01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3318 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. utan dagskrár snertir þá kjarasamninga sem hafa verið í deiglunni margar undanfarnar vikur. Það er ekki langt um liðið síðan heildarsamtök vinnumarkaðarins, samninganefndir Alþýðusambands Ístands og Vinnuveitendasambands Íslands, náðu samkomulagi um lausn kjarasamninga og endurnýjun þeirra með ákveðnum tilteknum hætti. Samhliða því samkomulagi var borin fram sérstök ósk til ríkisstj. um sérstakar aðgerðir í skatta- og tryggingamálum til aðstoðar þeim sem verst eru settir í landinu. Það var samdóma álit ríkisstj. að verða við þessum tilmælum í þágu þessa fólks í landinu enda ber ríkisstj. að gæta hagsmuna þess við þær aðstæður sem við lifum við í dag.

Niðurstaða þessara kjarasamninga gerði ráð fyrir atmennum launahækkunum í nokkrum áföngum. Á hinn bóginn var ekki gert ráð fyrir að hreyft væri við öðrum kjaraatriðum í hinum almennu kjarasamningum. En eins og menn vita hefur það löngum verið svo að verulega stór hluti kjarabóta hefur fengist með breytingum á öðrum kjaraatriðum en hinni almennu launahækkun. Þróunin hefur smám saman verið sú að sérkröfur þessar hafa í reynd verið meginatriði kjarasamninga.

Að þessu sinni varð það niðurstaða samninganefndanna að gera samning um almennar launahækkanir og ekkert annað. Það var vafalaust gert í ljósi þeirra þröngu efnahagslegu aðstæðna sem við búum við. Ekki var við þessar aðstæður unnt að endurnýja kjarasamninga með verulegum launahækkunum vegna þess að það hefði okkar efnahagslíf ekki þolað. Annaðhvort hefði það leitt til víðtæks atvinnuleysis ellegar nýrrar verðbólguholskeflu. Þeir sem að þessum samningum stóðu gerðu sér grein fyrir þessu. Það er að vísu álit margra að þarna hafi verið gengið fulllangt, boginn hafi verið spenntur til hins ýtrasta. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hefði mátt ganga lengra við endurnýjun kjarasamninga að því er kauphækkanir varðar. Það hefði fært okkur af leið og leitt til þess að verðbólga hefði orðið meiri en að er stefnt. Við getum vænst þess innan þeirra samninga sem heildarsamtökin náðu að ná því markmiði að verðbólga verði hér ekki meiri en í okkar helstu viðskiptalöndum.

Þessir kjarasamningar eru nú til umfjöllunar meðal verkalýðsfélaganna. Flest þeirra samþykkja samningana. Það eru þó eins og ævinlega ólíkar skoðanir og komið hefur fram núna að af ýmsum aðilum er markvisst unnið að því að fella þá í því skyni að stuðla hér að upplausn, koma ríkisstj. frá og verðbólgunni á. Að þessu er unnið í pólitískum tilgangi. Fyrsta stéttarfélagið sem reið á vaðið og felldi kjarasamningana var verkamannafélagið Dagsbrún. Ég tel óeðlilegt að ríkisstj. gangi við þessar aðstæður til samninga við stéttarfélag, sem hefur fellt heildarkjarasamningana, og samþykki hluta af viðbótarkröfum þess. Ljóst er að það fellir kjarasamningana af þeim sökum að það hefur ekki náð fram öllum sínum kröfum. Hluti af þessum kröfum hefur verið samþykktur af hæstv. fjmrh. Ég tel óeðlilegt af ríkisstj. hálfu að ganga þannig til móts við það stéttarfélag sem hefur riðið á vaðið með að fella samningana. Það hlýtur að leiða til meiri óvissu við afgreiðslu þessara samninga og stofna verðbólgumarkmiðum ríkisstj. í meiri hættu en orðið var.

Með þessum samningi er heldur ekki verið að binda kjarasamninga 'við Dagsbrún á einn eða annan hátt. Þeir sem að samningunum standa vita ákaflega lítið um raunverulegt efni þeirra, hvaða áhrif þeir hafa fyrir ríkið, hvaða áhrif þeir koma til með að hafa á samninga annarra stéttarfélaga við ríkið og hvort þeir muni hafa áhrif úti á hinum almenna vinnumarkaði. Fyrir þessa sök tel ég einnig óeðlilegt að ganga að þessum samningum við svo búið. Ég tel einnig að þegar um svo veigamikið mál er að ræða, sem menn gera sér ekki grein fyrir hversu víðtæk áhrif hefur, eigi að fara með málið á þann veg að það sé atriði sem varðar ríkisstj. alla. Það var ekki gert í þessu tilviki.

Ég minni á að ríkið hefur ekki haft neina samninga í gildi fyrir þessa aðila. Það er því verið að semja um breytingar á samningum sem ekki hafa verið og ekki eru í gildi á milli viðkomandi aðila. Ég minni einnig á að hvergi kemur fram í þessum samningum að þeir séu sérstaklega gerðir fyrir lágtekjufólk eða þá sem við allra kröppust kjör búa. Hér er um almenn atriði að ræð sem gilda alveg burtséð frá því hvaða laun menn hafa.

