02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki fer hjá því að þeim hugsunum skjóti upp hvernig þingstörfum væri háttað og hvernig þau færu fram ef allir hv. þm. tækju jafnmikið af tíma þingsins í þessum ræðustóli eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 5. þm. Austurl., gerir.

En að þessu sinni — og nú skal ég ekki gerast langorður — var hv. þm. ekki aðeins langorður heldur afar stórorður. Hann kaus raunar að hafa þann háttinn á að fara langt á svig við meginefni þeirrar till. sem hér var til umr. Hann fór að rifja upp afskipti sín af álmátinu, af samningunum við Alusuisse. Ég held að hann hefði átt að láta það ógert. Hans ferill í því máli er ekki með þeim hætti að hann hafi þar af sérstakan sóma. Það sem mér fannst athugavert við málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar voru þau orð og þær einkunnir sem hann valdi samþm. sínum úr þremur öðrum flokkum, þ.e. úr öllum flokkum nema Alþb. sem þá áttu sæti á þingi. Hvað sagði hann? Hann sagði þó að hann notaði ekki það orð: Þið eruð landráðamenn. Hann sagði: Þið eruð svikulir og hallir undir hagsmuni erlendra aðila. Á íslensku er eitt orð yfir þetta, hann sagði: Þið eruð landráðamenn, og það eru stór orð.

Við þm. erum ekki óvanir því að heyra hv. þm. Alþb. nota viðlíka orðbragð um menn sem ekki eru þeim sammála. Ég vil segja að þetta er málflutningur sem er fyrir neðan allar hellur. Látið er liggja að því að hvergi séu góðir Íslendingar nema í Alþb. Allir hinir séu, svo að ég noti þau orð sem hv. þm. viðhafði úr þessum ræðustóli fyrir skammri stundu, svikulir og hallir undir erlenda hagsmuni. Svona málflutningur er prúðmenni á borð við hv. þm. Hjörleif Guttormsson, sem ég hef talið, algerlega ósæmandi. Svona málflutningur ætti í rauninni aldrei að heyrast hér á hinu háa Alþingi miðað við þær aðstæður og þá sögu sem við þekkjum. Vonandi kemur aldrei til þess að ástæða verði til að kalla neina menn slíkum nöfnum úr þessum ræðustóli. Ég fordæmi, herra forseti, harðlega málflutning af þessu tagi. Hann á ekki erindi í þingsali.

Hitt er svo annað mál að ég skil að hv. 5. þm. Austurl. skuli nota hvert tækifæri í næstum hvaða máli sem er til að koma að frammistöðu sinni í átmálinu. Ég skil það með vissum hætti vegna þess að þetta hlýtur að vera honum ákaflega þungt í huga. Mín skoðun er sú — og þar er ég ekki að kenna um illvilja eða illri meiningu, síður en svo — að fyrir klaufaskap tókst þessum hv. þm. meðan hann gegndi embætti iðnrh. að klúðra þessu máli þannig, að hnýta það í slíkan rembihnút, að fyrirsjáanlegar væru margra ára deilur fyrir erlendum dómstólum, gerðardómum út um allan heim hér um bil og hér heima um þetta mát. Fyrirsjáanlegt var að ekki var hægt að ná neinum samningum á næstunni. Málið var allt í einum rembihnút. Um það voru þrír flokkar á Alþingi sammála að beita yrði nýjum ráðum til að ná fram lausn í þessu máli og hæstv. þáv. iðnrh. hefði ekki borið gæfu til þess að fara rétt að málinu. Ég efast ekki um að honum gekk að sjálfsögðu gott eitt til. En eins og gengur og gerist í lífinu klúðruðust málin bara í höndunum á honum. Það var ekki rétt á þeim haldið. En að hann skuli nota þennan vettvang til að kalla þingbræður sína þeim nöfnum sem hann notaði áðan, viðhafa um þá þau orð og gefa þeim þær einkunnir sem hann gerði hér úr ræðustól finnst mér gersamlega ósæmandi og raunar með öllu óviðunandi.