05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs vegna tveggja atriða. Í fyrsta lagi voru þær tölur sem ég fór með hér áðan að nokkru leyti rangar og stafar það af villu sem var í þeim upplýsingum. Það getur stundum verið varhugavert að vera of fljótur á sér að birta tölur. En nú hef ég fengið í hendurnar útskrift frá Fiskifélagi Íslands á aflanum jan.-mars 1984 og ég tel ástæðu til að greina frá réttum tölum.

Það sem fyrst og fremst var rangt, og kom mér satt að segja á óvart, ég skal viðurkenna það, þótt ég yrði að trúa því sem mér var sagt, var að botnfiskafli togaranna væri 56 þús. tonn á móti 74 800 tonnum í fyrra. Þetta er rangt því að afli togaranna fyrstu þrjá mánuði þ. á. er 73 636 lestir á móti 74 807 á sama tíma í fyrra. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta það.

Þorskafli togaranna er aðeins um 400 lestum minni en á sama tíma í fyrra og annar botnfiskafli þeirra er liðlega 700 lestum minni en á sama tíma í fyrra. Þorskafli bátanna er rúmlega 12 þús. tonnum minni. Hann var í fyrra 66 745 tonn en er fyrstu þrjá mánuði þ. á. 54 429 tonn. En annar botnfiskafli er svipaður og á sama tíma í fyrra.

Ef frá er talin loðna er aflinn u. þ. b. 12 þús. lestum minni en á sama tíma í fyrra og er það fyrst og fremst þorskaflinn. Þetta kemur einkum fram í aflatölum á Suðurlandi, eða u. þ. b. 4000 tonn á Reykjanesi u. þ. b. 4700 tonn og á Austurlandi u. þ. b. 2000 tonn. Það má því segja að aflaminnkunin sé einkum á Suðurlandi og Reykjanesi. Að sjálfsögðu er rétt að taka það fram að mestur hluti, langstærsti hluti loðnuflotans kemur frá þessum landsvæðum.

Það er einnig athyglisvert í þessum tölum að rækjuafli er nú um rúmlega 50% meiri en á sama tíma í fyrra. Sama má segja um hörpudiskafla. Þetta eru væntanlega réttar tölur og ég vil afsaka það að þær skyldu ekki vera réttar sem ég fór með. En það breytir ekki því að þorskaflinn er þetta minni en á sama tíma í fyrra, að hluta til vegna minni sóknar, en við skulum heldur ekki gleyma því að á sama tíma s. l. ár var veiði tiltölulega mjög léleg.

Varðandi þær ásakanir sem hér hafa komið fram um að afla væri hent í stórum stíl verð ég að segja að ég tel þetta mjög alvarlegar ásakanir. Við höfum engar þær upplýsingar fengið í sjútvrn. sem bendi til þess að slíkt hafi gerst í einhverjum mæli. Það hefur komið eftir brælu lélegur afli að landi. Það er alvarleg ásökun á hendur útgerðarmönnum og sjómönnum að halda því fram að afla sé hent því að það getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar í för með sér, m. a. sviptingu veiðileyfa. Ég trúi því ekki að slíkt sé gert í verulegum mæli. Auðvitað er það svo að alltaf er einhver fiskur algjörlega morkinn og sundurslitinn. (Forseti hringir.) — Ég hef nánast lokið máli mínu, herra forseti. — En ég tel ekki rétt að slíkt sé gert í þeim mæli sem hér hefur verið haldið fram.