09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf, þó að mér sýnist á þeim að tæknimenn Pósts og síma vaði talsvert í villu ef þeir telja að truflunum á útsendingu sjónvarps á Vestfjörðum hafi lokið fyrir viku. Þessar truflanir áttu sér áfram stað alla s. l. viku og síðast í gærkvöld. Það er mér kunnugt um því að ég horfði á sjónvarp vestur á fjörðum einmitt í gærkvöld. Málið er því ekki leyst, síður en svo. En ég heyri það á umsögn deildarverkfræðings Landssímans, að starfsmenn þess fyrirtækis hafa væntanlega gert sér grein fyrir því, að hér er stórkostlegt vandamál á ferðinni.

Út af því, sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði, að þeir Vestlendingar hefðu ekki viljað koma með þetta mál inn í þingsali, þá er það auðvitað þeirra mál hvað þeir telja svo mikilsvert að þeir komi með það hér inn á Alþingi. (Gripið fram í.) Já, líklega er það ástæðan, en annað gæti manni dottið í hug. Ég hef einnig gert skriflega fyrirspurn um þetta til póst- og símamálastjóra fyrir u. þ. b. hálfum mánuði og ekkert svar fengið. Mér var farið að leiðast eftir því, að ég fengi svar beint úr kerfinu, og þess vegna var ástæða til að taka málið upp hér.

Það er ljóst, eftir því sem hv. þm. Alexander Stefánsson segir, og hann hefur það beint úr kerfinu, að það þarf meira til að þessi mál komist í lag heldur en það sem nú er talið vera búð að gera. Og auðvitað er það krafa, ekki bara Vestfirðinga, sjálfsagt á þetta víðar við, að undinn sé bráður bugur að því að kippa málum í lag.

Ég fagna staðfestingu á því, sem hér kom fram í máli hæstv. ráðh., að búið er að setja upp nýjan sendi í Stykkishólmi. Sá sendir hefur verið mikill gallagripur lengi. Vonandi verður nýi sendirinn til þess að bæta eitthvað það ástand sem verið hefur, en hann virðist þó ekki duga. Ég geri ekki kröfu til þess, að hæstv. menntmrh. eða Póstur og sími sjái fyrir því að rafmagn bili ekki. Aðrir aðilar verða að sjá um að það sé í lagi. Það er mér alveg ljóst. Og ég er ekki að ásaka hæstv. menntmrh. eða tæknimenn eða forsvarsmenn Pósts og síma um bilanir vegna þess. En það er í miklu, miklu fleiri tilfellum, að ég tel, sem bilanir hafa átt sér stað og truflanir á útsendingum, vegna þess að kerfið sjálft hefur ekki verið í lagi.

Engar rafmagnstruflanir hafa þar átt hlut að máli.

Ég get sagt hæstv. menntmrh. það, að þolinmæði Vestfirðinga er þrotin í þessu máli. Haldi þetta áfram lengur er enginn vafi á því, að upp kemur sterk krafa um að Vestfirðingar verði ekki látnir að borga afnotagjöld af þessum fjölmiðli á sama tíma og þeir geta ekki notað hann svo vikum eða jafnvel mánuðum skiptir. Ég tel að það sé sanngirniskrafa og ég heyrði að hæstv. menntmrh. tók undir það með mér áðan. Ég vænti þess, að ég eigi bandamann t því máli þar sem hæstv. ráðh. er, ef þessu linnir ekki nú þegar.