03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4545 í B-deild Alþingistíðinda. (4316)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það má magnað vera þegar 11. þm. Reykv., sem lítið hefur sinnt þingstörfum að undanförnu, heldur verið á almennu flakki, leyfir sér að taka sig til, þegar ákveðið mál er til umr. í þinginu, og taka þá upp almennt snakk um þingsköp, þingsályktunartillögur og nefndir, milliþinganefndir, sem séu að störfum, og setji hér á langar tölur um slíkt ávítulaust af hendi forseta, og forseti taki sig svo til, þegar þm. hefur lokið langri innantómri ræðu um þessa hluti, og taki það mál af dagskrá sem á dagskrá var og átti að ræða. Ég fyrir mína parta verð að víta slíkt og tel að það sé í verkahring forseta að veita þm. átötur þegar þeir fara svo gersamlega út fyrir efnið eins og hv. 11. þm. Reykv, gerði að þessu sinni. Það verður enn þá kátbroslegra þegar menn eru orðnir hálfgerðir gestaþm. hér og ætla svo að fara að leiðbeina öllum hinum þá sjaldan þeir reka höfuðið inn í deildina.