26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4105 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, eins og það er á þskj. 496, eftir þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. Það hafa að undanförnu og í sambandi við umr. í Nd. orðið miklar umr. um þetta mál á almennum vettvangi. Hv. þdm. mun því vera efni þess orðið mjög kunnugt. Mun ég því aðeins drepa á fá atriði í þessu sambandi.

Á s. l. vetri skipaði þáv. landbrh. Pálmi Jónsson nefnd til að kanna afkomu bænda, m. a. með hliðsjón af árferðisáföllum og mismunandi tekjum eftir búgreinum. Formaður nefndarinnar var Bjarni Bragi Jónsson, sem nú er aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, en aðrir nm. voru Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, Jón Ólafsson bóndi í Eystra-Geldingaholti, Sigurður Líndal bóndi á Lækjamóti og Sigurður Sigurðsson bóndi á Brúnastöðum.

Nefndin skilaði tillögum á s. l. hausti, gerði það í nokkrum áföngum, endanlega var það um miðjan nóv. Í áliti sínu telur hún aðkallandi að breyta lausaskuldum bænda í löng lán. Ástæður fyrir því séu allmargar.

Í fyrsta lagi að ófullnægjandi lánshlutfall af frumfjármögnun fjárfestingar kemur einkum hart niður á frumbýlingum.

Í öðru lagi sérstök árferðisáföll, en s. l. fimm ár hafa verið óvanalega köld og árferði því erfitt fyrir bændur oftast nær.

Í þriðja lagi hefur verið dregið skipulega úr framleiðslu í landbúnaðinum og það hefur haft í för með sér að fjármagnskostnaður hefur aukist miðað við afurðatekjur, heildartekjur, þar sem saman er dregið.

Í fjórða lagi er vaxandi hluti lánsfjárins verðtryggður án þess að lán hafi verið lengd í samræmi við það. Síðast en ekki síst má svo benda á það, að verðbólgan hefur orðið bændum mjög þung í skauti, ekki síst sauðfjárbændum, vegna þess hve langur tími líður frá því að þeir þurfa að leggja fram fjármagn til rekstrarvörukaupa og þangað til afurðir fást greiddar að fullu.

Nefndin gerði nokkra könnun á stöðu bænda á s. l. vori, en í áliti sínu lagði hún til að sem fyrst yrði auglýst eftir umsóknum til þess að reyna að gera sér betur grein fyrir hver þörfin væri. Það var gert í nóvembermánuði s. l. Sóttu 605 bændur um að breyta lausaskuldum sínum. Ekki bárust fullnægjandi gögn frá þeim öllum. Þurfti því að vinna það betur og hefur verið unnið að því að afla gagna í því skyni. Umsóknirnar skiptust þannig milli kjördæma að af Vesturlandi komu 122, Vestfjörðum 20, Norðurl. v. 127, Norðurl. e. 101, Austurlandi 73 og Suðurlandi 162. Samtals 605.

Þrátt fyrir þær upplýsingar sem aflað hefur verið liggur ekki enn ljóst fyrir hver heildarfjárhæð muni þarna verða, þar sem skv. frv. er gert ráð fyrir að þessi skuldbreyting eigi að ná til ársloka 1983 og skammt liðið frá lokum þess tíma. Lagafrv. það sem hér er lagt fram er að efni til hliðstætt því sem verið hefur áður þegar leitað hefur verið heimildar til að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Í frv. er þó frávik varðandi tryggingu bankavaxtabréfa, sem gefin verða út af veðdeildinni, því að Búnaðarbanka Íslands er ætlað að ábyrgjast bréfin. Sú ábyrgð er víðtækari en áður er hún var takmörkuð við varasjóð veðdeildar bankans, en deildin er nú vanmegna að taka á sig slíka ábyrgð. Ábyrgð ríkissjóðs kemur síðan skv. lögum nr. 28 19. maí 1976, en í 2. gr. þeirra laga segir að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbreytingum Búnaðarbankans.

Skv. frv. eins og það kom frá Nd. er gert ráð fyrir að stjórn veðdeildar Búnaðarbankans ákveði lánskjör. Þar verður vitanlega að fara eftir því sem talið er nýtast best í þessu skyni. Kjörin verða að vera þannig að skuldareigendur vilji taka við þeim, en hins vegar þarf að reyna að hafa þau líka þannig, að bændur ráði við að standa undir þeim. Þennan milliveg mun stjórn veðdeildarinnar reyna að fara.

Eins og ég sagði áðan liggur ekki ljóst fyrir hver muni verða heildarfjármagnsþörf í þessu skyni. Nefndin sem ég gat um áðan leggur til að útvegað verði allt að 40% skuldanna af nýju fjármagni til þess að létta undir í þessu skyni. Ríkisstj. hefur samþykkt að stefna að því að ná þessu marki og var viðskrh. falið að ræða við Seðlabankann um það mál. Niðurstaða í þeim viðræðum liggur ekki fyrir enn þá, enda vitanlega óvíst hver þessi fjárþörf verður á meðan heildarupphæð liggur ekki fyrir.

Skv. frv. er gert ráð fyrir að hækka veðheimild í 75% af matsverði veðsins. Búast má við að í sumum tilfellum séu skuldir svo miklar að þær fari fram úr þessu hlutfalli og þá er vitanlega ekki hægt að rétta hlut þeirra bænda með þessu móti. Þeirra málefni verður því að taka til sérstakrar meðferðar eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um það.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á það, að hér er verið að reyna að leysa úr miklum erfiðleikum sem bændastéttin er nú í. Við væntum þess að nú dragi úr verðbólgu og hún verði ekki lengur til þess að gera búreksturinn erfiðari. Vitanlega vonumst við líka til að ekki verði áfram jafnerfitt árferði eins og var á s. l. ári og undanförnum árum þannig að ef bændur eru aðstoðaðir við að komast fram úr þessu erfiðleikatímabili, þá geti þeir treyst sinn búrekstur svo að þeir ráði fram úr þeim vanda sem margir þeirra standa nú frammi fyrir.

Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.