23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara aftur í ræðustólinn í dag. Nú er náttúrlega löngu liðinn venjulegur fundartími. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var ræða hv. þm. Eiðs Guðna­sonar. Hún var ekki mjög skynsamlega tímasett, a.m.k. í þessum umr., því honum lá svo mikið á að koma því á framfæri að Alþb. og forusta þess stæði í ágreiningi við verkalýðsforustuna. Það hefði verið betra að hann hefði gert það fyrr í dag svo að menn hefðu getað svarað þessum athugasemdum á skikkanlegum tíma. Úr því hann hins vegar kaus að hefja matartímann kl. 7 með þessum árásum ætla ég að svara þeim og halda fundi áfram eins og nauðsyn krefur. Ég vænti þess að hv. þm. og aðrir skilji það, að hér er um að ræða þannig lagaðar ábendingar af hans hálfu, að ég segi ekki árásir, að það er óhjákvæmilegt fyrir mig að svara þeim í nokkru.

Það er ljóst að innan verkalýðssamtakanna eru núna skiptar skoðanir ekki bara um samningsniðurstöðu ASÍ og VSÍ heldur líka um vinnubrögð og aðferðir. Það eru deildar meiningar um það hvort menn eigi að beita afli samtakanna nú þegar eða síðar til þess að knýja fram niðurstöður. Það er ekki þannig í verkalýðssamtökun­um í dag, að spurningin sé um það hvort þar er um að ræða vilja til að fara í verkföll, eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson og margir fleiri orða það hér stundum. Málið snýst ekki um það. Málið snýst fyrst og fremst um það að hæstv. núv. ríkisstj. réðist til átaka, stríðs við hinn almenna launamann og hinn breiða fjölda vinnandi fólks í landinu á s.l. ári. Það er ríkisstj. sem manaði til átaka. Þau átök hafa staðið yfir alveg frá því að ríkisstj. var mynduð. Þar getur verið um að ræða bæði kalt stríð og heitt eftir atvikum og eftir aðstæðum á hverjum tíma. Það ræðst m.a. af því hver eru hin faglegu skilyrði í einstökum verkalýðsfélögum í landinu. Það ræðst ekki af því hvað forustumenn einstakra stjórnmálaflokka kunna að segja á hverjum tíma. Það er nefnilega rugl hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, það er rugl sem hann heldur, að verkalýðsfélögum sé skipað fyrir verkum af einhverjum pólitískum forustumönnum. Það hefur aldr­ei verið þannig og það getur aldrei orðið þannig, vegna þess að verkalýðsfélög eru samsett, rétt eins og þjóðfé­lagið sjálft, af fólki með mjög mismunandi sjónarmið og skoðanir, einnig á stjórnmálum. Og til þessara þátta verða hinir faglega kjörnu trúnaðarmenn að taka tillit á hverjum tíma. Og það eru í rauninni ekki eingöngu pólitísk viðhorf þessara forustumanna, sem ráða úrslit­um á hverjum tíma um hin faglegu rök, heldur er það samsetningin í verkalýðsfélögunum og viðhorfin þar á hverjum tíma. Það er nefnilega ekki þannig í verkalýðs­félögunum eins og í sumum samvinnufélögum þar sem kaupfélagsstjóravaldið ákveður að hafa hlutina alltaf eins og Framsfl. þóknast (Gripið fram i: Er það þannig hjá KRON?) Í KRON er það ekki nærri nógu gott, hv. þm. Hins vegar er eitt og annað reynt til þess að virkja félagsmenn í KRON. Það mætti vera miklu betra.

En aðalatriðið er það, að þegar tekin er ákvörðun um kaup og kjör og kjarasamninga þá er það gert á faglegum grundvelli þeirra verkalýðsfélaga sem ákveða þetta á hverjum tíma. Ég bendi hv. þm. Eiði Guðnasyni á það, að um leið og menn eins og formaður Sambands byggingamanna, formaður Málm- og skipasmíðasam­bandsins segja það fullum fetum að þeir telji þetta hvergi nærri nógu góða samninga, þeir telja þetta slæma samninga, og Jón Helgason, formaður Einingar á Akureyri, segir segir í Alþýðublaðinu í dag: „Þetta eru nauðungarsamningar“ — um leið og mennirnir segja þetta þá segja þeir: Miðað við þær aðstæður sem nú eru, baráttuaðstæður í þjóðfélaginu, þá verður þetta yfir okkur að ganga í bili, en við áskiljum okkur allan rétt til þess að sækja viðbótarkjarabætur á síðari stigum. Það er þetta sem hér er að gerast í þjóðfélaginu.

