30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að beina nokkrum spurningum til hæstv. forsrh. vegna ummæla og aðgerða ríkisstj. sem snerta samningamál.

Eins og kunnugt er hefur ríkisstj. marglýst því yfir að hún vilji frjálsa samninga án afskipta ríkisvalds og á ábyrgð samningsaðila, þ.e. launamanna og atvinnurekenda. Með tilliti til þessarar stefnu eru ýmis ummæli og aðgerðir hæstv. ráðh. undanfarna daga nokkuð undarleg.

Í Dagblaðinu Tímanum fimmtudaginn 26. jan. ítrekar hæstv. forsrh. fylgi ríkisstj. við frjálsa samninga. Þar er haft eftir honum, með leyfi virðulegs forseta:

„Við ætlumst til þess að aðilar vinnumarkaðarins semji sjálfir, án íhlutunar ríkisvaldsins, og við erum ákveðnir í að halda þeirri gengisstefnu sem við höfum markað. Ef samið verður um launahækkanir umfram það sem hægt er að bæta með gengissigi, það verða útflutningsatvinnuvegirnir að bera sjálfir. Ef þeir geta það, þá er það í lagi út af fyrir sig.“

Þarna ítrekaði hæstv. forsrh. fylgi ríkisstj. við samninga og ábyrgð samningsaðila. Það er gott og vel. Hins vegar eru á baksíðu þessa sama eintaks af Tímanum svofelld ummæli þar sem hæstv. forsrh. er spurður um álit á launakröfum verkalýðsfélaganna í Straumsvík:

„„Þessar kröfur verkalýðsfélaganna í Straumsvík eru út í hött, að mati þeirra sem eitthvert skynbragð bera á efnahagsmál,“ sagði forsrh. „og ríkisstj. leggur áherslu á að þær fái ekki fram að ganga, enda er það einróma álit ríkisstj. að þessar kröfur séu óskiljanlegar.““

Ég ætla að endurtaka þetta: „Ríkisstj. leggur áherslu á að þær fái ekki fram að ganga, enda er það einróma álit ríkisstj. að þessar kröfur séu óskiljanlegar.“

Nú spyr maður sig: Er þetta innlegg ríkisstj. í frjálsa samninga? Er þarna verið að semja án íhlutunar ríkisvalds?

Í sömu frétt segir enn fremur:

„Við erum að reyna að pína Svisslendingana til þess að greiða hærra raforkuverð, á sama tíma og þessar gífurlegu kröfur koma frá starfsmönnum í álverinu. Við byggjum kröfuna um hærra raforkuverð á betri afkomu álversins og áliðnaðarins, en við getum ekki gert hvort tveggja í einu, að ná fram hækkun raforkuverðsins og svona mikilli launahækkun starfsmannanna. Enda væri svona launahækkun, ef af yrði, til þess eins fallin að sprengja upp kröfur á almennum vinnumarkaði.“

Þarna er verið að núa verkamönnum í ÍSAL því um nasir að þeirra aðgerðir komi hugsanlega í veg fyrir samninga um orkuverð. Það er e.t.v. meiningin að kauplækkun undanfarinna missera nægi ÍSAL til þess að greiða orkuhækkunina. Það hefur stundum verið sagt að erlend stóriðjufyrirtæki leiti þangað sem annaðhvort er að hafa ódýra orku eða ódýrt vinnuafl. E.t.v. ber að líta á launastefnu ríkisstj. í því ljósi að þegar orkan er orðin svo dýr sem raun ber vitni sé best að bjóða upp á ódýrt vinnuafl.

Viðtalinu við hæstv. forsrh. í þessu blaði lýkur með þessum orðum: „Enda væri svona launahækkun, ef af yrði, til þess eins fallin að sprengja upp kröfur á almennum vinnumarkaði.“

Þetta eru skilaboð til verkamanna hjá fyrirtæki sem allir vita að gengur vel og er raunar lýst í viðtalinu. Það hefur jafnvel gefið til kynna að það væri fúst til að greiða hærra kaup og hefur sagst geta greitt hærra kaup.

