23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Þeir kjarasamningar sem nýlega hafa verið undirritaðir milli Alþýðusam­bands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands marka þáttaskil í nokkurra mánaða kjaradeilu og vænt­anlega stuðla þeir að víðtækri og almennri lausn á þeim deilum sem staðið hafa á milli vinnuveitenda og launþega um endurnýjun kjarasamninga. Að vísu er það svo að þessir samningar ganga nokkru lengra en efnahagslegar forsendur segja til um að skynsamlegt sé. Það er vitaskuld rétt að verðbólga hefði orðið minni á þessu ári ef þessir samningar hefðu verið gerðir nær hinum efnahagslegu forsendum. Þjóðartekjur minnka á þessu ári og það liggur í augum uppi og er almennt viðurkennt að kaupmáttarbreytingar hljóta ávallt að vera í nokkru samræmi við breytingar á þjóðartekjum ef jafnvægi á að haldast í efnahagsmálum. En það er hins vegar ljóst að þessir samningar ganga ekki lengra en svo að þau meginmarkmið sem núv. ríkisstj. hefur sett sér um lækkun verðbólgunnar eiga ekki að raskast að neinum mun þrátt fyrir þessa samninga.

Þess vegna er fullkomlega eðlilegt af hálfu ríkisstj. að hafa tekið vel þeirri málaleitan sem samningsaðilar báru upp um sérstakar aðgerðir í þágu þess fólks sem verst er sett við þessar aðstæður og í samræmi við það sem stjórnarflokkarnir hafa áður talað um í því efni. En kjarni málsins er sá, að árangur í baráttunni við verðbólguna hefur nú þegar orðið meiri en menn væntu í upphafi og þó að hér hafi verið gengið lítið eitt lengra en góðu hófi gegnir eru meginmarkmiðin ekki í hættu af þessum sökum.

Varðandi þá yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf í tengslum við þetta samkomulag hafa risið upp spurningar um tvö atriði: annars vegar um fjármögnun aðgerðanna sem þar eru tilgreindar á sviði skattamála og tryggingamála og hins vegar um þann ákveðna skilning ríkisstj. að þessar aðgerðir séu þáttur í heildarlausn vandans. Að því er fjármögnunarleiðirnar varðar er ljóst að samn­ingsaðilar óskuðu alveg eindregið eftir því að þessar aðgerðir yrðu fjármagnaðar með tilfærslum innan fjár­laga, þannig að það yrði ekki efnt til sérstakrar fjáröfl­unar í þessu skyni. Yfirlýsing ríkisstj. er í fullu samræmi við þessa ósk samningsaðila og er af þeim sökum alveg tilhæfulaust að ásaka ríkisstj. um að hún ætli að fjármagna þessar aðgerðir með sérstökum álögum á menn í hverra þágu þessar aðgerðir eru gerðar. Þetta er bein ósk samningsaðila sjálfra. Formlegar tillögur af þeirra hendi hafa ekki komið fram og af þeim sökum óskaði ríkisstj. eftir viðræðum við samningsaðila um með hvaða hætti ætti að standa að þessum tilfærslum. Það er eðlilegt að þær leiðir komi fram í þeim viðræðum og óeðlilegt væri ef menn mundu fyrir fram binda sig við einhverjar tilteknar leiðir í þeim efnum. Væri æskilegt og nauðsynlegt að það væri gert í fullu sam­komulagi og samráði við samningsaðila.

Hér hefur einnig verið minnst á það, sem rétt er, að samningsréttur er lögum samkvæmt í höndum einstakra verkalýðsfélaga og einstakra atvinnufyrirtækja á hinn bóginn. Um langan tíma hefur það þó viðgengist að samningar hafa verið í höndum heildarsamtaka á vinnu­markaðinum og svo hefur einnig verið að þessu sinni og sérstakar ákvarðanir teknar um það innan Alþýðusam­bandsins að með þessa samninga yrði farið á þess vegum en ekki efnt til samninga þar sem hvert einstakt aðildarfélag Alþýðusambandsins væri aðili að viðræð­unni. Sama var uppi á teningnum af hálfu vinnu­veitenda.

Þegar samningsaðilar kynntu samninginn fyrir full­trúum ríkisstjórnarflokkanna og óskuðu eftir aðgerðum af hálfu ríkisstj. kom alveg greinilega fram svo sem tekið er fram í samningnum að hann er gerður á milli Alþýðusambands Íslands fyrir hönd aðildarsamtaka þess og Vinnuveitendasambands Íslands fyrir hönd aðildarfélaga þess og einstakra meðlima. Að sjálfsögðu er yfirlýsing ríkisstj. gefin í þeirri trú að samninganefnd­ir þessara aðila hafi haft umboð og traust félagsmanna sinna til að gera þessa samninga. Það er ákaflega mikilvægt að þær aðgerðir sem fjallað er um í þágu þeirra sem verst eru settir séu þáttur í heildarlausn samninga, þannig að það gerist ekki eins og oft hefur gerst að einstök félög sem hafa sterkasta aðstöðu á vinnumarkaðinum hafa á stundum knúið fram meiri launahækkanir sér til handa en þeir, sem lakast eru settir, hafa fengið. Samningurinn var kynntur sem samkomulag á milli þessara heildarsamtaka fyrir hönd allra aðildarfélaga. Þetta gilti fyrir bæði samtökin og yfirlýsingin af hálfu ríkisstj. er auðvitað gefin í því trausti og þeirri trú að þessir samningsaðilar hafi haft umboð og traust sinna umbjóðenda. Et það kemur hins vegar á daginn að einstök verðalýðsfélög og einstök fyrirtæki eða samtök vinnuveitenda lýsa yfir vantrausti á samninganefnd Alþýðusambandsins eða samninga­nefnd Vinnuveitendasambandsins, þá er auðvitað kom­in upp ný aðstaða og eðlilegt, eins og hér hefur komið fram, að yfirlýsingin sé tekin til endurskoðunar í því ljósi. Á þetta verður auðvitað að reyna, að hve miklu leyti þessir samningar gilda fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni, og við trúum því auðvitað þangað til annað kemur í ljós, að samninganefndir vinnuveitenda og launþega hafi haft umboð, og við skulum vænta þess, vegna vinnufriðar og festu í þjóðfélaginu, vegna hagsmuna launafólks og atvinnulífsins, að umbjóðendur samn­inganefndanna lýsi ekki yfir vantrausti á þær, heldur samþykki þær ráðagerðir og það samkomulag sem samninganefndirnar hafa komist að. Ég hygg að það yrði öllum til mestrar farsældar, bæði launafólkinu í landinu, atvinnulífinu og stjórnarfarinu í heild sinni.