21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við verðákvörðun í byrjun febr. barst sjútvrn. bréf frá Verðlagsráði sjávarútvegsins sem svarað var með þessum hætti:

„Varðandi bréf yðar dags. 27. jan. þá vill sjútvrn. taka fram eftirfarandi:

Starfshópur, sem skipaður var af rn. til að endurskoða reglugerð nr. 55/1970 um ferskan fisk, hefur enn ekki lokið störfum og nefndri reglugerð því ekki verið breytt.“ — En spurst var fyrir um það hvort fyrirhuguð væri breyting á þeirri reglugerð.

„Framleiðslueftirlit sjávarafurða hefur í samráði við Fiskmatsráð haldið námskeið fyrir alla ferskfiskmatsmenn í landinu til að samræma vinnubrögð þeirra. Rn. hefur ákveðið að beita sér fyrir því að framkvæmt verði tilraunamat á þessari vertíð þannig að samanburður fáist á því hvernig fiskur flokkast í gæðaflokka skv. gildandi matsreglum og skv. þeim reglum sem reglugerðarhópurinn er að undirbúa. Rn. ætlar sér að beita sér fyrir því að slíkt tilraunamat verði framkvæmt í samvinnu við hagsmunaaðila og niðurstöður á því tilraunamati liggi fyrir að lokinni vertíð þannig að hægt verði að nota þær við næstu ákvörðun fiskverðs.“

Í framhaldi af því voru tilnefndir menn af hagsmunaaðilum til þess að hafa umsjón með þessu tilraunamati. Síðan hafa komið upp síðustu daga nokkrar umkvartanir vegna þess að mat hafi verið framkvæmt með öðrum hætti en til hafi staðið og skal ég ekki fullyrða um það. En það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að enginn misskilningur sé varðandi þessi mál og aðilar geti treyst því að mat sé framkvæmt í samræmi við verðákvarðanir. Í framhaldi af því hefur sjútvrn. skrifað Framleiðslueftirliti sjávarafurða eftirfarandi bréf:

„Vísað er til fundar með yður og fulltrúum ráðuneytisins þann 19. mars s. l. í sjútvrn. þar sem til umr. voru m. a. kvartanir frá útgerðarmönnum og sjómönnum þess efnis að Framleiðslueftirlit sjávarafurða hafi tekið upp nýtt og hert mat á ferskum fiski. Af hálfu yðar kom fram að kvartanir þessar mundu vera að verulegu leyti á misskilningi byggðar, en að þér væruð reiðubúinn að hafa fullt samráð við rn. um framkvæmd matsins. Rn. áréttar hér með afstöðu sína að Framleiðslueftirlitið hagi mati á ferskum fiski á sama hátt og gert var í febr. s. l. út núverandi verðtímabil, þ. e. til 1. júní n. k.“

Í framhaldi af þessu hefur Framleiðslueftirlit sjávarafurða skrifað ferskfismatsmönnum öllum eftirfarandi bréf:

„Verulegur misskilningur hefur orðið um þær nýju matsaðferðir sem kenndar voru í lok jan. s. l. sem og um framkvæmd ferskfiskmatsins. síðan. Ýmsir hafa ranglega talið að matsaðferðirnar væru strangari en áður tíðkaðist, en eins og ykkur er kunnugt um var stefnt að því að matsniðurstöður breyttust ekki eða sem minnst með nýjum vinnubrögðum eða á meðan núverandi verðákvörðunartímabil ríkir. Nú gerist nauðsynlegt í samráði við sjútvrn. að fresta um sinn frekari breytingum á matsaðferðum á meðan unnið er að skilningi og samþykki hagsmunaaðila fyrir bættum matsaðferðum. Ég vil því biðja ykkur að haga nú ykkar störfum í öllum aðalatriðum í samræmi við þau vinnubrögð sem stunduð voru í febr. s. l. þangað til frekari fyrirmæli verða gefin út.“

Ég vænti þess að þessi bréf staðfesti það að að sjálfsögðu verður staðið við þær ákvarðanir sem teknar voru í febr. og samstaða var um meðal útgerðarmanna, sjómanna og fiskkaupenda. Ég vænti þess að frekari misskilningur þurfi ekki að vera í kringum mál þetta. Hitt er svo annað mál að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að samræma matið og einnig er mikilvægt að breyta ýmsu að því er matið varðar. Hins vegar verður að fylgjast að breyting á verði og matsreglum því annað er ekki framkvæmanlegt og á það vil ég leggja áherslu og ég vænti þess að fullur skilningur sé meðal aðila í þeim efnum.