21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3955 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

42. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Á fundum iðnn., þegar það mál sem hér er til umr. var rætt og skoðað, var fámennt sem því miður kemur of oft fyrir í nefndum þeim sem a. m. k. ég á sæti í hér í Ed. Svo virtist sem áhugi stjórnarsinna fyrir því að standa að því að þetta frv. yrði fellt skv. ósk iðnrh. væri ekki sérlega mikill. Þó kemur það fram við undirskrift og afgreiðslu málsins að allir stjórnarsinnar skrifa undir nál. þar sem lagt er til að þetta mál verði fellt, m. a. hv. þm. Jón Sveinsson, fulltrúi Framsfl. og varamaður Davíðs Aðalsteinssonar sem var formaður iðnn. hv. deildar á síðasta þingi.

Því hefur verið haldið fram hér að þetta mál hafi ekki haft þingmeirihl. á s. l. vetri og svo hafi verið þegar þessi brbl. voru sett. Ég efast um að þar sé farið með rétt mál, en að nokkru leyti bendir þá afstaða framsóknarmannsins við undirskrift þessa frv. til þess að svo hafi verið og að Framsfl., sem stóð að ríkisstj. og að þessari brbl.-gerð, hafi ekki staðið þar heill að. En ég vil þó enn efast um það.

Við 1. umr. málsins í hv. deild urðu miklar umr. Þar tók til máls m. a. hv. 3. þm. Norðurl. v. og rökstuddi rækilega þörf þess að setja þessi brbl. Ég sé því ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því hér. En ég hef lagt fram grg. þar sem málið er skýrt.

Ég vil einnig fagna því að málið er þó komið á þann rekspöl að það er komið til 2. umr. í deild. Þannig eru líkur fyrir því að það fái umfjöllun í Nd. og að sá ráðh. sem gaf út brbl. fái möguleika til þess að spjalla við hæstv. núv. iðnrh. um þetta mál.

Hæstv. iðnrh. lagði á það þunga áherslu að skv. stefnu ríkisstj. þyrfti að fella þetta mál. Ríkisstj. væri ekki á því og það væri andstætt hennar stefnu að taka vald einstakra fyrirtækja í sínar hendur og stjórna með slíkum tilskipunum. Ég held að það sé varla lengra síðan en í gær að maður heyrði óm af því að þessi hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefði hug á því að gera slíka hluti. Ég held að ég hafi ekki tekið þar rangt eftir að hæstv. iðnrh. hafi boðað það á fundi íslenskra iðnrekenda í gær að hann mundi beita sér fyrir því hvaða raforkuframleiðslustofnanir mundu breyta lánum sínum, sem sagt að það væri allt að því tilskipun frá ráðh. að lán yrðu lengd eða a. m. k. tilmæli. Sú stofnun sem hér um ræðir, þ. e. Landsvirkjun, hefði alltaf getað gert slíka hluti af eigin hvötum og lækkað orkuverð í landinu með því að lengja lán sín áður en núv. hæstv. iðnrh. hafði möguleika til að benda henni á þessa gjörð.

Nú skömmu fyrir jól taldi hæstv. ríkisstj. það höfuðatriði svo hægt væri að stjórna landinu að flytja sem mest völd í hendur hæstv. sjútvrh. Það var talið mjög nauðsynlegt, þá var ekki einu sinni verið að ræða um svipaða stofnun og Landsvirkjun, heldur var verið að reyna að ná sem mestum völdum í hendur ríkisstj. frá almenningi í landinu. Ef þetta stangast ekki á við þá stefnu hæstv. ríkisstj. að ekki megi segja Landsvirkjun að einhverju leyti fyrir verkum eða kippa í taumana þegar ríkisstj. telur að þar hafi verið stigið rangt skref þá veit ég ekki hvernig á að bera saman hluti. Ef það byggist fyrst og fremst á því að stefna ríkisstj. sé að þetta frelsi fyrirtækja skuli í heiðri haft held ég að hæstv. ríkisstj. hafi þegar sýnt að hún er ekki sjálfri sér samkvæm í því gagnvart öðrum þáttum. Þess vegna væri eðlilegt og rétt að þetta mál væri samþykkt og það væri raunverulega stefna ríkisstj. jafnt sem stjórnarandstöðu eða okkar Alþb.-manna að það frv. sem hér er til umr. verði samþykkt.