02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit tóku gildi 1. ágúst 1982. Kveða þau á um heilbrigðis- og hollustuháttaeftirlit á vegum sveitarfélaganna í landinu. Í þessum nýju lögum eru lagðar miklu ríkari skyldur á sveitarfélögin til að sinna þessu eftirliti en áður hefur verið og eru öll sveitarfélög landsins eftirlitsskyld og undir eftirlit heilbrigðisfulltrúa sett.

Samkv. áður gildandi lögum var einungis skylt að ráða heilbrigðisfulltrúa í fullt starf á stöðum með 10 þúsund íbúa eða fleiri, en í kaupstöðum með færri en 10 þúsund íbúa og í kauptúnshreppum yfir 800 íbúa í hlutastarf. Að öðru leyti fóru heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna með eftirlitið og var því kostnaður vegna þess í lágmarki. Hin breytta skipan hefur í för með sér aukin fjárútlát sveitarfélaganna, sérstaklega þeirra sem ekki bar skylda til að hafa þetta eftirlit áður með höndum. Engar sérstakar tekjur eru þó ætlaðar til að mæta þessum aukna kostnaði og reynslan hefur sýnt að erfiðleikum er bundið að fá sveitarfélögin til að sinna þessari lögboðnu skyldu og er borið við fjárskorti.

Samkvæmt gildandi lögum er landinu skipt í 11 heilbrigðiseftirlitssvæði og tekur eftirlitssvæðaskipan tillit til kjördæmaskipunar að verulegu leyti. Það er gert ráð fyrir að ekki færri en einn heilbrigðisfulltrúi starfi á hverju eftirlitssvæði og ekki komi fleiri en 10 þús. manns að jafnaði á hvern heilbrigðisfulltrúa. Ef litið er til þeirra eftirlitssvæða sem áður eru nefnd kemur í ljós að nú, einu og hálfu ári eftir gildistöku laganna, hefur ekki enn verið gengið frá þessum málum í samræmi við lögin á Vesturlandssvæði, Norðurlandssvæði eystra — þess ber að geta að Eyjafjarðarsvæðið er sér — og á Austurlandssvæði. Á hinum svæðunum átta, þ. e. Reykjavíkursvæði, Vestfjarðasvæði, Norðurlandssvæði vestra, Suðurlandssvæði, Suðurnesjasvæði, Hafnarfjarðarsvæði og Kópavogssvæði, eru mál misjafnlega á vegi stödd, en reynt hefur verið að fylgja lögunum eftir mætti þótt erfiðleikum sé bundið að gera það, sérstaklega þar sem samgöngur eru erfiðar eins og t. d. á Vestfjarðasvæðinu.

Það er samdóma álit allra, sem við þessi mál fást, ekki síst heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna, að það sem einkum standi starfinu fyrir þrifum sé að sveitarfélögin treysti sér ekki til að standa undir eftirlitinu, en það hefur numið um 60–70 kr. á mann á ári, ef tekið er mið af þeim svæðum, þar sem eftirlitið er framkvæmt skv. lögum.

Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það þegar lagðar eru ákveðnar skyldur í þessu tilviki á sveitarfélögin til þess að hafa með höndum eftirlit með eftirlitsskyldri starfsemi að sú starfsemi standi að verulegum hluta undir eftirlitinu. Sú stefna hefur verið mótuð í nágrannalöndum, nú síðast í Noregi og Svíþjóð, og er þá tekið mið af því að eftirlitsskyld starfsemi beri a. m. k. helming kostnaðar við eftirlitið og eru þá tekin sérstök eftirlitsgjöld af þessari starfsemi. Rétt er að benda á að þær stofnanir ríkisins sem fara með sérhæft eftirlit, eins og Vinnueftirlit ríkisins, sem m. a. annast heilbrigðiseftirlit á vinnustöðum, innheimta eftirlitsgjald af eftirlitsskyldri starfsemi. Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að annað gildi þegar í hlut eiga eftirlitsstofnanir sveitarfélaganna og erfitt er að færa rök fyrir því, svo að dæmi sé tekið, að fyrirtæki sem lýtur eftirliti Vinnueftirlits ríkisins og er kannske skoðað einu sinni á ári greiði skoðanagjald, en fyrirtæki, t. d. matvælaframleiðslufyrirtæki, sem skoðað er þrisvar, fjórum sinnum á ári á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna greiði ekki neitt. Þannig er málum háttað í dag og er ekki óeðlilegt að sveitarfélögin spyrjist fyrir um fjáröflunarleiðir.

