22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4084 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

196. mál, lausaskuldir bænda

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 7. þm. Reykv. verður í framhaldi af því sem hæstv. fjmrh. sagði að viðræður hafa átt sér stað, m. a. við Seðlabankann, um fjármögnun. Þeim viðræðum er ekki lokið. Niðurstaða er ekki fengin af því máli og því ekki meira á þessu stigi af því að segja.

Varðandi bindinguna og þær hugleiðingar og þá fsp. sem hv. þm. bar fram áðan, þá get ég svarað því og sagt að s. l. mánudag — að gefnu tilefni vegna skrifa og umræðna sem um þetta mál höfðu orðið m. a. á Alþingi — ritaði ég Seðlabankanum bréf og óskaði eftir að mér væri gerð grein fyrir þessu máli, m. a. því hversu háum upphæðum hefði verið breytt í bindingu af slíkum bréfum og þá frá hverjum. Ég hef ekki enn fengið svör við því, en á von á því innan tíðar. Ég er persónulega andvígur öllum sérréttindum í þessum efnum, en er að sjálfsögðu ekki reiðubúinn að dæma fyrr en ég hef fengið þau gögn í hendurnar sem ég hef óskað eftir.