14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. málsins og raunar einnig í n. ræddi ég og fleiri nokkuð um kostnaðarhlið þessa máls. Ástæðan fyrir því var sú, að í fyrravetur þegar Búnaðarbankanum var veitt heimild til að versla með gjaldeyri urðu nokkur straumhvörf í þessum málum. Um langan aldur hafa Landsbankinn og Útvegsbankinn einvörðungu haft heimild til að versla með gjaldeyri. Það stafar auðvitað fyrst og fremst af því að þeir hafa þjónað þeim atvinnuvegi, sjávarútveginum, sem er langstærstur í okkar útflutningi og hefur þar af leiðandi mest viðskipti í sambandi við gjaldeyrinn. Þessir bankar hafa líka verið stórir í sambandi við þjónustu við verslunina, þó að Búnaðarbankinn hafi verið það einnig, sérstaklega á síðari árum. Þegar Búnaðarbankanum var veitt leyfið var lögð sérstök áhersla á að þess yrði gætt að halda öllum kostnaði við þessa nýju þjónustu í lágmarki. Vegna þess að ég var þá viðskrh. og veitti þetta leyfi langar mig til, með leyfi virðulegs forseta, að lesa upp leyfið sem ég gaf út handa Búnaðarbankanum, en það var stílað til Seðlabanka Íslands eins og ráð er fyrir gert í lögunum. Leyfið er á þessa leið:

„Ráðuneytið vísar til bréfs bankans, dags. 29. f.m. um gjaldeyrisréttindi Búnaðarbanka Íslands.

Með vísan til 19. gr. laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, samþykkir ráðuneytið að Búnaðarbanka Íslands verði heimilað að versla með erlendan gjaldeyri innan takmarka og með skilmálum sem bankastjórn Seðlabankans setur. Jafnframt leggur ráðuneytið ríka áherslu á að þess verði gætt að þessi breyting á þjónustu bankakerfisins verði ekki til þess að fjölga starfsliði og auka heildarkostnað bankakerfisins.“ Bréf þetta er dags. 11. okt. 1982.

Í framhaldi af þessu hefur Búnaðarbankinn tekið upp þessa þjónustu. En vegna þess að ég hef grun um að það hafi orðið talsvert verulegur kostnaður bæði í fjárfestingu og rekstri samfara þessari þjónustu hjá bankanum þá hef ég lagt á það nokkra áherslu að Búnaðarbankinn geri nefndum Alþingis, sem fjalla um þetta mál, grein fyrir því hvað sá kostnaður hefur verið mikill. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á þetta er fyrst og fremst sú, að því er oft dróttað að okkur stjórnmálamönnum að við séum eyðslusamir og við hirðum ekki alltaf um að bera af okkur það slyðruorð. En sannleikurinn er sá að oft og tíðum er það svo, og ég vil segja langoftast, að stjórnmálamenn sem er sýndur trúnaður reyna í sínum störfum að sýna ráðdeild og stuðla að því að aðrir geri það einnig. Nú er ég ekki að segja að Búnaðarbankinn hafi ekki sýnt ráðdeild í þessu efni. Mér leikur aðeins forvitni á að hann geri grein fyrir þeim kostnaði, bæði í fjárfestingu og rekstri, sem fylgir þessari nýju þjónustu.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að á milli þessarar umr. og 3. umr. gefist kostur á að fá þessar upplýsingar og við stefnum að því. Ég þykist viss um að núv. hæstv. viðskrh. muni halda í þessum efnum sömu stefnu og mörkuð var í fyrravetur.