En það eru fleiri en forsrh. hæstv. sem hafa sagt álit sitt á þessum samningum. Hæstv. fjmrh. vill ekki láta sitt eftir liggja. Í DV þann 26. jan. má lesa eftir honum:

Ég hef ekkert um það að segja sem forystumenn VSÍ og ASÍ kunna að vera að fjalla um. Það er stefna ríkisstj. að samningar eigi að vera frjálsir. Hún hefur hins vegar með óhrekjandi rökum sett það markmið að launakostnaður í landinu hækki ekki umfram 4% á árinu. Ef sú stífla verður sprengd á ríkisstj. þann eina rökrétta leik að skjóta málinu til þjóðarinnar í kosningum tafarlaust.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. Þarna er fyrst í sama viðtalinu lýst þeirri stefnu að samningar eigi að vera frjálsir, síðan er sagt að þing verði rofið ef samningar fari fram úr því marki sem ríkisstj. setur. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ríkisstj. getur auðvitað lýst því yfir að hún haldi fram ákveðinni stefnu í gengismálum, eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. forsrh., þannig að auknum launakostnaði verði ekki velt út í verðbólguna. Hún getur líka haldið fram sinni ákveðnu launastefnu við sína starfsmenn. En það fer ekki saman að heita frjálsum vinnumarkaði því að samningar séu þar frjálsir og lýsa því svo yfir að þing verði rofið ef menn láta ekki að vilja ríkisstj. í þessum málum. Ég er ekki að hafa á móti því að málum sé skotið til úrlausnar þjóðarinnar en menn verða að gera upp við sig hvort menn vilja hafa frjálsa samninga eða hvort þeir vilja láta ríkisstj. setja um það lög og ráða því öllu. Þetta voru nokkur orð um hlut hæstv. fjmrh., og skilgreiningar hans á frjálsum samningum.

Að lokum vil ég geta hlutar hæstv. iðnrh. í þessum málum. sá þáttur er garpstegur mjög og engum til setunnar boðið. Í tilefni af boðun verkfalls í Straumsvík sagði hæstv. iðnrh. eitthvað á þessa leið í útvarpi miðvikudaginn 25. jan.:

„Kröfugerðin er út í hött. Það kemur ekki til neinna álita að við henni verði litið eða á hana fallist. Ég hef að vísu ekki úrslitaákvæði um þetta eins og er — eins og er — því samningsfrelsi er í landinu. Þeirra ráða verður neytt sem duga til að hindra slíka ósvinnu og sprengingu í okkar efnahagslífi sem slíkt framferði mundi hafa í för með sér. Það verða gerðar ráðstafanir sem duga til að hindra að menn fari fram eins og þeir áforma nú í launamálum. Ég útiloka enga aðferð, við munum nota þá aðferð sem nægir.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta segir ráðh. í ríkisstj. sem hefur lýst sig fylgjandi frjálsum samningum og þetta segir ráðh. sem kemur úr þeim ríkisstj.-flokknum sem hefur stuðning við frelsi einstaklinga og félaga sem aðalatriði í sinni trúarjátningu. Þarna hefur ríkisstj. greinilega tekið afstöðu í þessu máli og er ekkert að liggja á því. Þarna er ýjað að því að einhverjum aðferðum eða aðgerðum verði beitt til að koma í veg fyrir að kröfur nái fram að ganga í frjálsum samningum.

Þegar hæstv. ráðh. segir: „Það kemur ekki til neinna álita að við henni verði litið eða á hana fallist,“ spyrja menn náttúrlega: Í hvaða umboði talar hæstv. ráðh.? Er hann að semja eða eru samningsaðilar frjálsir? Allir vita af fréttum hvaða áhrif þetta hafði á vinnustað og í samningasölum. Þar varð sprenging. Jafnvel er fullyrt að möguleiki til samninga hafi eyðilagst sem verið hafði að myndast. En þetta þótti hæstv. iðnrh. ekki nóg. Á ríkisstj.-fundi daginn eftir mætti hann fyrir því að ÍSAL yrði leyft að ganga í Félag ísl. iðnrekenda og að VSÍ fengi þar með fullt samningsumboð fyrir fyrirtækið og að auki var lýst sambærilegum áætlunum fyrir ýmis ríkisfyrirtæki.

Í þessu sambandi vakna ýmsar spurningar sem gaman væri að fá einhvern tíma svör við. Hvaðan kom frumkvæðið um þessa breytingu? Var þetta frumkvæði frá ríkisstj. eða var þetta frumkvæði frá ÍSAL? Þótti ríkisstj. frjálsra samninga þetta góður tími til þess að breyta samningsstöðunni á þennan hátt?