Ég bendi á það að í forustuliði ASÍ standa mál núna þannig, að stærsta verkamannafélag í landinu er með fund, þar sem verið er að fjalla um þessa hluti, og forustumaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Guð­mundur J. Guðmundsson, hefur lýst því yfir að hann sé mjög gagnrýninn á þessa samninga. Hann er ekki að fylgja þar, hv. þm. Ólafur Þórðarson, neinni flokkslínu. Ég segi þetta í fullri vinsemd vegna þess að ég held að það sé óskynsamlegt fyrir stjórnmálamann eins og Ólaf Þórðarson, sem einhvern tíma gæti lent í því að taka við af Steingrími Hermannssyni í efsta sætinu fyrir vestan, eins og hann langar til, það er óskynsamlegt fyrir hann að lifa í þeim heimi að Alþb. taki við fyrirskipunum eða forustumenn Alþb. í verkalýðshreyfingunni taki við einhverjum einfeldningslegum fyrirskipunum. Það er ekki svo. Alþb. er rétt eins og aðrir íslenskir stjórn­málaflokkar afurð umhverfis síns. Við höfum hins vegar kosið að leggja áherslu á hagsmunamál verkalýðsins á hverjum tíma að bestu getu og leggja okkur fram um það. Vafalaust má um það deila hvernig það hefur tekist, en Alþb. hefur það hlutverk í þjóðfélaginu að leggja áherslu á þennan þátt í þjóðfélags- og stjórnmálabaráttunni. Maður eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson á ekki að vera að einfalda hlutina fyrir sér með þeim hætti sem hann gerði hér áðan.

En það er ágreiningur um þessa samningsniðurstöðu mjög víða, líka innan Alþfl. Ætli hv. þm. Eiður Guðna­son hafi nokkuð rætt við varaformann þingflokks Alþfl. Er það ekki hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir? Er það ekki rétt hjá mér? Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, varaformaður þingflokks Alþfl., af því hún er nú fjarverandi og ekki hér tilbúin til þess að tala við formann þingflokksins, talar hér í Þjóðviljanum í dag. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta, og þetta mætti formaður þingflokks Alþfl. lesa: Ekki samningar lág­launafólksins. Og síðan segir hv. þm. Jóhanna Sigurðar­dóttir orðrétt og mér er ekki kunnugt um að hún hafi lagt leiðréttingu inn á Þjóðviljann í dag. Hún segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir sem standa að þessum nýja kjarasamningi guma af því að hann sé sigur fyrir láglaunafólkið. Mér finnst það því kaldhæðin niðurstaða að þegar upp er staðið fær láglaunamaðurinn í beinum launagreiðslum sömu upphæð og sá sem hefur 33 þús. kr. í tekjur á mánuði.“ Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir alþm. og einn félaga í framkvæmdanefnd um launamál kvenna í viðtali við Þjóðviljann í gær.

Í ræðu sinni hér í dag gagnrýndi hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason þau ummæli mjög harðlega að ekki væri neitt reynt að gera til að koma til móts við jafnréttissjónarmið kvenna í launamálum. Hann veittist mjög harkalega að því, af miklum tilfinningahita, offorsi. Honum var heitt í hamsi, svo ég vitni nú í ræðu formanns þingflokks Alþfl. þegar hann var að lýsa mér hér áðan.

Ég áttaði mig á því þegar ég las þetta blað hverjum Kari Steinar Guðnason var að svara. (Gripið fram í: Hann tók það fram í ræðu sinni.) Hann beindi spjótum sínum að hv. 7. landsk. þm. Kristínu Halldórsdóttur. En hann er nákvæmlega að svara varaformanni þing­flokks Alþfl. Og ég spyr þá þingheim sem enn situr hér í matartímanum: Er þetta ekki stórkostlegt sögulegt augnablik, að Alþfl., þingflokksformaðurinn og vara­formaðurinn, séu farnir hér í hár saman í þingsölum? Að Alþfl. sé eitt flakandi flak, rjúkandi rúst í ágreiningi um þessa kjarasamninga? (Gripið fram í: Finnst þér það ný tíðindi?) Nei, en þeir eru ekki svo margir nú orðið að það er nokkru sérkennilegra en fyrr hefur verið. Og varaformaður þingflokks Alþfl. bætir svo við; með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil að lokum segja það, að í þessum samningum kemur ekki fram nein viðleitni til að stíga skref í þá átt að koma á launajafnrétti kynjanna í þessu landi. Það staðfestir auðvitað að konur hafa mikið verk að vinna í þeim efnum á næstunni“.

Þetta finnst mér mjög athyglisverð niðurstaða. Og ég er sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að því er varðar sérstaklega bónusgreiðslurnar til kvenna, sem eru miðaðar við lægri taxta en tekjutryggingunni nemur.

