10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja þetta mál hér nú, svo sem ég vil og þakka þeim hv. þm. öðrum, sem fyrr hafa vakið athygli á þessu sérstaka máli við umr. hér á þingi, og þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem ég er efalaus um að gefin hafa verið að bestu vitund.

Hæstv. ráðh. sagði að Verðlagseftirlitið væri betur í stakk búið til þess að fylgjast með verðbreytingunum en Neytendasamtökin, hafði þó fyrr í ræðu sinni getið þess, hversu fáliðað Verðlagseftirlit ríkisins er og raunar hörmulega í stakk búið til þess að fylgjast með verðbreytingum og framkvæmd laga þar að lútandi.

Ég get ekki nefnt tölur eða vitnað í rökstuddar skýrslur um þau áhrif sem myntbreytingin hafði á verðlagningu á landi hér. En ég hef mjög rökstudda ástæðu til þess að ætla að í skjóli myntbreytingarinnar hafi verðlag verið hækkað langt umfram það sem við höfum vitað dæmi um áður á landi hér.

Ég ber fyrir mig í þessu áliti mínu m. a. frásagnir kaupmanna, ágætra, ærukærra manna í kaupmannastétt, sem ég þekki mjög vel og hef ekki staðið að ósannsögli fyrr, þar sem þeir hafa nefnt mér dæmi um það, með hvaða hætti smávarningurinn, sem hæstv. ráðh. viðurkenndi að væri undir þetta seldur, hefur verið verðlagður mjög svo óeðlilega og langt upp fyrir það sem áður hefur verið kallað okur hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar, að ef á þessu máli væri tekið af nokkurri alvöru mundum við finna mörg refsiverð dæmi á þessu sviði. Og ég hlýt að kveða þannig að orði, að ef ætlast er til að fólkið í landinu okkar taki alvarlega svardaga um einlægan vilja til þess að berjast gegn verðbólgu og halda niðri vöruverði, þá beri réttum yfirvöldum að taka mjög fast á þessu máli og krefjast málshöfðunar, þar sem efni eru til, og koma fram refsingum, þar sem um alvarleg brot hefur verið að ræða, þó þau lúti eingöngu að svívirðilegu okri á svonefndum smávarningi.