Rökin fyrir þessari breytingu eru að alla tíð hafi þótt stríða gegn samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að ÍSAL væri utan þessara samtaka. Þessi rök eru dálítið skondin því að í samtökum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar mun vera kveðið talsvert fast á um frelsi aðila samninga til samninga o.fl. sem þessi ríkisstj. hefur lýst sig hafa ákveðna afstöðu til. Þetta er stjórn sem fyrst afnam samninga og afhenti þá síðan að hluta og nú fer hún með offorsi gegn verkafólki og treður tillöguflutning þess í svaðið. Tíminn til að birta þessa ákvörðun er valinn daginn áður en boðað verkfall á að koma til framkvæmda í viðkomandi fyrirtæki.

Það sýndi sig líka hvað samningamálin bötnuðu við þetta síðara úthlaup iðnrh. Fulltrúar beggja samningsaðila lýstu því yfir margsinnis í fréttum þann dag að samningamál hafi stórlega spillst vegna þessara aðgerða. Þetta er hugur hæstv. iðnrh. til að leysa samningamálin í fyrirtæki sem er á hans málasviði. Þarna er fyrirtæki sem stendur vel, getur og jafnvel vill greiða hærra kaup en fær ekki vegna ríkisstj. og vinnuveitenda.

Það er aldeilis stórkostlegt að heyra þetta hjá ríkisstj. sem vill efla stóriðju og lofa íslensku verkafólki framtíðarinnar gulli og grænum skógum í stóriðjuverum. Þessi stjórn stendur þó í vegi fyrir því að hennar eigin þegnar njóti þeirra kjara sem fyrirtækið getur og vill bjóða. Ég hefði frekar haldið að ef hæstv. ráðh. á annað borð vildi skipta sér af samningum mundi hann berjast með verkafólkinu í verksmiðjunni til þess að ná þeim kjörum sem tiltæk eru og afla á þann hátt röksemda fyrir stóriðjustefnu sinni. Því að þar væri þá dæmi um atvinnurekstur sem gæti greitt fólki hærra kaup en annar atvinnurekstur í landinu sem sagður er standa á heljarþröm.

Þetta leiðir raunar hugann að því að hin stóru samflot, bæði verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, virðast orðið standa gegn möguleikum verkafólks til þess að njóta þeirra lífskjara sem tiltæk eru. Í Straumsvík vinnur samflot atvinnurekenda í landinu gegn því að verkafólk njóti þeirra kjarabóta sem batnandi hagur fyrirtækisins leyfir. Hins vegar hafa formenn Iðju og sóknar lýst vantrausti á getu verkalýðshreyfingarinnar til þess að bæta kjör hjá láglaunafólkinu því að samflotið í verkalýðshreyfingunni virðist jafnvel nota þetta fólk sem viðmiðun til þess að ná samningum fyrir aðrar stéttir.

Ég fullyrði að frelsi til raunverulegra kjarasamninga inni á vinnustöðum án utanaðkomandi íhlutunar mundi breyta og bæta hag þessa fólks stórkostlega, bæði fólksins í ÍSAL og fólksins í Sókn og Iðju. Ég ætla síðan ekki að fara lengra út í umræður um réttmæti kaupkrafna einstakra verkalýðssamtaka eða afstöðu vinnuveitenda til þeirra, enda tel ég að hvorki Alþingi né ríkisstj. eigi að láta eftir sér hafa um það á þessum viðkvæmu stundum sem nú eru.

Ég hef vikið að þætti þriggja ráðh. í því að útskýra hugmyndir ríkisstj. um frjálsa samninga. Þeir varpa hver um sig nýju ljósi á þetta mál. Sá fyrsti styður frjálsa samninga í einni frétt og hafnar í annarri. Sá næsti bætir um betur, styður þá og hafnar í sömu frétt og sá þriðji styður þá hvergi en hafnar þeim algjörlega.

Ég beini hins vegar spurningum til hæstv. forsrh. Hann er oddviti ríkisstj. og forsvarsmaður á þessum málavettvangi. Þessar spurningar eru:

1. Í ljósi ýmissa ummæla hæstv. ráðh. spyr ég hver sé skilningur ríkisstj. á hugtakinu „frjálsir samningar á ábyrgð samningsaðila“ sem hún hefur þóst fylgja.

2. Telur ríkisstj. hættulegt efnahagsástandinu í landinu að starfsfólk einstakra fyrirtækja njóti þess sérstaklega í launum ef vel gengur?

3. Var það skv. ósk ÍSALs að felldar voru niður hömlur á aðild fyrirtækisins að samtökum íslensks vinnumarkaðar? Og ef svo er, hvenær var sú ósk borin fram síðast?

4. Telur forsrh. að yfirlýsingar fjmrh. og iðnrh. síðustu daga auðveldi frjálsa samninga?