Ekki ætla ég nú að gera svo mikið úr þessum ágreiningi hv. formanns þingflokks Alþfl. og varafor­manns þingflokksins að við liggi að það sé stór stund sem við upplifum nú af þeim ástæðum. Ég ætla ekki að gera það eins og hann fór að útmála ágreining innan Alþb. varðandi þessa kjarasamninga. Ég er sannfærður um að það eins og fleira leysum við í Alþb. alveg hjálparlaust. Hitt er alveg rétt hjá hv. þm., að þegar við erum að ræða um kjaramálin núna þá kemur sjálfsagt fram tilfinningahiti og það að mönnum sé heitt í hamsi og fleira af því taginu. Og af hverju er það? Það er m.a. vegna þess að við teljum að sú samningsniðurstaða sem nú liggur fyrir gangi út frá því að fólkið í landinu, vinnandi fólk í landinu sé með laun fram eftir næsta ári, 1985, sem eru lægri að kaupmætti fyrir hverja unna klst. en hér hefur nokkru sinni verið í 30 ár. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kallaði þetta innsigli á fátæktina á Íslandi og spurði: Verður betri baráttuaðstaða þegar menn eru búnir að vera fátækir í eitt og hálft ár? Það voru hans orð en ekki mín. Ég held að baráttuaðstaðan verði ekki betri þá. Og ég bið menn að skilja að það sé eðlilegt að bæði mér og fleirum sárni það, að ekki sé meira sagt, að staðan skuli vera þannig að þetta fólk hér í landinu, sem býr við hraklegust kjörin, skuli núna e.t.v. þurfa að horfa fram á það að búa við þessi kjör fram á næsta ár, einnig elli- og örorkulífeyrisþegar. Þetta er óþarfi líka vegna þess að þetta þjóðfélag er auðugt. Það er óþarfi vegna þess að þjóðfélagið, íslenskt verkafólk skapar mikil verðmæti. Hér er spurn­ingin um það að skipta þeim verðmætum sem skapast öðruvísi en nú er gert.

Ég bið menn að skilja það og virða að það kunni að verða vart við tilfinningahita eða jafnvel gremju í tali einstakra manna, ekki bara úr Alþb. heldur líka t.d. úr Alþfl. sem talað hafa hér í dag, þegar menn horfa fram á þetta ástand. Það er ekki vegna þess að Alþb. sé það keppikefli að keyra þjóðfélagið út í blóðug stéttaátök, eins og Ólafur Þórðarson lærði einu sinni og les enn þá úr þessum ræðustól, en getur ábyggilega einhvern tíma lært betur. Það er ekki vegna þess, heldur er það vegna þess að við teljum að íslenska þjóðfélagið skapi það mikil verðmæti að það þurfi ekki að dæma táglaunafólk í þau kjör sem hér er verið að tala um, hvorki gamalt fólk, konur né ungt fólk, eins og sérstaklega er dregið inn í þessa mynd.

Ég gæti margt fleira sagt um þær ræður sem hér hafa verið haldnar af þeim hv. þm. Eiði Guðnasyni og Ólafi Þórðarsyni. Ég ætla þó ekki að þreyta þolinmæði þing­heims og hæstv. forseta miklu lengur þó að það sé margt sem maður vildi fleira segja. En það er eitt sem hér kom fram sem ég held að sé alveg nauðsynlegt að sé mótmælt hér og nú. Það var í ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, tormanns landbn. Nd. Hv. þm. sagði að ríkisstj. hefði orðið að samþykkja lækkun niður­greiðslna vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins hefðu sett það sem skilyrði. Hann orðaði það þannig. (Gripið fram í.) Þá hefur það bara verið ranglega eftir tekið hjá mér. Ég tók svo eftir að þm. orðaði þetta svona, og að ríkisstj. gæti í raun og veru enga björg sér veitt í þessu máli vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins væru búnir að skammta henni tiltekinn hlut.

Ég skal fúslega játa að ég er mjög ósammála mörgum forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við niðurgreiðslumál. Ég hef alltaf talið að niður­greiðslur á landbúnaðarafurðum, sérstaklega á kjara­skerðingartímum eins og nú er um að ræða, kæmu láglaunafólkinu sérstaklega til góða. Og ég ætla að leyfa mér að láta það koma fram, þó að það mál komi síðar fyrir í Nd. þar sem ég sit, að mér finnst ekki að það sé nauðsynlegasta kjarabótin einmitt núna, á þessum kjaraskerðingartímum, að setja í gang hinn nýja vísi­tölugrundvöll sem mælir matvöruna og sérstaklega búvöruna miklu léttar en þessar vörur eru núna í daglegum lífsnauðsynjum fólks. Ég bið þá stjórnarliða sem enn sitja hér í salnum að velta því fyrir sér hvort það er endilega alveg rétt að keyra þennan nýja vísitölugrundvöll þ.e. nýju neyslukönnunina, núna í gegnum þingið. Ég held að það væri nær að nota þann gamla áfram, því að ég held að neyslustigið hjá fjöl­skyldunum í landinu sé núna miklu líkara því sem það var þegar gamli grunnurinn varð til en það var þegar nýrri grunnurinn var tekinn 1978 og 1979. Ég fer því fram á það við þá stjórnarliða sem enn eru hér í salnum að hugleiða mjög vandlega hvort það er ekki skynsam­legt að hinkra við með það að keyra þennan nýja vísitölugrundvöll í gegn.

Það var þetta, herra forseti, sem ég vildi koma á framfæri. Og ég tel ástæðu til að þakka hæstv. forseta Sþ. fyrir þolinmæði í fundarstjórn á þessum langa degi utandagskrárumræðna.