05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4512 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

217. mál, uppbygging Reykholtsstaðar

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 386 hef ég leyft mér ásamt öðrum þm. Vesturl. að flytja till. til þál. um uppbyggingu Reykholtsstaðar í Borgarfirði. Tillgr. er á þann veg að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta nú þegar undirbúa framkvæmdir við uppbyggingu og heildarskipulag Reykholtsstaðar í Borgarfirði í samræmi við megintillögur Reykholtsnefndar er starfaði frá 18. ágúst 1980 til 20. júní 1983

Till. þessari fylgir allítarleg grg. og er óþarft að rekja hana nákvæmlega í einstökum atriðum. Hitt er annað mál að færa má mörg og sterk rök að því að Reykholt er tvímælalaust í röð allra merkustu sögustaða á Íslandi. Það er kirkjustaður og prestsetur frá fornu fari. Þar hafa margir merkir menn lifað og starfað fyrr og síðar og nefna þar flestir fyrstan Snorra Sturluson er þar bjó á árunum 1206–1241.

Einnig er Reykholt merkur staður nú á dögum. Þar hefur lengi verið þekkt menntasetur, héraðsskóli, sem þar hefur starfað frá 1931 og yfirleitt verið vel sóttur og notið álits og trausts. Það er alkunna að frægð Reykholtsstaðar í Borgarfirði er löngum tengd minningu Snorra Sturlusonar og frægð af þeim toga nær langt út fyrir landssteinana. Þessi aldni, merki vísdómsmaður er í minnum hafður meðal margra annarra þjóða en Íslendinga. Þar má einkum nefna Norðmenn sem láta sér mjög annt um minningu hans á allan hátt. Það má geta þess að þeir hafa sýnt þetta í verki, m. a. með því að reisa styttu af Snorra í Reykholti, gerða af frægasta myndhöggvara Norðmanna, Gustav Vigeland.

Af þessu má ráða að Reykholt sækja heim margir gestir og ferðamenn, bæði innlendir og erlendir. Þess vegna þarf staðurinn að líta þokkalega út þannig að hann sé aðlaðandi og þar sé húsum og hlutum haldið sómasamlega við.

Af þessu öllu er ljóst að Reykholtsstað verður að sýna fullan sóma. Þar þarf að taka til hendinni á ýmsan veg. Það þarf að gera heildarskipulag af staðnum, byggja upp og auka skólahúsnæði það sem nú er þar til staðar, prýða umhverfið, varðveita fornar minjar o. fl. Ekki hefur skort góð áform af þessu tagi. Sem dæmi má nefna það að á afmæli skólans árið 1971, þá er 40 ár voru liðin frá stofnun hans, héldu þar ýmsir merkir menn ræður og lýstu því yfir að nú skyldi Reykholti sýndur fullur sómi í náinni framtíð og staðnum gert margt til sóma og bóta.

En það er nú svo með þetta eins og margt annað að þó orð séu til alls fyrst hefur oft hlaupið slaki á þessar áætlanir og yfirlýsingar á skömmum tíma. Nú má hins vegar segja að einu sinni enn hafi unnendur Reykholtsstaðar og áhugamenn bundist fastmælum að láta til skarar skríða, hefjast handa og láta ekki sitja við orðin tóm. Í því skyni var sett saman nefnd árið 1980 til þess að taka öll málefni Reykholtsstaðar til nákvæmrar athugunar. Reynt var að setja þessa nefnd þannig saman, velja fulltrúa í hana á þann veg að fram kæmu bæði sjónarmið heimamanna og annarra sem þarna hafa um málefni að véla.

Í þessa nefnd voru skipaðir Rúnar Guðjónsson sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem var formaður nefndarinnar, Þorleifur Pálsson deildarstjóri og séra Geir Waage sóknarprestur, skv. tilnefningu dómsog kirkjumrn., Haukur Jörundarson skrifstofustjóri, skv. tilnefningu landbrn., Snorri Þorsteinsson fræðslustjóri, skv. tilnefningu skólanefndar Héraðsskólans í Reykholti, séra Jón Einarsson sóknarprestur, skv. tilnefningu Reykholtsnefndar og Ólafur Þ. Þórðarson alþm., sem nú er skipaður skólastjóri héraðsskólans í Reykholti, og var hann skipaður án tilnefningar.

Ég hygg að menn þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um það að hér var vel til vandað og nefndin skipuð mönnum sem þarna þekkja vel til mála. Því er ekki að neita að á undanförnum árum hafa ýmsar nefndir og ráð unnið að þessum málum, Reykholtsmálum, starfað um lengri eða skemmri tíma, en ekki hefur nægilega mikið áunnist. Þó er því ekki að neita — og það má alls ekki vanmeta það sem vel hefur verið gert á undanförnum árum — að vissulega hafa nokkrir þættir mála þarna á staðnum þokast áfram. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvað langt er síðan hv. þm. hefur komið þarna upp eftir, en hann getur litast þar um ef hann hefur stund til. En það þarf ekki að orðlengja það að hin stjórnskipaða nefnd, sem sett var saman 1980, vann vel og rækilega og leysti sitt starf af hendi af samviskusemi, en það reyndist viðameira en séð var í upphafi. Úr mörgu þurfti að greiða bæði heima fyrir og hér syðra, þar sem þrjú ráðuneyti hafa komið meira og minna við sögu staðarins, a. m. k. frá 1930 og haft þar ýmis umsvif, dóms- og kirkjumrn., menntmrn. frá því héraðsskólinn tók þar til starfa, eins og ég gat um áðan, og auk þess landbrn.

Málefni Reykholtsstaðar voru því rædd vinsamlega og málefnalega af viðkomandi ráðh. í fyrri ríkisstj. í sameiningu og ráðuneytisstjórum hvað eftir 'annað. Urðu allir þessir aðilar svo og nefndarmenn sammála um framtíðarskipan þessara mála í meginatriðum. Segja má því að nú sé tími til kominn að hefjast handa, bæði með því að halda áfram þeim verkefnum sem að hefur verið unnið á Reykholtsstað og undirbúa ný sem nauðsynleg eru og óhjákvæmileg til þess að viðunandi lausn fáist innan hóflegra tímamarka. Að vísu má búast við þeirri mótbáru að nú sé erfitt um vik hvað opinber fjárframlög varðar og sjálfsagt munu margir skírskota til þeirra erfiðleika sem nú er við að fást í efnahagsmálum o. s. frv. En slík rök fá ekki stöðvað brýnustu framkvæmdir í tilteknum þjóðþrifamálum, aðeins dregið úr hraða framkvæmda, þar sem hófs þarf að gæta og allir verða að sjálfsögðu að hafa í huga.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. og nál. Reykholtsnefndar. En ég vænti þess að till. þessari verði vel tekið og legg til að máli þessu verði að loknum fyrri áfanga þessarar umr. vísað til hv. allshn.