07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifnr Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem fram hafa komið við frv. það sem ég mælti hér fyrir áðan um verðjöfnunargjald af raforku, og þykir mér vel horfa um framgang þess miðað við það sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. En vegna þeirra umr., sem hér hafa síðan spunnist um verðjöfnun á orku til húshitunar, vil ég bæta við örfáum orðum.

Mér finnst nú sem oft áður gæta nokkurs misskilnings og tilhneigingar til einföldunar í máli sumra hv. þm. sem hér hafa til máls tekið um þetta efni, eins og hv. 11. landsk. þm. og hv. 4. þm. Vestf. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir alla hv. alþm. að átta sig á því, að niðurgreiðslu á orku fylgir margháttaður vandi. Það er um býsna margslungið mál að ræða, og dreg ég þó síður en svo úr þörfinni á að ná árangri og mun meiri árangri en orðið hefur í að jafna upphitunarkostnað í landinu. Annað væri ekki eðlilegt, þar sem ég þekki mjög vel til þess í mínu kjördæmi, minni heimabyggð, hversu mjög sá mismunur bitnar á fjölda manns þegar tekið er tillit til og tekið mið af meiri hluta þjóðarinnar sem býr við margfalt, margfalt minni kostnað í þessum efnum, a. m. k. fjórfalt minni kostnað miðað við meðaltalstölur eða nátægt því. Tölur í þessu efni eru hins vegar nokkuð vandmeðfarnar vegna þess að það fer auðvitað eftir mörgu hversu hár reikningurinn verður í reynd, bæði stærð og gerð húsnæðis, og þegar um olíukyndingu og niðurgreidda olíu er að ræða fer það eftir fjölskyldustærð líka. Því eru menn yfirleitt með meðaltalstölur. Ef þeir vilja gæta hófsemi og sanngirni í málflutningi, þá er eðlilegt að beita slíkum tölum. Það má alltaf finna jarðtilvik, sem skera sig allverulega úr og þar sem sýna má fram á meiri mismunun, og það þarf þá að breyta regtum þannig að þær verki með eðlilegum hætti.

Ég ætla ekki að fara út í viðtækar umr. um þetta mál. Sérstök nefnd skipuð fulltrúum manna úr öllum flokkum, sumpart skipuð þm., er að fjalla um þessi mál og leggja mat á þau. En ég vil vekja athygli á eftirfarandi tölum sem við höfum um áætlaðan húshitunarkostnað miðað við verðlag í okt. 1981. Það hafa að vísu orðið gjaldskrárbreytingar síðan, en ég hygg að það raski ekki því sem ég greini hér frá. Þetta eru vissulega meðaltalstölur. Það eru áætlaðar tölur um húshitunarkostnað á ýmsum stöðum á landinu miðað við 400 rúmmetra stærð íbúðar og hitunarkostnað sem hlutfall af kyndingarkostnaði með otíu að teknu tilliti til niðurgreiðslu, til oíustyrksins eins og hann er nú. Þá kemur fram að rafhitunin er 80% af kyndingarkostnaði niðurgreiddrar olíu miðað við þessa stærð íbúðarhúsnæðis. Það munar því ekki ýkjamiklu. Það hlýtur því að vera álitamál hvort þessi munur er nógu mikill til þess að fyrir liggi eðlileg hvatning til að breyta í innlendan orkugjafa.

Hitt er svo annað mál og umhugsunarefni, verðlagið á raforkunni sem slíkri. Er það of hátt? Það er eflaust hægt að fá mismunandi svör í þeim efnum. En vísir menn, sem á þessi mál hafa litið, fullyrða — og ég hef flutt þær tölur hér inni á Alþingi í umr. um þessi mál — að raforku til húshitunar sé í reynd seld undir framleiðslukostnaði, undir því sem viðkomandi fyrirtæki þyrftu að fá til þess að bera uppi framleiðslukostnaðinn. En inni í því dæmi er vissulega sá hluti sem hvergi kemur inn þegar við erum að innheimta verðjöfnunargjald og ekki kemur mikið inn í þessa umr. Það er verðlagning á orku til stóriðju í landinu sem er sannarlega býsna langt undir framleiðslukostnaði og skekkir þetta dæmi ekki lítið. En þegar það er tekið út úr fullyrða þeir, sem fyrir orkuframleiðslunni standa, að raforkan sé seld á undirverði, sé seld undir framleiðslukostnaði.

