07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þegar ákveðið var að veita Búnaðarbankanum gjaldeyrisréttindi á síðasta ári hafði ég það mál til meðferðar um alllangan tíma. Og ef ég man það rétt var leyfið veitt með því skilyrði — ég hef nú ekki bréfið við hendina — að aukinn kostnaður við starfrækslu þessarar deildar ætti að vera í algeru lágmarki og helst ættu menn að geta gert þetta án þess að bæta við nokkrum húsakynnum eða nokkrum mannskap. Þetta var allstrangt skilyrði. Ég man nú ekki nákvæmlega orðalagið án þess að hafa bréfið við hendina.

Ég er nú ansi hræddur um að bankinn hafi stofnað til verulegs kostnaðar í þessu sambandi, bæði hvað snertir húsnæði og mannahald. Og ég er ekki viss um að hann hafi haldið sig innan þeirra marka sem til var ætlast í þessu efni. Ég er ekki viss um það en það er athugunarefni. Það veit nú e.t.v. hv. 2. þm. Austurl. betur en ég. Hann situr í bankaráði bankans.

Varðandi þessa leyfisveitingu var gert ráð fyrir því í samtölum viðskrn. og Seðlabankans að það yrði stefnt að því að auka frelsi í þessum málum gagnvart bönkunum á næstu árum smátt og smátt og það er þessi stefna sem hæstv. viðskrh. er að framkvæma með því frv. sem hann hefur flutt hér í þessari hv. þingdeild.

Í sambandi við bankamálin er ástæða til þess að gera að umræðuefni í örfáum orðum útþenstu bankakerfisins. Það er talsvert mikið rætt um það hve margir menn starfi í þjónustu bankanna og hve mikill tilkostnaður sé í því efni. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því, að við hér á Íslandi á allra seinustu árum höfum fjölgað bönkum á sama tíma og margar þjóðir hér í kringum okkar hafa verið að sameina banka og fækka bönkum, sé e.t.v. sú mikla verðbólga sem við höfum búið við sem hefur leitt af sér takmarkað sparifé. Í raun og veru miklu minna fjármagn en þjóðin þarf að nota. Slagurinn um spariféð hefur leitt til þess að það hafa verið stofnaðir nýir bankar til þess að reyna að ná í spariféð. Þarna er að mínu mati eitt dæmi af mörgum um slæm áhrif verðbólgunnar. Nú er starfandi bankamálanefnd sem ég skipaði fyrir 2–2 1/2 ári, að ég ætla, og hæstv. núv. viðskrh. hefur látið hana starfa áfram, en í henni hafa orðið mannaskipti. Þessi nefnd hefur það verkefni og hefur það að leiðarljósi að reyna að minnka umsvifin í bankamálunum.

Nú var það svo þegar ég var bankamálaráðh. í rúmlega þrjú ár að ég leyfði í samráði við Seðlabankann talsvert af nýjum útibúum fyrir bankana. Eigi að síður held ég að það hafi verið um 30 umsóknir um ný útibú þegar ég fór frá. Sumt af þessum útibúum og langflest þeirra var eðlilegt að leyfa, þegar af þeirri ástæðu að bankarnir hafa tekið að sér miklu meiri þjónustu í seinni tíð en áður fyrr, t.d. fyrir fyrirtæki. Sums staðar er það svo að bankarnir hafa — ég vil nú ekki segja að þeir hafi með höndum bókhald fyrirtækja, það er auðvitað of mikið sagt — hagdeildir sem vinna gífurlega mikið starf í því að rannsaka rekstur fyrirtækja og stöðu þeirra þegar fyrirtækin eru að sækja um rekstrarfyrirgreiðslu og lán hjá bönkunum. Í flestum tilvikum liggja því eðlilegar orsakir og ástæður til þess að bankaútibúum hefur verið fjölgað. Í sumum tilvikum er það kannske þrýstingurinn og þessi gífurlega keppni um að ná í takmarkað sparifé landsmanna í mikilli verðbólgu. En ég er fylgjandi þessu frv. og það er framhald á þeirri stefnu að liðka til þessi mái. En ég vil þó vara við því að stofnað verði til of mikils kostnaðar við þessi störf; ég vil vara við því. Bankarnir og þær stofnanir, sem fá þessi réttindi, eiga að kappkosta að reyna að sinna þessum málum á þann hátt að það þurfi ekki að bæta við húsnæði og starfsliði til þess. En ég hef grun um að Búnaðarbankinn hafi verið nokkuð stórtækur í þessum efnum, hvað snertir stofnkostnað og rekstrarkostnað, að notfæra sér þessi réttindi.