Í kjarasamningum er það ævinlega svo að kaupkröfu eru studdar samanburðarrökum. Eitt stéttarfélag hefur áunnið sér sérstök kjaraatriði sem annað hefur ekki áunnið sér. Þá koma á víxl kröfur um að þessi kjaraatriði flytjist yfir til annarra félaga. Allar þessar kröfur eru studdar hugmyndum um jafnrétti og sanngirni og þegar þröngt er á dalnum og þrengingar í efnahagsmálum og ekki er hægt að rökstyðja kaupkröfur með vaxandi þjóðartekjum eru þær ævinlega studdar einhverjum samanburðarviðmiðunum af þessu tagi. Það eru frjálsir kjarasamningar í landinu, það eru nokkur hundruð stéttarfélög í landinu og eðlilega ganga kjarasamningar þeirra nokkuð á víxl. En þegar aðstæður eru sem þessar eru þessar samanburðarkröfur alltaf meginuppistaðan og rökstuðningur fyrir breytingum á kjarasamningum. Það er ekkert nýtt. En niðurstöður kjarasamninga, sem eru byggðar á þessum hugmyndum, geta auðvitað haft sömu efnahagslegu afleiðingar, og jafnvel miklu meiri efnahagslegar afleiðingar ef þetta færist yfir vinnumarkaðinn í heild sinni, eins og almenn launahækkun. Þetta vita allir, gera sér allir fullkomlega ljóst.

Á það hefur verið minnst hér hvort það sé eitthvert sérstakt kappsmál sjálfstfl. að viðhalda ósamræmi í launakjörum manna. Fsp. um þetta kom fram frá hv. þm. Ragnari Arnalds sem gegndi áður starfi fjmrh. og gegnir furðu að hann skuli koma fram með slíka fsp. Ég veit ekki betur en að í Þjóðviljanum í morgun, málgagni Alþb., sé fullyrt að verkalýðshreyfingin hafi um nokkurra ára skeið knúið á dyr fjmrn. með kröfur af þessu tagi en ævinlega fengið svarið nei. Hverjir voru það sem sátu í fjmrn. á þessum tíma? Um hvaða menn er Þjóðviljinn að fjalla í forustugrein sinni í morgun? Hverjir eru það sem svöruðu verkalýðshreyfingunni með þessum orðum? Hverjir eru það sem höfnuðu samræmingu á launakjörum? Hverja er Þjóðviljinn að gagnrýna? Hv. þm. Ragnar Arnalds, þáv. fjmrh., og Þröst Ólafsson sem stjórnaði kjarasamningum í fjmrh.tíð Ragnars Arnalds. Það þurfti að víkja Þresti Ólafssyni út úr fjmrn. til að þessar kröfur yrðu samþykktar.

Ég er ekki að halda því fram að þessir ágætu menn og hv. þm. hafi staðið gegn þessum kröfum af því að þeir hafi viljað viðhalda einhverju óréttlæti í þjóðfélaginu. Þvert á móti er ég atveg sannfærður um að þeir hafa viljað vinna að því í krafti sinna valda að stuðla að auknu jafnrétti. Þeir höfnuðu ekki þessum kröfum af því að þeir væru á móti því að jafna kjör manna eða leiðrétta misrétti. Þeir stóðu ekki í langvarandi málaferlum einmitt út af atriðum sem þessum af því að þeir væru á móti jafnrétti eða því að samræma launakjör. Þeir gerðu sér einfaldlega grein fyrir því að það að samþykkja kröfur af þessu tagi á einu bretti gæti haft víðtækar efnahagslegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir ríkissjóð, sveitarfélög og almenna vinnumarkaðinn. Þeir störfuðu líka við þær aðstæður á síðari hluta síns tímabils að þjóðartekjur fóru minnkandi og aðstæður voru þá orðnar erfiðar í okkar þjóðarbúskap. Þeir þurftu að gæta aðhalds og sýndu það í verki. Og það er hrein hræsni að koma hér upp í dag og bera mér það á brýn og öðrum sem hafa sett spurningarmerki við þessa samninga að það stafi af einhverri mannvonsku að hafa efasemdir um þetta atriði.

Ég hef lýst því yfir að ég líti á þetta sem alvarlegt mál og ég hef rökstutt hér hvers vegna. Ég er sammála hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að það er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að gæta sín þegar yfirlýsingar eru gefnar og gefa ekki út yfirlýsingar öðruvísi en að þeir hafi flokka sína á bak við sig og þeir geti framkvæmt það sem sagt er. Ég hef það eitt sagt um þetta að þessi samningsgerð væri í mínum augum og míns flokks atvarleg og við mundum bregðast við henni í samræmi við það. Við munum að sjálfsögðu ræða þetta innan okkar flokks og meta þessar aðstæður á þeim vettvangi. Í fullu samræmi við þau viðhorf, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson lýsti, munum við gera grein fyrir þeirri niðurstöðu þegar við höfum innan okkar flokks rætt þetta efni til hlítar og gera þá opinberlega grein fyrir okkar niðurstöðum. En ég hef hér rökstutt mína afstöðu og skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti.