09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var ekki mín meining að efna hér til neinna sérstakra eldhúsdagsumræðna um þetta mál. En ég taldi nauðsynlegt að vekja á því athygli núna fyrir 2. umr. fjárlaga. Ég spurðist fyrir um það í fjvn. í gær hvort það væri meiningin að taka með einhverjum öðrum hætti á þessum vanda en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Svörin þar voru nei. Ekkert slíkt hefði komið frá ríkisstj. Það knýr auðvitað á að umr. fari fram um málið áður en að fjárlagaafgreiðslu kemur. Það er þess vegna, hæstv. iðnrh., sem ég taldi nauðsynlegt að fá um þetta umr. þó að það þyrfti að kosta að hún yrði utan dagskrár.

Ég er líka undrandi á að menn skuli nánast flokka það undir guðlast að um mál sem þetta, sem er gífurlega stórt fyrir hundruð einstaklinga í þessu landi og fjölskyldna, sé fjallað utan dagskrár í örfáar mínútur. Mér heyrðist það á hæstv. iðnrh. að hann teldi að þetta mál ætti alls ekki heima undir utandagskrárumræðum.

Ég skal ekki, herra forseti, verja löngum tíma hér nú. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans svör, sem ég hef að vísu margt við að athuga, en geymi mér það til síðara stigs. T.d. hef ég um það grun, hæstv. iðnrh., hvað í nál. þessarar svokölluðu nefndar felst. Hæstv. iðnrh. kallaði til trausts og halds 4. þm. Vestf., hv. þm. Þorvald Garðar Kristjánsson. Ég skal beygja mig undir að hann fái að ráða niðurstöðum þess sem gert verður til að jafna þennan kostnað á þessu stigi máls, því að ég veit vilja hans og kraft til þess að þarna verði einhverju um þokað, en ég óttast að þeir samstarfsaðilar sem hann á nú við að etja beri hann ofurliði í þeim efnum. Og ég vísa því frá að hæstv. iðnrh. fái engu ráðið í þessum efnum. Það er nú meira lítillætið sem hlaupið er allt í einu í skrokk hæstv. iðnrh. ef hann fær engu ráðið á þessum efnum, eins og hann sagði orðrétt áðan.

(Iðnrh.: Nei, nei, nei.) Ég skrifaði það, hæstv. iðnrh., og lofaðu mér að sjá handritið, þegar það kemur fram, hvort það er ekki rétt eftir tekið.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þetta öllu lengra. En ég veit að það eru uppi tillögur innan þessarar nefndar um að ganga verulega lengra en hæstv. ríkisstj. ætlar sér í fjárlagafrv. Þar er aðeins um 291 millj. kr. að ræða. Samkv. nýjustu tölum frá hæstv. iðnrh. eru það 470. Þannig vantar verulega upp á að það verði skilað andvirði þess skatts sem allir voru sammála um að leggja á með 1.5% í söluskatti. (Iðnrh.: Allir hverjir?) Allir hverjir? Allir hv. þm. Sjálfstfl. sem voru í stjórnarandstöðu við síðustu ríkisstj. og sem núna eru í stjórnaraðstöðu. Þeir ættu því að sjá sóma sinn í því að koma þessu í framkvæmd.

Ég tek undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan. Það vantar æðimikið á að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir að standa við þetta. En hvað vantaði upp á hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni meðan hann fór með þennan málaflokk? Þá tók hann ásamt öðrum hæstv. ráðh. þá og stjórnarliðum ófrjálsri hendi hundruð milljóna til annarra þarfa í ríkissjóð en þessar tekjur voru ætlaðar til. Út af fyrir sig tek ég undir þetta með honum gagnvart núv. ríkisstj., en auðvitað hef ég miklu meiri rétt til að gagnrýna í ljósi staðreyndanna en þeir sem áður hafa fetað brautina á sama hátt og hæstv. ríkisstj. ætlar sér að feta í þessu máli samkv. fjárlagafrv.

Ég vænti þess, hæstv. iðnrh., að þú beitir öllu þínu afli og krafti. (Gripið fram í: Er það mikið?) Sem getur verið mikill, en ekki er í þessu máli eins og sakir standa. - Ég vona að þú beitir honum til þess að fá því áorkað að því verði skilað til réttra aðila sem búið er að taka af fólki í þessum efnum.