06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4810 í B-deild Alþingistíðinda. (4614)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér er senn ljúft og skylt að svara þeim fsp. sem hér er til mín beint í sambandi við hugsanleg kaup Íslendinga á hlut í íslenska álverinu með meirihlutaeign að markmiði og stöðu mála í sambandi við þær deilur sem uppi hafa verið við Alusuisse frá því í des. 1980. Hér er hins vegar ekki tími eða vettvangur til þess að fara mjög ítarlega út í þau efni af minni hálfu þó að ástæða mætti teljast til þess að ræða ýmsa þætti þessa máls. En eins og nú er háttað starfstíma Alþingis tel ég rétt að takmarka mig hér við nokkur aðalatriði og þær fsp. sem fram hafa komið frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni.

Hann byggir fsp. sína hér á fregn, sem kom í Dagblaðinu í gær, þar sem fyrirsögn er sögð byggð á viðtali við þig og það staðhæft, að fram hafi verið lagt samningstilboð um kaup Íslendinga á álverinu í Straumsvík. Ég hef þegar leiðrétt þessa fyrirsögn Dagblaðsins sem ekki byggist á efnisatriðum sem fram koma í því sem eftir mér er haft í þessu viðtali. En ástæða er til að fara nokkrum orðum um það, sem að baki býr, og nokkur meginatriði í sambandi við þá deilu og kröfur af hálfu íslensku ríkisstj. sem fram voru bornar fyrst með samþykkt ríkisstj. 9. des. 1980, síðan ítrekaðar og nánar útfærðar með samþykkt ríkisstj. 16. júlí 1981, og einnig var gerð sérstök samþykkt af hálfu ríkisstj. í sambandi við samningaviðræður við Alusuisse 26. febr. 1982. Þetta eru þær grundvallarsamþykktir, sem gerðar hafa verið á vegum ríkisstj. og ég hef unnið eftir að þessum málum og sú álviðræðunefnd sem skipuð var um mánaðamótin júlí — ágúst 1981, þar sem eru fulltrúar frá öllum þingflokkum, þar á meðal fulltrúi tilnefndur af Alþfl. Það vekur nokkra undrun mína, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson skuli leggja hér fram sundurliðaðar fsp. varðandi atriði sem ég geri ráð fyrir að honum sé a. m. k. efnislega kunnugt um, þar eð álviðræðunefndin með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum hefur fengið upplýsingar um alla þætti þessara mála á þeim tíma sem liðinn er síðan hún var skipuð og reyndar fyrri gögn málsins. Fyrir henni hefur ekki verið neinu leynt að þessu leyti, enda til þess ætlast að hún sé trúnaðaraðili, viðræðuaðili og ráðgjafaraðili við viðkomandi þingflokka og flokksforustu, þó að vissulega hafi henni verið afhent gögn um þessi efni sem trúnaðarmál.

Það hefur legið fyrir allan þennan tíma, að meginkrafa af hálfu íslensku ríkisstj. gagnvart Alusuisse hefur verið hækkun á raforkuverði, breyting á núverandi raforkusamningi til verulegrar hækkunar og leiðréttingar á raforkuverði. Þetta hefur verið eitt meginviðfangsefni í þeim viðræðum, sem fram hafa farið, og ítrekað og mjög ákveðið og eindregið leitað eftir svörum þar að lútandi. Fleiri atriði tengjast þessu máli, en ég tel rétt að leggja hér á þetta megináherslu, því að það hefur verið áhersluatriðið af okkar hálfu í þessu efni. Ég hef sjálfur átt tvo fundi með formanni framkvæmdastjórnar Alusuisse, 25. og 26. mars s. l. og aftur í gær og í dag, til þess að knýja á um þessi atriði alveg sérstaklega. Til þessara viðræðna við dr. Paul Müller var efnt til þess að koma málum á hreyfingu eftir að Alusuisse hefði aflýst fyrirvaralaust ráðgerðum fundi viðræðunefnda 3. mars s. l. Forstjóri framkvæmdanefndar Alusuisse varð við ósk minni um að koma til fundar, og við ákváðum annan fund um málið sem nú er nýlokið. Ég tel rétt að hv. Alþingi fái að vita um niðurstöðu af þessum fundi í formi þeirrar fréttatilkynningar sem iðnrn. hefur gefið út í dag, en síðan mun ég víkja að nokkrum atriðum sem hv. þm. spurðist fyrir um.

