02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

91. mál, hvalveiðibann

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Við erum vissulega að fjalla hér um viðkvæmt mál og vandmeðfarið. Sannfærður er ég um að enginn þm. tekur léttilega á hagsmunum hvalveiðimanna og þeirra fjölskyldna sem eiga hagsmuni sína undir hvalveiðum Íslendinga. Það er ekki það sjónarmið sem ræður hjá einum einasta okkar. En því miður hafa mál skipast svo, að við mótmæltum ekki þessu banni um leið og aðrar hvalveiðiþjóðir. Því stöndum við einir og mótmæli okkar munu vekja gífurlega athygli í Bandaríkjunum og má segja um heim allan.

Ég held að enginn vafi sé á að það sem ræður ferðinni hjá okkur öllum er það, að við verðum að bera saman þá hagsmuni sem þarna eru í húfi. Við skulum ekki gleyma því, að til Bandaríkjanna flytjum við frá 60 og upp í 74% af öllum frystum sjávarafurðum okkar. Það hefur tekið okkur hálfan fjórða áratug að vinna okkur þann sess á þessum markaði sem við skipum nú. Við erum búnir að vinna vörumerkinu „Icelandic“ þann sess að við seljum fyrir miklum mun hærra verð en nokkrir aðrir keppinautar okkar nú gera. Við eigum ekki að taka þá áhættu sem það er að gefa keppinautum okkar annars staðar í heiminum tækifæri til að komast inn á þennan mikilvæga markað og komast inn á okkar mikilvægustu viðskiptavini. Við skulum hafa í huga, að hvað sem við gerum hér og ef það yrði gripið til mótmæla fáum við ekki með neinum hætti ráðið við almenningsálitið. Það eru önnur öfl sem þar ráða en við hér.

Það er enginn vafi að við getum notað þann aðlögunartíma sem skapast næstu 3–4 ár, til þess að vinna hvalveiðum aftur viðurkenningu. Ég vil taka undir það sjónarmið, sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., að við erum ekki að afsala okkur neinum rétti með því að mótmæla ekki. Við skulum líka hafa í huga að við erum hér að tala um að hætta hagsmunum heillar atvinnugreinar. Við erum ekki að fala um eitt einstakt fyrirtæki þar sem fiskvinnslan er á Íslandi. Þetta er ein öflugasta og sterkasta atvinnugrein okkar. Og við skulum hafa það líka í huga, að ef við mótmælum er þegar orðinn skaði og þann skaða yrðum við lengi að vinna upp aftur og kannske tækist okkur það ekki.

Auðvitað getum við viðurkennt að þáttur þessara 66 öldungadeildarþm. Bandaríkjanna er leiðinlegur. En við skulum hafa í huga að þessir menn eru, ekki síður en þeir sem hér starfa, undir stöðugum þrýstingi kjósenda og þess vegna hafa þeir tekið þessa afstöðu.

Ég tel að við tökum allt of mikla áhættu með því að mótmæla þessu hvalveiðibanni. Við skutum gera okkur grein fyrir þeim gífurlegu áhrifum sem menntastéttin hefur í Bandaríkjunum. Við skulum gera okkur grein fyrir að það er unnið fyrir náttúruverndarsamtök alls staðar í skólum og meðal æskunnar, og það er æskan sem getur haft þarna gífurleg áhrif.

5. þm. Vesturl. talaði nokkuð um fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Ég vil taka undir það. Þetta hefur vakið mikla athygli. Ég hef hugsað um það töluvert þessa síðustu daga, hverjir þar réðu ferðinni og hverjir réðu þeim fréttaflutningi sem þarna kæmi fram. Ég geri ráð fyrir að okkur geti alla rennt grun í það. En það berast líka fréttir til Íslands eftir öðrum leiðum vestan úr Bandaríkjunum. Það berast t. d. fréttir um að núna berist stöðugar hringingar og bréf komi í þúsunda tali til eins af helstu viðskiptavinum okkar, sem er Long John Silver's. Hann kaupir fyrir hvorki meira né minna en 30 millj. dollara á hverju ári núna og er með 1100–1200 veitingahús. Þessi viðskiptaaðili hefur miklar áhyggjur af því sem þarna er að gerast. Þessar hringingar berast frá alls konar dýraverndunarfélögum og náttúruverndarsamtökum. Sama gerist líka hjá fyrirtæki, sem rekur um 2200 veitingahús, og heitir Groker. Þeir verða núna fyrir stöðugt auknum þrýstingi vegna frétta sem berast héðan um að við ætlum að mótmæla hvalveiðibanninu. Við skulum því ekki gera lítið úr þeirri áhættu sem við tökum.

Ég tel að það sé ekki við hæfi að nota um þetta orð eins og kjarkur og kjarkleysi, hræðsla og annað því um líkt. Ég tel að við séum hér að fjalla um hagsmuni og hér eigi bara að fara fram kalt hagsmunamat. Við hljótum að hafa í huga hagsmuni þúsunda íslenskra sjómanna, íslensks fiskverkunarfólks, fyrirtækjanna kringum landið og jafnvel fiskibæjanna. Og við skulum hafa það í huga, þegar við greiðum atkvæði, að við erum að greiða atkvæði um lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Ég hvet menn til að styðja meirihlutaafstöðu utanrmn.