07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka góða fyrirgreiðslu forseta að taka þetta frv. hér á dagskrá til 1. umr. Með þessu frv. er lagt til að gerð verði breyting á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Lagt er til að 5. gr. þeirra laga sem er 1. gr. frv. orðist svo, með leyfi forseta:

„Um rétt viðskiptabanka til að versla með erlendan gjaldeyri fer eftir lögum um Seðlabanka Íslands. Bankastjórn Seðlabankans er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að leyfa sparisjóðum að versla með gjaldeyri innan takmarka sem hún ákveður. Ákvæði laga þessara um gjaldeyrisviðskiptabanka taka til sparisjóða og póststjórnarinnar að því marki sem þessum aðilum er heimilt að versla með gjaldeyri.“

Breytingin er fólgin í því að lagt er til að sparisjóðum verði heimilað að versla með gjaldeyri. Samkv. lögum er heimilt að veita bönkum slíka heimild og það hefur verið gert. Í dag hefja þrír hlutafélagabankar viðskipti með gjaldeyri, þ.e. Verslunarbankinn, Iðnaðarbankinn og Samvinnubankinn. Þeir hefja takmörkuð viðskipti með gjaldeyri. Hér er um að ræða gjaldeyrisreikninga og gjaldeyrisþjónustu við ferðamenn.

Það þykir að sjálfsögðu eðlilegt og rétt að jafnræði gildi með peningastofnunum í þessum efnum. Því er með þessu frv. lagt til að slík heimild verði fyrir hendi í gjaldeyrislögunum varðandi sparisjóði og þá ætlað að það gæti gerst um næstu áramót, ef þetta frv. yrði að lögum fyrir jólaleyfi sem ég vona.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.