Fréttatilkynning iðnrn. um þetta efni er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Dagana 5. og 6. maí 1982 fóru fram viðræður í Reykjavík milli Hjörleifs Guttormssonar iðnrh. og dr. Paul Müllers aðalframkvæmdastjóra Alusuisse um málefni álversins í Straumsvík. Iðnrh. lagði fram á fundunum málamiðlunartillögu um lausn á deilumálum aðila þar sem krafist var raforkuverðshækkunar hið fyrsta og lagt til að deilumál fyrri ára fari í gerð. Þar sem Alusuisse hafnaði alfarið raforkuverðshækkun var eigi unnt að halda viðræðunum áfram og lauk þeim því án samkomulags. Var ekkert ákveðið um framhald. Iðnrh. lýsti því yfir í fundarlok, að nú þyrfti hann og íslenska ríkisstj. að taka öll samskiptamál Íslands og Alusuisse til rækilegrar skoðunar og áskildi hann ríkisstj. allan rétt í þessu efni.“

Ég ætla ekki að fara að greina frá einstökum atriðum í sambandi við þennan fund sem er nýlokið, þar eð ég tel það ekki tímabært. Ég mun gera ríkisstj. ítarlega grein fyrir þessum viðræðum, og ég mun gera álviðræðunefnd með fulltrúum allra þingflokka grein fyrir viðræðunum. Ég mun einnig veita þingflokkunum aðgang að upplýsingum um gang þessara viðræðna og þá tillögu, sem ég ber fram á þessum fundi, en því miður leiddu þær ekki til jákvæðrar niðurstöðu.

Hér er mikið alvörumál á ferðinni fyrir okkur Íslendinga, þar sem eru samskiptin við Alusuisse og það óviðunandi ástand sem ríkir varðandi raforkuverð sem þetta fyrirtæki eða Íslenska álfélagið sem dótturfyrirtæki þess greiðir til okkar Íslendinga og sú tregða og fyrirstaða sem verið hefur á því að verða við réttmætum og rökstuddum óskum íslenskra stjórnvalda, óskum, sem studdar eru af öllum stjórnmálaflokkum, um leiðréttingu á raforkuverðinu sem svarar til yfir helmings af þeirri orku, sem Landsvirkjun selur, og nærri 45% af þeirri orku, sem notuð er árlega í landinu í heild. Það er mikið alvörumál og mikil nauðsyn á að fá þar fram breytingar. Það verður því viðfangsefni stjórnvalda og ríkisstj. að fjalla um það, hvernig við þessum aðstæðum skuli brugðist, og að sjálfsögðu væntum við að fyrirtækið Alusuisse sjái sig um hönd fyrr en seinna þrátt fyrir þær neitanir við réttmætum kröfum okkar og óskum sem fram hafa verið reiddar til þessa.

Ég vil þá koma að fsp. hv. þm. sem fyrst og fremst vörðuðu þá fregn sem fram kom í Dagblaðinu í gær með fyrirsögn af blaðsins hálfu, þar sem spurt var af hv. þm. hvort ég hafi gert samningstilboð um kaup eða hafi í hyggju að gera það. Eins og hv. þm. gat um hefur annað komið fram í millitíðinni af minni hálfu, en það er nauðsynlegt að skýra fyrir hv. alþm. hvaða hugmyndir eru þarna á ferðinni og hvaða samningsdrög liggja fyrir um þetta efni og inn í hvaða samhengi þau drög ganga.

