04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (4418)

111. mál, söluskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda mönnum á að það er ekki rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér væri um það að ræða að bæta við undanþáguákvæðum frá söluskatti. Hér er um að ræða undanþáguákvæði; sem þegar er fyrir í lögum, en skilgreiningin, sem fjmrh. er ætlað að gefa á þessu undanþáguákvæði, er sú, að undanþágan nái aðeins til tímarita sem ekki séu gefin út í ágóðaskyni. Það er málið. Undanþágan er þegar í lögunum; en skilgreiningarvandinn er sá, hvenær tímarit er gefið út í ágóðáskyni og hvenær ekki. Svo vill til að öll málgögn og tímarit, sem gefin eru út af stjórnmálaflokkunum í landinu; eru túlkuð þannig, að ekki sé um að ræða útgáfu í ágóðaskyni, enda þótt það sé opinbert leyndarmál að stjórnmálaflokkarnir gefi oft og tíðum út, t. d. fyrir kosningar, sérstök auglýsingablöð og annað eftir því, sem fyrst og fremst er ætlað það hlutverk að safna fé með auglýsingum fyrir kosningabaráttu viðkomandi stjórnmálaflokka.

Þá ber einnig svo undarlega við að stórt útgáfufyrirtæki hér í borginni, sem framfleytir talsvert mörgu starfsliði og hefur mikið umhendis, gefur út tiltekin tímarit sem eru vissulega glæsileg að allri gerð, en talið er að þetta útgáfufyrirtæki eigi ekki að greiða söluskatt af útgáfu sinni vegna þess að útgáfan sé ekki rekin í ágóðaskyni. Samt sem áður hrósa forsvarsmenn þessa útgáfufyrirtækis, sem er mikið og voldugt, sér jafnaðarlega af því, hvað þeir standi sig vel í þessari útgáfustarfsemi, sem ekki er annað að skilja á þessum mönnum en þeir stundi einmitt í því skyni að hafa af því einhvern ávinning, eins og gildir um flestallt sem menn taka sér fyrir hendur.

Varðandi það tiltekna dæmi sem hv. þm. tók, um erlendu tímaritin, þá er núgildandi ákvæði svo háttað, að kaupi maður erlent tímarit í bókabúð á maður að greiða af því söluskatt. Sé maður hins vegát áskrifandi að sama erlenda tímaritinu og fái það sent heim, þá greiðist ekki söluskattúr. M. ö. o. ræður þarna ferðinni hvort menn kaupa t. d. amerískt fréttatímarit, sem gefið er út einu sinni í viku, í lausasölu eða menn eru áskrifendur að þessu sama tímariti. Auðvitað er þetta mjög óeðlileg framkvæmd á mjög einföldu máli. Tillagan gengur aðeins út á eitt, ekki að menn búi til nýtt undanþáguákvæði, heldur að menn breyti skilgreiningunni og leggi ekki lengur í vald fjmrn. að taka ákvörðun um hvort tiltekið tímarit sé gefið út í ágóðaskyni eða ekki, m. a. með þeirri niðurstöðu, að eitt voldugasta tímaritaútgáfufyrirtæki í landinu, sem rekið er sem almennt viðskiptafyrirtæki, er ekki talið af hálfu fjmrn. stunda sína útgáfustarfsemi í ágóðaskyni, heldur að sú skilgreining verði upp tekin þess í stað, að rn. skeri úr um hvað teljist vera tímarit og hvað teljist vera bók og önnur útgáfa. Og það vill svo vel til, að á fundi í fjh.- og viðskn. las fulltrúi frá fjmrn. upp í stuttu máli þá skilgreiningu sem hann hyggst nota í þessu skyni, sem ég sá ekki annað en væri mjög ljós og auðskilin, þ. e. hvernig bæri að greina á milli bókar annars vegar og tímarits hins vegar.

Þetta er meginkjarni málsins, ekki að búa til nýja undanþágu frá söluskatti, sú undanþága hefur þegar verið búin til, heldur hitt, að bæta skilgreiningu á því, hvenær sú undanþága er veitt, til þess m. a. að ekki komi upp þau furðulegu tilvik að menn sem kaupa erlend tímarit í lausasölu, greiði af þeim söluskatt á sama tíma og menn, sem kaupa sömu erlendu tímaritin í áskrift, geri það ekki, svo að ekki komi upp skringileg tilvik eins og það, að eitt tímarit sé úrskurðað ekki gefið út í ágóðaskyni og því beri ekki að borga af því söluskatt á sama tíma og úrskurðað er af hálfu fjmrn., að annað hliðstætt rit sé gefið út í ágóðaskyni og því skuli borga af því söluskatt.

Þessi vildi ég aðeins koma hér á framfæri svo að menn gerðu sér alveg ljóst um hvað málið snerist.