Þarna er sem sagt 20% munur, miðað við þessa íbúðarstærð, á rafhituninni og olíukyndingunni. En þetta segir ekki alla sögu, því að við erum að leggja hitaveitur í landinu. Það hefur gerst mikið í þeim efnum og eftir því sem við náum lengra þar fækkar þeim sem þurfa á olíu að halda til upphitunar. Einnig er unnið að því eftir rafhitunarleiðinni. Við höfum hitaveitur sem eru í verðlagningu sinni yfir rafhituninni og jafnvel yfir olíukyndingunni. Ég hef dæmi um hitaveitu austur á landi, Hitaveitu Egilsstaða, sem samkv. þeim tölum, sem ég hef er nokkuð yfir hitunarkostnaði með olíu að teknu tilliti til olíustyrks. Sama gildir um Hitaveitu Suðureyrar sem hefur fengið sérstakan stuðning til þess að greiða niður sinn kostnað og er yfir kostnaði við olíuhitun að teknu tilliti til olíustyrks. Og við höfum hér hitaveitur, sem eru ekki langt frá og eru yfir rafhitunartaxtanum, eins og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, nýja hitaveitu. Hún er með 90% af kyndingarkostnaði með olíu samkv. sinni verðlagningu. Þetta er ný hitaveita sem hefur lagt í mikla fjárfestingu, og þeir, sem fyrir henni standa, hafa tekið ákvarðanir um að hafa þessa gjaldskrá og fengið leyfi til þess. Fleiri hitaveitur eru svo mjög nálægt verðlagningu á raforku, nálægt þessum 80% af upphitunarkostnaði með olíu. Þetta tel ég rétt að komi hér fram.

Hv. 4. þm. Vestf. talar hér sem oft áður um að stórauka þurfi niðurgreiðslu á olíu. Hann flutti fyrir tveimur árum eða svo tillögur sem voru þannig, þegar búið var að fara yfir þær og greina, að hann var kominn með niðurgreiðslu á olíu sem nam, að mig minnir, um 60% af kyndingarkostnaði með rafmagm. Þá er náttúrlega ljóst að menn yrðu að fara að safna í alldigran sjóð til jöfnunar til að greiða niður innlendu orkugjafana líka.

Það er þetta sem menn þurfa að gæta sín á. Það er ósköp einfalt að segja: Við skulum bara greiða niður olíuna og greiða niður olíuna. — Það hljómar vel í eyrum þeirra sem búa við þennan dýra hitunargjafa. En við verðum að gá að því, hvert við erum að fara. Við verðum að gá að því, hvað fylgir með og að við drögum ekki úr möguleikum til þess að útrýma olíunni líka úr húshitun, sem er eitt fremsta markmið okkar og á að vera það í sambandi við þessi mál.

Það er fleira sem hefur hækkað en olían á tímabilinu síðan lögin um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar voru sett. Hv. þm. vitnaði hér til að olíustyrkurinn ætti að nema 360 kr., minnir mig, í staðinn fyrir 200. Það hefur fleira hækkað á því tímablli frá því að lögin voru sett. Þá var nefnilega teflt á tæpasta vað hvað snertir að hafa einhvern hvata til að menn skiptu yfir á innlendan orkugjafa. Það stóð nokkurn veginn á jöfnu á þeim fíma. Og það er kannske ein meginskýringin á því, að ekki hefur verið talið rétt að bæta þarna við. Ég tel hins vegar mjög eðlilegt að yfir það mál sé farið af fullu raunsæi og athugað hvort ekki sé réttlætanlegt og skynsamlegt að hækka þessa upphæð eitthvað. Síðan er það enn annað mál, hvort fjármununum, sem veittir voru til niðurgreiðslna á olíu, yrði ráðstafað til annarra hluta í sambandi við verðjöfnun á orku. Það gætu menn út af fyrir sig litið á sérstaklega.