Ríkisstj. gerði 16. júní s. l. samþykkt um ákveðin áhersluatriði sem komið var á framfæri við Alusuisse. Þessi samþykkt hafði að geyma m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna væntanlegra samningaviðræðna við Alusuisse er af hálfu ríkisstj. m. a. lögð áhersla á eftirfarandi meginatriði:

a) greiðslur af vangoldnum sköttum, framleiðslugjaldi vegna of hárrar verðlagningar á aðföngum til ÍSALs, á tímabilinu 1975–1980,

b) endurskoðun á gildandi samningsákvæðum um framleiðslugjald í því skyni að tryggja öruggar skatttekjur frá ÍSAL,

c) endurskoðun á samningi um raforkusölu til ÍSALs í því skyni að fá verulega hækkun á raforkuverði, og

d) eignaraðild Íslendinga að fyrirtækinu með meirihlutaeign í áföngum að markmiði.“

Fleiri atriði voru tilfærð í þessari samþykkt ríkisstj. frá 16. júlí, en ég hef hér nefnt fjögur þau sem fyrst eru tilgreind, og eins og þar kom fram var eitt atriðið eignarhald Íslendinga að fyrirtækinu með meirihlutaeignaraðild að markmiði. Þessi mál hafa komið fram í viðræðum við Alusuisse á þessum tíma, þar eð óskir ríkisstj. hafa verið fram bornar að sjálfsögðu við Alusuisse og þessi samþykkt sem ég vitnaði hér til, var lögð fram á viðræðufundi aðila 3. og 4. ágúst s. l., fyrsta viðræðufundi álviðræðunefndar með fulltrúum frá Alusuisse. Síðan hefur íslenska ríkisstj. gert samþykktir í sömu átt, og iðnrn. hefur að sjálfsögðu unnið að því að athuga með hvaða hætti skynsamlegt gæti verið að tryggja slíka eignaraðild og draga úr þeirri áhættu sem öllum er ljóst að fylgt getur fjárfestingu og eignaraðild að slíkum stóriðjurekstri nema vel sé um hnúta búið. Þetta á ekki síst við um álið, hráál, sem hefur verið í höndum tiltölulega fárra aðila, fyrst og fremst 6 auðfélaga, til skamms tíma, en þar sem tök þeirra hafa þó verið að linast á undanförnum árum. Því er það að við höfum átt viðræður við ýmsa erlenda aðila sem sýnt hafá áhuga á því að eiga samskipti við Íslendinga um álvinnslu, m. a. með þeim hætti að gera við okkur langtímasamninga um framleiðslu á áli sem þeir keyptu af okkur með langtímasamningum og þeir sæju okkur fyrir hráefni til að framleiða. Þetta fyrirkomulag, sem þekkt er og það í vaxandi mæli í viðskiptaheiminum, hefur verið kallað á enskunni „conversation“, eins konar vöruskiptafyrirkomulag þar sem sá aðili, sem annast framleiðsluna, tekur að sér gegn tilteknu gjaldi og með tilteknum hætti að sjá um framleiðsluna og fyrir utan skattahagnaðargreiðslur og annað, sem um væri samið, yrði byggt inn í slíka samninga tiltekið raforkuverð. Í samningsdrögum, sem gerð hafa verið við aðila um þessi atriði, að sjálfsögðu með fullum fyrirvara um það, að samkomutag takist um það eða mál ráðist þannig að Íslendingar telji sér hag í því að gerast meirihlutaeignaraðilar að Íslenska álfélaginu, þá hafa verið gerð samningsdrög þar að lútandi með þessum atriðum inni og með raforkuverði sem svarar til framleiðslukostnaðar frá þeim virkjunum sem við vorum að samþykkja að ráðast í við atkvgr. rétt áðan. Þetta verð á bilinu 15–20 aurar eða sama upphæð í mills talið er það sem við erum að reisa kröfur um að fá við endurskoðun á raforkuverði við Íslenska álfélagið og í viðræðum við Alusuisse. Ég þarf ekki að eyða að því orðum, að ég hygg, þar eð það á að vera öllum hv. alþm. ljóst, að vilji aðila til þess að standa að samningum við okkur um slík atriði hlýtur að styrkja stöðu okkar Íslendinga í þeim samningaviðræðum sem hafa staðið yfir og verður að leiða til lykta með einum eða öðrum hætti fyrr en seinna.

