08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega um stórt og mikið vandamál að ræða, sem hér er nú tekið til umr. utan dagskrár, og það svo stórt að ég held að þm. almennt komist ekki h já því að reyna að komast að raun um hvað í raun og veru er hér að gerast.

Menn hafa spurt hæstv. ráðh. hverjar tillögur hans séu til úrbóta eða lausnar á þessu vandamáli. Hans tillögur eru í því fjárlagafrv. sem liggur nú fyrir Alþingi. Það eru tillögur hæstv. menntmrh. og ríkisstj. sem heildar í þessu máli. Hitt væri kannske réttara, að spyrja hæstv. ráðh. um hvað hann telur persónulega að þurfi að koma þarna til viðbótar til þess að málum Námsgagnastofnunar sé sæmilega borgið, þó ekki sé meira sagt.

Samkv. reikningi hjá þessari stofnun fyrir árið 1981 var heildartalan sem þar var um að ræða röskar 9.7 millj. Í fjárlögum fyrir árið 1982 voru þetta tæpar 11.2 millj. Í tillögum stofnunarinnar sjálfrar, sem hún sendi frá sér væntanlega til menntmrh. og ráðuneytis, voru rösklega 32.1 millj. Þetta er sú tala sem stofnunin sjálf telur að þurfi að vera ákvörðunartala í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1983. Ef menn framreiknuðu þessa tölu til áramótanna núna, 1982–1983, — en taki menn eftir því að talan 32 millj. röskar er líklega miðuð víð maíverðlag, þegar þessi tillaga er gerð — þá er sú tala orðin 41.8 millj. sem stofnunin telur sig þurfa til að henni sé borgið og séð sé fyrir brýnustu verkefnum á næsta ári. Tillaga hæstv. ráðh. er upp á 15 millj. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að þessi stofnun fái til að spila úr á næsta ári röskar 15 millj., en stofnunin sjálf telur sig þurfa 41.8. Þetta er í sjálfu sér ekkert einsdæmi, ef menn skoða á annað borð hinar ýmsu stofnanir í ríkiskerfinu og bera síðan saman það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að þessar ýmsu stofnanir fái til ráðstöfunar á næsta ári.

Það er ljóst, að ýmsir hæstv. ráðh. hafa lýst því yfir að fjárlög fyrir árið 1983 mundu verða kreppufjárlög. Bæði hæstv. sjútvrh. og að ég held hæstv. menntmrh. hafa a.m.k. látið í þetta skina, ef ekki lýst því yfir, og út af fyrir sig er kannske lítið við því að segja. Slíkt ástand getur skapast, að það þurfi að draga úr hinum ýmsu fjárveitingum til hinna ýmsu mála, en að því er þessa stofnun varðar er um svo alvarlegt mál að ræða að ég held að menn komist ekki hjá því, allra síst kemst hæstv. ráðh. h já því, að segja til um hvað hér þurfi að bæta við til þess að stofnuninni sé borgið á næsta ári.

Komi ekkert til viðbótar því sem hæstv. ráðh. og ríkisstj. leggja nú til í fjárlagafrv. er augljóst að stofnuninni verður lokað. Ég held því að það verði að gera þá kröfu til hæstv. ráðh. að hann segi Alþingi frá því, hvað það er sem hann ætlar sér að berjast fyrir til hækkunar í meðförum Alþingis á fjárlagafrv. að því er varðar þessa stofnun sérstaklega. Ég held að þm. hljóti að krefjast þess — og ekki bara þm.: Almenningur í landinu, skólafólkið, þeir sem ráða þar ríkjum, nemendur og foreldrar krefjast þess að fá svör við því hvað hæstv. ráðh. ætlar sér að gera að því er varðar lausn á þessu mjög svo mikla vandamáli.