25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 73 26. nóv. 1980 um tekjustofna sveitarfélaga. Hér er um að ræða frv. sem var lagt fram í Ed. fyrir jól og var afgreitt þaðan í gegnum þrjár umr. Hér er um að ræða fylgifrv. með frv. til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt sem liggur til meðferðar á hv. Alþingi. Hér er um að ræða nauðsynlegar breytingar sem þarf að gera í sambandi við útsvarsstigann. Eins og kemur fram í frv. er hér um að ræða tölulegar breytingar fyrst og fremst í sambandi við 26. gr. gildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga og í athugasemdum við einstakar greinar frv. er greinilega fram sett það sem um er að ræða í sambandi við þetta litla frv.

Ég legg á það áherslu að þessi breyting á tekjustofnalögum þarf að afgreiðast samhliða breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt. Eins og hv. Ed. afgreiddi málið kemur fram í nál. frá félmn. Ed. að nefndin hafi fjallað um frv. og lagt til að það verði samþykkt óbreytt. Á fund nefndarinnar kom ríkisskattstjóri, Sigurbjörn Þorbjörnsson, og Magnús R. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, og gerðu nánari grein fyrir þessum breytingum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.