06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

108. mál, kreditkort

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þessi fsp. er einföld og er á þá lund að spurt er hvað sé fyrirhugað um löggjöf og reglugerðarsetningu varðandi útgáfu og notkun svonefndra kreditkorta. Eins og hv. þingheimi mun ljóst hefur átt sér stað veruleg fjölgun og mikil auglýsingastarfsemi á notkun kreditkorta. Sannleikur málsins er hins vegar sá að engin lög í landinu ná yfir þessa starfrækslu og þar af leiðandi er ekki unnt að setja neinar reglugerðir um það með hvaða hætti staðið skuli að framkvæmd eða verndun þeirra hagsmuna sem hér kunna að vera í veði. Þess vegna er fsp. flutt.

Sumir segja kannske að þeir hafi orðið varir við að settar hafi verið reglugerðir engu að síður um útgáfu eða réttara sagt notkun kreditkortanna, en þær reglugerðir byggjast allar á ákvæðum varðandi gjaldeyrismál og varða notkun kortanna erlendis en ekki hérlendis. Í þessari fsp. felst ekki nein andstaða við kreditkortin, heldur er fyrst og fremst verið að spyrjast fyrir um hvort ekki eigi að setja lög um þetta efni til þess að unnt sé að setja reglugerðir. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, munu nú um 12 þús. kreditkort vera í notkun og væntanlega fara verulegir fjármunir um þetta greiðsluform. Tiltölulega lítið mun vera bundið í lögum í grannlöndum okkar að því er varðar notkun kreditkortanna, en það sem það er mun fyrst og fremst vera af því tagi að vernda hagsmuni þeirra, sem kortin bera, einkum og sér í lagi gagnvart stuldi á kortunum. Stuldur á kortunum er auðvitað áhyggjuefni og verður þá væntanlega að styðjast við reynslu erlendis til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem kortanna hafa aflað, og ætti að vera hægt að gera það á bærilegan hátt.

En það eru tvö og reyndar þrjú önnur atriði sem ég vil vekja athygli á í þessu sambandi. Það er spurningin um hvort fyrirtæki, sem rekur starfsemi af þessu tagi, sé nægilega traust. Nú eru bankarnir aðilar að þessu eins og stendur sem kunnugt er. En það er ekkert í lögum sem bannar hverjum sem er að reka starfsemi af þessu tagi. Það sem við þurfum þá að íhuga eru hagsmunir þeirra verslunarfyrirtækja sem stofna til viðskipta við fyrirtæki og leyfa skuldfærslu við sig.

Í þriðja lagi hefur þeirri áhyggju verið lýst að fólk stofni til óheyrilegra skulda. Menn hafa greinilega ekki haft verulegar áhyggjur af þessu í grannlöndum okkar, en lánsfjáreftirsókn á Íslandi og aðstæður allra í þjóðfélaginu kunna að gefa tilefni til að menn teldu rétt að hafa þetta mál í huga.

Í fjórða lagi er hér í rauninni um eins konar peningaútgáfu að ræða. Og þá vaknar spurningin hvernig fylgst sé með þeirri peningaútgáfu, ef ég má orða það svo, hver á að hafa eftirlit með þeim umsvifum sem eiga sér stað í þessum rekstri. Ég get ekki séð að neinn aðili eigi að hafa slíkt eftirlit á hendi. Ég fæ ekki séð að neinn aðili geti innheimt þessar upplýsingar og beðið um þær þó ekki væri nema til annars en að halda yfir það eðlilega „statistik.“ Það er af þessum orsökum, sem ég nefndi hér, að ég beini þeirri fsp., sem ég rakti hér í upphafi, til hæstv. viðskrh.: Hvað er fyrirhugað um löggjöf og reglugerðarsetningu varðandi útgáfu og notkun svonefndra kreditkorta?