25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4869 í B-deild Alþingistíðinda. (4281)

251. mál, eiturefni og hættuleg efni

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Breytingarnar sem hér eru lagðar til á löggjöf um eiturefni og hættuleg efni eru þær að svokallaðar eiturbeiðnir gildi lengst í eitt ár frá útgáfu í stað þess að þær gildi í eitt ár án þess að hægt sé að stytta þann tíma. Enn fremur er lagt til að aðeins megi láta úti einu sinni gegn sömu eiturbeiðni í stað þrisvar sinnum, ef um er að ræða efni sem talin eru upp á lista 2, en sá listi fjallar um eitur.

Lögð er til önnur breyting sem felur í sér að auðvelda þeim sem leyfi hafa til að kaupa og til þess að nota eiturefni að afla sér slíkra efna. Þannig kann fyrirtæki að eiga í fórum sínum eiturefni skv. lista 2, sem það hefur flutt inn til eigin þarfa, sem nýst gæti öðrum sem lögmæta þörf hefur fyrir eiturefni og leyfi hefur til kaupa. Í slíkum tilfellum er ástæðulaust að lög standi beinlínis gegn sölu milli aðila er rétt hafa til kaupa og nota á þessum efnum, en lögin eru þannig úr garði gerð í dag.

Frv. þetta er flutt skv. tillögum eiturefnanefndar, sem starfar skv. lögum um eiturefni og hættuleg efni, og að höfðu samráði við landlækni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.