20.12.1983
Efri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

161. mál, málefni aldraðra

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Þetta mál, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 91 31. des. 1982, um málefni aldraðra, var hér til umr. í Ed. fyrir skömmu. Nú hefur svo farið að í Nd. var gerð smávægileg breyting á frv. Þó vil ég taka það skýrt fram að sú breyting er aðeins orðalagsbreyting af því tagi að gera frv. skýrara, þótt skiljanlegt væri flestum eins og það var fyrir.

Sú breyting sem gerð var í Nd. varðar 2. gr. frv. en í aths. við frv. kemur augljóslega fram hvað við er átt því að þar stendur: „Samkvæmt því skal af mörkuðum tekjustofni sjóðsins greiða til hjúkrunar- og sjúkradeilda aldraðra jafnháa fjárhæð og sjóðurinn fær á fjárlögum frá ríkissjóði til að sinna þessu verkefni.“

En það orðalag sem samstaða varð um í Nd. er á þessa leið:

„Við 2. gr. Greinin orðist svo:

12. gr. 3. tölul. hljóði svo:

Að styrkja byggingu sveitarfélaga á hjúkrunardeildum og sjúkradeildum fyrir aldraða með jafnháu framtagi af mörkuðum tekjustofnum sjóðsins og nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn fær á fjárlögum frá ríkissjóði til þessara verkefna. Styrkur þessi skal teljast hluti af 85% framlagi ríkissjóðs skv. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983.“

Ég held að það hljóti að vera augljóst að þetta orðalag er á þann veg að ekki á að misskiljast hvað við er átt.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hv. heilbr.- og trn.-menn séu fúsir að samþykkja þessa breytingu. Ég endurtek, hún er aðeins af því tagi að gera orðalag skýrara.