16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hinn 11. maí 1981 skipaði hæstv. menntmrh. nefnd til að kanna leiðir til eflingar Kvikmyndasjóði Íslands. Forsaga þessarar nefndarskipunar var sú, að á 102. löggjafarþingi lagði þáv. hæstv. menntmrh., Vilmundur Gylfason, fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 14 frá 1978 um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð. Því frv. var vísað til ríkisstj. í trausti þess, að lausn fengist á fjárhagsvanda sjóðsins síðar á árinu, en í frv. þessu var lagt til að sérstök fjárhæð skyldi lögð á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og skyldi hún renna í Kvikmyndasjóð.

Í þeirri nefnd sem skipuð var 11. maí 1981 áttu sæti hv. þm. Vilmundur Gylfason, Halldór Blöndal og Guðrún Helgadóttir, tilnefnd af sínum þingflokkum, Sigmar B. Hauksson, tilnefndur af Framsfl., Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður, tilnefndur af Félagi kvikmyndagerðarmanna, Jón Böðvarsson, tilnefndur af fjmrn., Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur, tilnefndur af menntmrh., og skyldi hann vera formaður nefndarinnar.

Nefndin hóf störf um vorið. Varð fljótlega um það samkomulag að nauðsynlegt væri að endurskoða frá runni lög um Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasafn Íslands. Þó að lögin séu ekki eldri en frá 1978 hefur ótrúleg þróun orðið í kvikmyndagerð í landinu. Á þessum fáu árum hafa komið til landsins vel menntaðir kvikmyndagerðarmenn, sem sýnt hafa og sannað að hér í landi eru öll skilyrði til góðrar kvikmyndalistar, bæði hvað varðar faglega þekkingu og listræna getu. En kvikmyndagerð er kostnaðarsöm listgrein. Hingað til hafa menn lagt í stórfelld fjárútlát á eigin ábyrgð, með velvilja einstakra banka og jafnvel vina og vandamanna, en þannig er ekki unnt að vinna að kvikmyndagerð til lengdar.

Kvikmyndagerðarmenn verða að eiga aðgang að lánsfé, bæði til að framleiða kvikmyndir og dreifa þeim, ella er vonlaust að kvikmyndalist eigi nokkra framtíð hér í landi. Kvikmyndagerðarmenn hafa lagt á það áherslu að kvikmyndagerð geti orðið arðbær listgrein ef Kvikmyndasjóður gerir þeim kleift að vinna að list sinni. Að því lúta tillögur nefndarinnar.

Hin þingskipaða nefnd lauk störfum haustið 1981 og hafði þá lagt af mörkum verulega vinnu við samningu draga að frv. Var þeim skilað til hæstv. menntmrh. skömmu áður en þing kom saman. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Ekkert er eðlilegra en að einhverjar breytingar þurfi að gera á drögum nefndarinnar og þess skal getið, að einn nefndarmanna, hv. þm. Halldór Blöndal, skrifaði undir þau með fyrirvara. Hafa t.d. komið fram hugmyndir um að fjárframlögum til Kvikmyndasafns ríkisins verði á annan veg farið en frv. gerir ráð fyrir og menn hafa einnig ýmislegt um almenna fjármögnun sjóðsins að segja. Út í það skal ekki farið hér, enda ástæðulaust að fara að deila um efnisatriði, en það getur varla talist óeðlilegt að spurst sé fyrir um afdrif þessa frv. eða þessara frumvarpsdraga, þegar ár er liðið frá því að störfum nefndarinnar lauk.

Herra forseti. Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. sem liggur hér frammi á þskj. 40 og hljóðar svo:

„Hvenær má vænta að frv. til laga um Kvikmyndasjóð Íslands verði lagt fram á Alþingi?“