Með hliðsjón af þeirri reynstu sem fengist hefur af framgangi laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit frá 1. ágúst 1982, svo og þeirri tregðu sem viss sveitarfélög hafa sýnt til að framfylgja lögunum vegna þess að fjármunir eru ekki fyrir hendi, þá telur rn., að höfðu samráði við stjórn Hollustuverndar ríkisins, rétt að reyna að freista þess að fá inn í lögin heimildir fyrir svæðisnefndir Heilbrigðiseftirlitsins til gjaldtöku af eftirlitsskyldri starfsemi sem kveðið er á um í 2. gr. laganna. Hér er sem sagt eingöngu lögð til heimild, þannig að lög standi ekki gegn slíkri innheimtu. Vert er að vekja athygli á því að lagt er til að svæðisnefndum verði fengin þessi heimild en ekki sveitarstjórnum og er það gert til að tryggja að gjald þetta komi eftirlitinu milliliðalaust til góða.

Í þessu frv. er lögð til önnur veigamikil breyting, en hún varðar starfsemi Hollustuverndar ríkisins sem starfar skv. lögum. Stofnuninni er skipt í þrjár deildir, heilbrigðiseftirlit, rannsóknastofu og mengunarvarnir, og hefur hver deild sinn forstöðumann. Mengunarvörnum er m. a. ætlað að sjá um geislavarnaeftirlit í samræmi við lög frá 1962, um ráðstafanir gegn jónandi geislum, þ. e. þá starfsemi sem Geislavarnir ríkisins áður önnuðust. Reynslan hefur sýnt að þetta fyrirkomulag hentar ekki. Stjórn Hollustuverndar ríkisins gerði þegar á miðju ári 1982 sérstaka samþykkt um þennan þátt vegna sérstöðu hans með það fyrir augum að hann yrði rekinn sem sjálfstæðastur og var ráðinn sérstakur deildareðlisfræðingur til að annast þessa starfsemi. Auk þessarar sérstöðu má benda á að gert er ráð fyrir samkv. áðurnefndum lögum frá 1962 að innheimt séu eftirlitsgjöld varðandi geislavarnaeftirlitið og þessi gjöld eigi að standa undir eftirlitinu og renna til þess. Veruleg vandkvæði eru á slíku þegar starfsemin er aðeins hluti af starfsemi stærri deildar. Vegna þess hefur komið fram till. frá stjórn Hollustuverndar ríkisins, sem rn. styður, um að gera geislavarnir sem sjálfstæðastar á nýjan leik og er í frv. gert ráð fyrir að geislavarnir starfi sem sérstök deild innan stofnunarinnar, þannig að deildir yrðu fjórar og forstöðumenn þar fjórir. Þessi breytta skipan ætti ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka sem neinu nemur þar sem staða deildareðlisfræðings er þegar fyrir hendi.

Það sjónarmið hefur einnig komið fram að taka Geislavarnir ríkisins algjörlega út úr hollustuverndinni og gera þær að sjálfstæðri stofnun. Ég hygg að eins og ástatt er eigi að reyna þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir, að gera þessa deild fullkomlega sjálfstæða innan Hollustuverndarinnar.

Í þessu frv. er enn fremur lögð til önnur breyting, en það er að heimila stofnuninni að taka gjöld vegna veittrar þjónustu eða vegna sérhæfðra eftirlitsstarfa. Sú þjónusta, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst rannsóknir á matvælum, þar með talið neysluvatni fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna. Sem dæmi um sérhæft eftirlit má nefna eftirlit með mengunarvarnabúnaði við verksmiðjur landsins og væntanlegt innflutningseftirlit með matvælum og öðrum nauðsynjavörum. Um réttmæti þess að taka gjald fyrir þetta má vísa til þess sem áður segir um gjaldheimtu á vegum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna, auk þess sem má bæta því við að mjög erfiðlega hefur gengið að fá fé á fjárlögum til að standa undir rannsóknum, t. d. matvælarannsóknum. Þannig er gert ráð fyrir að miðað við fjárframlög á yfirstandandi ári verði að fækka sýnum á rannsóknastofu, þ. e. matvælasýnum, um allt að 30% komi ekki til aukið fé. Það má í sjálfu sér segja það sama um þetta og áður hefur komið fram varðandi gjaldheimtu. Það er engin ástæða til að lög standi beinlínis gegn því að hægt sé að taka gjöld fyrir slíka þjónustu þó fastlega verði að vona að til þess komi ekki nema þá í litlum mæli.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til á lögunum snerta örfá atriði sem rn. telur að betur mættu fara í lögunum að fenginni reynslu. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þær, en vísa til frv. sjálfs og aths. við það.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.