29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (4081)

293. mál, vatnaflutningar af vatnasvæði Skjálfandafljóts

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir það, sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason gaf snyrtilega í skyn í upphafi fsp. sinnar, að það er ekki við hæfi að við þm. Norðurl. e. látum okkur engu skipta jökulvötn í okkar kjördæmi þegar slík mál eru svo mjög á dagskrá sem nú hefur verið undanfarið. Mér er kunnugt um að þeir Landsvirkjunarmenn, sem að mínu viti eiga hrós skilið fyrir framferði sitt á virkjunarsvæði sínu hin síðari ár, m.a. fyrir það, hversu vel þeir lærðu lexíuna úr Laxármálinu, — mér er kunnugt um það, að enda þótt þeir hafi seilst þarna til þess, eins og ráða má af orðum hæstv. ráðh., að veita í Vonarskarði suður vatni sem eiginlega hafði ætlað að fara þangað, en ekki komist vegna óhagstæðs landshalla, þá hefur hér verið farið af gát og haft í huga að vinna þarna engin þess háttar spjöll gegn eðlilegu og löggiltu frelsi vatnsins til að renna niður í móti sem ekki væri auðvelt að lagfæra ef til þess kæmi að af þessu yrði deila eða einhver færi að fetta fingur út í að Landsvirkjun bryti þarna vatnalögin, sem ég vil staðhæfa að Landsvirkjun hafi ekki heimild til fremur en að brjóta önnur lög.

Aðeins vegna þess að tæknilegir stjórnendur Landsvirkjunar hafa látið svo lítið að segja mér frá þessum aðgerðum þarna efra í tengslum við önnur mál og af því að mér er kunnugt um að þess hefur verið gætt mjög vandlega að vinna þarna engin verk sem líklega væru til þess, að af þeim mundu spretta alvarlegar deilur, og af því að mér er það ljóst og ég trúi því, að stjórn Landsvirkjunar muni gæta þess sem sjáaldurs auga síns að lenda ekki í deilum við Bárðdæli vora eða Kinnunga út af þessu máli, þá kvaddi ég mér hér hljóðs og undirstrika rétt í lokin þetta atriði, að ekkert ákvæði í lögum um Landsvirkjun heimilar Landsvirkjun að brjóta lög og þá ekki heldur vatnalög, og ég er stórefins um að nokkurt rn. geti veitt Landsvirkjun slíka heimild.