30.11.1983
Neðri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

85. mál, sveitarstjórnarkosningar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er lagt hér fram, tel að það sé margt í því sem sé til bóta. En að sjálfsögðu er það svo að viss atriði vekja umhugsun.

Ég vil fyrst víkja að kjördegi. Ég hygg að það sé heppilegast að kjósa fyrsta sunnudag í júní. (Gripið fram í.) Já, þar fór í verra. Annan sunnudag í júní, segir Svavar Gestsson, hv. 3. þm. Reykv. Ég var ekki búinn að hugleiða þetta mjög mikið þegar ég sagði fyrsti sunnudagur, en ég vil koma því á framfæri að ég er sammála því sem kom hér fram hjá hv. 4. þm. Suðurl., að það er ekki sanngjarnt gagnvart sjómannastéttinni og þeim sem vinna við fiskvinnslu í þessu landi að ætla að knýja á með að hafa sveitarstjórnarkosningar þegar vinnuálag er mest hjá þessum stéttum. Og mér finnst það heldur ekki sanngjarnt gagnvart sveitunum að ætla að knýja á það að kosningar fari fram í maí þegar vinnuálag er einnig mjög mikið hjá bændum landsins.

Nú er mér ljóst að sveitarstjórnir almennt munu e.t.v. ekki hafa nákvæmlega sömu skoðun á þessu máli og kjósendur. Það sem trúlega hefur haft áhrif á afstöðu sveitarstjórna er það að þær líta svo á að sumarið sé framkvæmdatími sveitarfélagsins og þess vegna sé eðlilegt að ný sveitarstjórn taki við annaðhvort áður en framkvæmdir hefjast eða eftir að þeim er lokið. En samkvæmt sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir því að fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélögin sé samin um áramót og þess vegna á það ekki að koma svo mjög að sök þó að skipt sé um á þessu tímabili. Ég legg eindregið til að menn velji frekar júnímánuð.

En það er annað atriði í þessu frv., í 4. gr., sem ég er miklu hræddari við. Það er ákvæðið um að sveitarstjórn eigi ekki að taka við fyrr en 15 dögum eftir að hún hefur verið kosin. Þetta vekur nefnilega mikla umhugsun. Er það sanngjarnt t.d. að fallin sveitarstjórn taki sig til og fari að útdeila lóðum? Er skynsamlegt að ganga þannig frá þessum málum að hún geti tekið ákvarðanir sem vitað sé að eru í algjörri andstöðu við þann meiri hluta sem búið er að kjósa, ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar?

Ég tel að það sé ekki verjandi að ganga þannig frá þessum málum. Ég tel að það sé sjálfsagður hlutur að kjörin sveitarstjórn taki við öllum bindandi ákvarðanatökum fyrir sveitarfélagið um leið og hún hefur verið kjörin. Mér sýnist að undir sumum kringumstæðum gæti meiri hluti í sveitarfélagi frestað erfiðri ákvarðanatöku, óvinsælli kannske, sem þeir vildu engu að síður framkvæma, og ráðist í hana á þeim tíma þegar þeir væru búnir að tapa meiri hluta, áður en nýr meiri hluti tæki við. Ég vara við því að við göngum hér frá lögum sem gætu haft þessar afleiðingar.