25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með þær umr. sem hér fara fram. Ég verð þó að segja, eins og hér hefur verið sagt áður, að ég átti ekki von á að enn væri hér á hv. Alþingi fulltrúi svo gamalla viðhorfa í þessu máli eins og hv. 8. landsk. þm. virðist vera. Ég harma að hv. 8. landsk. skuli hafa lýst fyrir hönd síns flokks yfir sjálfsagðri andstöðu við þetta mál, einfaldlega vegna þess að með því er verið að lýsa andstöðu við að hægt sé að meta varnarþarfir og varnarmöguleika Íslands með íslenskum augum. Það var á sínum tíma tekið skref í þessu efni þegar könnunar- og rannsóknarnefnd þingflokkanna, öryggismálanefndin, var sett á laggirnar. Hún hefur gert ákveðið gagn. Hún hefur breytt umr.

Ég vil í því sambandi benda á t.d. hvernig hv. 11. þm. Reykv. hefur haldið á málflutningi síns flokks. Það er með allt öðrum hætti. Ég er hér með nokkrar tilvitnanir í hans mál frá því hann flutti hér ræðu 12. nóv. 1981, en hv. 11. þm. Reykv. er formaður þingflokks Alþb. Þá sagði hv. 11. þm. Reykv., með leyfi forseta:

„Það er ósköp skiljanlegt að við hér á Íslandi höfum ekki mikla þekkingu á þessum efnum. Við höfum ekki haft her. Við erum ekki hernaðarmenntuð þjóð. Öll þessi orð, SS-20, SS-4, SS-5, Poseidon, Polaris, Trident o.s.frv, eru nöfn sem við vitum ósköp lítið hvað að baki liggur, nema það sem við lesum í dagblöðum. Staðreyndin er samt sem áður sú, að á rúmlega 20 árum hafa risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, komið sér upp svo flóknu kerfi gereyðingarvopna, að það þarf langan tíma til að setja sig inn í eðli þess. Það er kjarnorkuvopnakerfi“ o.s.frv. o.s.frv.

Og síðar í sínu máli segir hv. 11. þm. Reykv.: „Íslenskir þm. t.d., sem taka þátt í samtökum Atlantshafsbandalagsins, sækja ekki fundi hermálanefndarinnar að öllu jöfnu. Þeir hafa látið hina herfræðilegu umræðu afskiptalausa, en það er sú umræða sem er kjarni málsins. Það er sú umræða sem gerir okkur kleift að meta það, hvers vegna við erum á móti SS-20, hvers vegna við erum á móti Pershing II og hvers vegna við erum á móti stýrieldflaugunum.“

Ég lít svo á, að með þessum orðum sínum hafi hv. 11. þm. Reykv. verið að benda á að þeir sem sækja þingmannafundi Atlantshafsbandalagsins ættu að sækja hermálanefndarfundina einmitt í því skyni að kynna sér þessi mál rækilega, og ég tel að ummæli hans um hve langan tíma tekur að afla þessara upplýsinga hljóti að renna stoðum undir að hv. 11. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþb., skilji nauðsyn þess að hér sé innlend sérfræðileg þekking í höndum stjórnvalda.

Ég ætla að halda áfram, af því að þetta er ágæt ræða, sem ég vitna hér til, ræða hv. 11. þm. Reykv. Hann segir síðar í sinni ræðu, með leyfi forseta:

„Við ræðum oft hér um öryggismál á Íslandi út frá umræðugrundvelli sem fyrst og fremst er mótaður af seinni heimsstyrjöldinni.“ — Ég skýt því hér inn að við heyrðum einmitt slíka ræðu áðan flutta af 8. landsk. Nú held ég áfram lestrinum: „Sá tími er því miður liðinn. Veröldin í dag er miklu flóknari. Það er miklu meira verk, það er miklu meiri vinna að setja sig inn í þau deilumál sem núverandi hernaðarumræða snýst um. Íslendingar mega ekki setja sig í þá stöðu að taka bara sem góða og gilda vöru þær áróðursplötur sem fulltrúar stórveldanna spila fyrir okkur um þessi efni, hvort sem það eru fulltrúar Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna.“

Og loks vil ég vísa til ummæla hv. 11. þm. þar sem hann segir:

„Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem sjálfstætt ríki að gera okkur grein fyrir hvað hér er verið að tala um, að átta okkur á hinu sanna og rétta í þessu efni, vegna þess m.a. að við erum aðildarríki NATO og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum í Sameinuðu þjóðunum og þar greiða fulltrúar Íslands atkvæði, við erum kallaðir til að taka afstöðu. Það er lágmarkskrafa að við tökum þá afstöðu á grundvelli þekkingar.

Hér lýkur tilvitnun í hv. 11. þm. Reykv., sem er formaður þingflokks Alþb., og ég get ekki með eigin orðum, frá eigin brjósti, flutt betri ræðu sem rök fyrir því að okkur Íslendingum beri skylda til að koma á fót stjórnvaldi sem byggi yfir þeirri íslensku þekkingu sem nauðsynleg er til þess að við getum metið það sjálf hvernig við viljum hafa varnirnar, veikari eða sterkari, hverjir varnarmöguleikarnir eru á hverjum tíma og það sé gert með þeim hætti sem gert er í sjálfstæðu ríki.