06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

153. mál, höfundalög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins þakka fyrir þær aths. sem fram hafa komið í sambandi við þetta frv. Það er eðlilegt að spurt sé um eitt og annað. Hér er um réttarsvið að ræða sem er í mótun víða um lönd og vissulega þurfum við að þreifa okkur dálítið áfram í ljósi bæði fenginnar reynslu og svo væntanlega reynslu framtíðarinnar einnig.

Að því er varðar spurningu hv. 8. þm. Reykv., þá er svarið þetta, að ætlunin er nú samkv. frv. að um fyrirkomulag á úthlutun þess fjár sem inn kemur eftir innheimtu höfundaréttargjalds verði settar reglur í samráði við heildarsamtök þeirra sem hagsmuna eiga að gæta í þessu sambandi. En ég vil leggja á það áherslu að mér þykir sjálfsagt að hafi hv. þm. ákveðnar ábendingar í þessu sambandi komi það fram við framhaldsumfjöllun málsins hér á Alþingi. Það yrði vafalaust til að greiða fyrir málinu og skýra allt þetta svið.