28.03.1984
Neðri deild: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4239 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

255. mál, almannatryggingar

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Nd. hefur fjallað um þetta mál. Frv. þetta er flutt í framhaldi af og í samræmi við þá yfirlýsingu ríkisstj. að hún muni beita sér fyrir úrbótum handa þeim sem verst eru settir með ákveðnum hækkunum á bótum almannatrygginga og tengist þetta þeim samningum sem hafa nýlega verið gerðir á milli aðila vinnumarkaðarins og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og BSRB.

Heilbrigðis- og trygginganefndir beggja deilda fjölluðu um málið á sameiginlegum fundi og auk þess hafa nefndir hvorrar deildar um sig fjallað um málið. Við erum öll sammála um að flýta þessu máli og sammála um að afgreiða það og mæla með því að það fái afgreiðslu sem fyrst.