11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (4074)

304. mál, selveiðar

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja langt mál um þetta frv. sem hér er á dagskrá. Ég vil gjarnan taka undir það að mér sýnist þörf á því að sett verði lög um selveiðar við Ísland og ég vil líka taka undir það sem fram hefur komið, ekki síst í máli hæstv. ráðh., að hér er um býsna vandasamt mál að ræða og viðkvæmt. Það þarf því að vanda það samstarf sem nauðsynlegt er að byggja á í sambandi við meðferð þessara mála. Að þessum orðum mæltum vil ég gjarnan lýsa því sem minni skoðun að eigi að síður feli þetta frv. í sér nokkuð vandræðalegt skipulag. Það segir í athugasemdum við 1. gr. frv. að gert sé ráð fyrir að yfirumsjón allra mála er selveiðar varða séu í höndum sjútvrn. Enn fremur segir í lok athugasemda við 1. gr. með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar eru í lögum nr. 76 16. júní 1970, um lax- og silungsveiðar, nokkur ákvæði er snerta ófriðun sels í ám, veiðivötnum og ósasvæðum, en þau mál falla undir landbrn. og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.“

Síðari tilvitnunin haggar þeirri fyrri. Það er sem sé ljóst að þessi mál hljóta að heyra skv. þessu frv. undir tvö rn. og vera undir umsjá tveggja ráðh. sem með þau mál fara. Enn fremur vitnaði hæstv. ráðh. til þess að í gildi er auglýsing númer 91 frá 13. desember 1969 um reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem segir að landbrn. fari með mál er varða veiði í ám og vötnum og önnur veiðimál er eigi beri undir annað rn. Ég lít svo til að það verði óglögg skil á meðferð þessara mála í höndum tveggja rn. miðað við þetta frv. en þó eru skilin kannske þau að það takmarkist við þar sem segir í 4. gr. að landeigendum séu einum heimilar selveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra í landareign sinni svo langt út sem netlög ráða eða 115 metra frá stórstraumsfjöruborði í sjó. Jarðir sem eiga land að sjó hafa þessi landamerki og þessar jarðir eru tíðast í höndum bænda og þær verða undir forsjá landbrn. Þess vegna mun það hafa sem kallað er yfirumsjón allra mála er selveiðar varða, sem e. t. v. fyrst og fremst gilda utan netlaga. Þó er svo að skilja á þessu frv. að sjútvrh. geti ákveðið reglur um framkvæmd laganna sem taki til landareigna og einkaréttar sem hér er um fjallað innan netlaga tiltekinna jarða. Þar verða skilin mjög óglögg.

Það er þetta sem ég kalla að frv. feli í sér frekar vandræðalegt fyrirkomulag þó að sennilega sé vandséð á hvern hátt þessum málum væri þann veg skipað að heyrði undir eitt rn. nema þá að það væri undir landbrn. Ég skal ekki um það dæma að sinni en ég vildi gjarnan vekja á þessum atriðum athygli því að skv. lagaákvæðum um lax- og silungsveiði kemur í vissum tilvikum til úrskurðarvald landbrh. að því er tekur til atriða er snerta selveiðar.

Ég skal ekki fara um þessi efni mikið fleiri orðum en ég vænti þess að þau samskiptamál, sem þarna koma til greina og hér hefur verið að vikið og mér sýnist að geti verið viðkvæm og erfið, verði athuguð gaumgæfilega í n. sem um þetta mál fjallar og einnig af þeim samráðsaðila sem 3. gr. frv. fjallar um.

Ég skal ekki fara út í það að ræða hér, sem ýmsir ræðumenn hafa gert mjög skilmerkilega, um þann þátt sem selurinn á í lífkeðju hringormsins og það mikla tjón sem af því hlýst að selum hefur farið fjölgandi hér við land. Ég vil aðeins segja það að ég tel nauðsynlegt að halda selastofninum í skefjum og tek undir það að ekki er hægt að una því að honum fjölgi svo að tjón af hans völdum fari mjög vaxandi eins og væntanlega hefur gerst á síðustu árum þar sem veiðar hafa lítt verið stundaðar vegna verðfalls á skinnum. En ég held að það sé líka nauðsynlegt í sambandi við þessi mál að tekið sé tillit til sjónarmiða eins og fram komu í ályktun sem hér var lesin frá sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu, að óboðnir menn fari ekki um varplönd, friðlýst svæði, sem eru í einkaeign og hagsmunir einstakra manna og byggðarlaga eru bundnir við, þannig að hætta sé á að valdi tjóni. Ég held að það hafi verið laust og góðlátlegt skot af hálfu síðasta ræðumanns, hv. þm. Björns Dagbjartssonar, að láta liggja að því að einhverjir kynnu að vilja lifa af selveiðum. Það er auðvitað ekki meiningin með þessu enda þótt selur og selveiðar hafi í gegnum tíðina verið til búdrýginda á Íslandi og talist til hlunninda og hafi þess vegna verið í umsjá og notkun bænda og búaliðs og í því liggi grunnur þessi að enn eru í lögum ákvæði sem fella þessi mál undir landbrn.

Ég held að ekki sé ástæða fyrir mig að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil aðeins ítreka það að ég tel nauðsynlegt að halda selastofninum í skefjum. Ég tel að sú viðkvæmni sé einkennileg sem borið hefur á í seinni tíð varðandi selveiðar ef þær eru stundaðar með þeim hætti sem sæmilegt má telja svo sem er um aðrar veiðar. Mér finnst sjálfsagt að nýta þessi veiðidýr með skaplegum og eðlilegum hætti og reyna að gera sér mat úr því eða koma þeim í verð með þeim hætti sem kostur er. En því miður eru þeir möguleikar nú þrengri en verið hefur oft á tíðum áður. Það voru einkanlega þessi samskiptamál tveggja rn. sem ég vildi vekja hér athygli á og skal svo ekki hafa um það fleiri orð að öðru leyti en því að ég tel eðlilegt að þau mál séu frekar athuguð í n. sem um þetta mál fjallar.