegt ef hv. þm. gera sér ekki grein fyrir gildi þess að hafa fullkominn fiskiskipaflota. Hafa þm. hér verið í verstöðvum þessa lands og séð gömlu bátana okkar koma að landi í vitlausum veðrum? Hafa þeir séð hvernig þessi fiskiskip eru útleikin? Þau eru yfirhlaðin ísingu svo að við liggur að þeim hvolfi, öryggi sjómanna í lágmarki. Ég þekki fjölda sjómanna í verstöðvum vestanlands sem hafa verið nú síðari árin að laga sig eftir þeim aðstæðum sem orðnar eru í okkar fiskveiðum, að það verður að sækja helmingi fastar og miklu meira á djúpmið heldur en áður hefur þekkst. Þeir gera þetta á sömu litlu bátunum sem þeir hafa áður sótt eingöngu á grunnmið. Þess vegna segi ég það, að það á að vera vilji fyrir því að endurnýja þennan flota. Ég tel að í fiskveiðistefnu eigi fyrst og fremst að taka mið af fullkomnum fiskiskipum. Við erum fiskveiðiþjóð. Við verðum að byggja okkar afkomu á sjávarútvegi og fiskveiðum, og við eigum í þeim efnum að hugsa um öryggi þeirra manna sem sækja sjóinn, okkar sjómannastéttar, þeim er ekki bjóðandi nema fullkomin skip. Þess vegna á úrtölutal um endurnýjun fiskiskipaflota okkar ekki að heyrast hér í sölum Alþingis.