Menn spyrja með hvaða hætti gert hefur verið ráð fyrir eignaraðild og fjármögnun. Fram hefur komið í viðræðum við fleiri en einn aðila, að þeir mundu aðstoða íslenska ríkið við fjármagnsútvegun til þess að gera því kleift að kaupa hlutabréf í Íslenska álfélaginu og standa undir fjármagnskostnaði og um þetta yrði gerður heildarsamningur. Ég tel að hér sé svo athyglisvert mál á ferðinni að það væri goðgá af hálfu íslenskra stjórnvalda að halda ekki slíkum möguleikum opnum og undirbúa slíka samninga sem að sjálfsögðu yrðu að fá samþykki réttra íslenskra stjórnvalda. Og að sjálfsögðu mun ekki fara fram hjá neinum ef á það reynir að við getum ráðist í það að taka yfir meiri hluta í þessu fyrirtæki eða þaðan af meira.

Ég vil svo aðeins víkja að atriði sem hv. þm. nefndi og spurðist fyrir um. Það eru deilumál varðandi viðskipti í fortíðinni við Alusuisse. Það er mjög langt frá því, að þeim málum hafi verið stungið undir stól. Fyrir liggur endurskoðun eins virtasta erlenda endurskoðunarfyrirtækis í heimi, sem íslensk stjórnvöld hafa leitað til margsinnis í sambandi við vandasöm mál og þ. á m. í sambandi við viðskipti Íslenska álfélagsins, — endurskoðun þess á ársreikningum Íslenska álfélagsins fyrir árið 1980. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar var kunngerð á sínum tíma og viðkomandi framleiðslugjald, hátt í 2.5 millj. Bandaríkjadala, var skuldajafnað af innistæðu á svokölluðu skattainnleggi hjá fjmrn. Íslenska álfélagið hefur mótmælt þeirri ráðstöfun og kom það út af fyrir sig engum á óvart. Í þeim viðræðum, sem fram hafa farið við Alusuisse, og í þeirri till., sem ég reiddi fram í dag í viðræðum við dr. Paul Müller, var ítrekuð tillaga sem íslenska ríkisstj. hefur staðið að fyrir sitt leyti, að deilumálum varðandi fortíðina verði vísað í gerð, að um það verði gert samkomulag milli aðila að vísa deilumálum varðandi ágreiningsefni um verðlagningu á aðföngum til Íslenska álfélagsins á tímabilinu 1975–1980 í gerð.

Þetta hefur komið fram ítrekað af hálfu okkar í þessum viðræðum og þetta hefur komið fram ítrekað í málgögnum stjórnarandstöðunnar, að hún teldi þetta eðlilega málsmeðferð. Við þessum tillögum af okkar hálfu hefur ekki verið orðið fremur en þeirri till., að Alusuisse fallist á að hækka raforkuverð til Landsvirkjunar, endurskoða raforkusamninginn í framhaldi af slíkri hækkun, sem yrði að gerast fyrr en seinna, og taka upp endurskoðun samninga og samskipta við íslensk stjórnvöld.

Það mætti mjög margt um þessi efni segja. Ég skal stytta mál mitt. En ég vil minna á það, að við erum að fjalla hér um nýtingu á einni af aðalauðlind þjóðarinnar, vatnsorkunni. Við skulum minnast þess, Íslendingar, að í okkar dýrmætu auðlind, fiskimiðin, var sótt með rányrkju af útlendum aðilum með þeim hætti sem allir landsmenn þekkja á sínum tíma, og við skulum minnast þess, hvernig íslenska þjóðin brást við slíku. Ég tel eðlilegt að menn hafi í huga, þegar rætt er um þetta mál, að við erum hér að ræða um ráðstöfun útlendinga á einni dýrmætustu auðlind þjóðarinnar, vatnsorkunni, og við höfum skýr sanngirnisrök fyrir kröfum okkar til þess að fá leiðréttingu á því. Það verður áfram megináhersluatriði í sambandi við kröfugerð gagnvart Alusuisse. Því miður hefur fyrirtækið ekki undir þær kröfur tekið. Það verður viðfangsefni íslenskra stjórnvalda, íslensku ríkisstj. og íslenskra alþm., að íhuga á næstunni með hverjum hætti þar verði við brugðist.