26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4961 í B-deild Alþingistíðinda. (4356)

290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun og rannsókn á meðferð nauðgunarmála. Till. er á þskj. 556 og hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa fimm manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum.“

Flm. auk mín eru hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir.

Ofbeldi er birting alls hins versta í mannlegu eðli og nauðgun er ofbeldi af alvarlegasta tagi, enda varða slík brot þyngstu refsingu eða allt að ævilöngu fangelsi. Því til staðfestingar vitna ég í 194. gr. almennra hegningarlaga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef kvenmanni er þröngvað til holdlegs samræðis með ofbeldi eða frelsissviptingu eða með því að vekja henni ótta um líf, heilbrigði eða velferð hennar sjálfrar eða náinna vandamanna hennar, þá varðar það fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum eða ævilangt. Sömu refsingu skal sá sæta sem kemst yfir kvenmann með því að svipta hana sjálfræði sínu.“

Svo sem segir í grg. með þessari till. til þál. teljum við flm. ekki þörf breytinga á hegningarlögunum sjálfum. Hitt er aftur á móti að hörðustu viðurlögum er nánast aldrei beitt. Frá því að rannsóknarlögregla ríkisins hóf starfsemi sína 1. júlí 1977 og til síðustu áramóta, eða á 61/ári, hafa 44 nauðgunarákærur leitt til dóms. Refsingar hafa verið mismunandi en algengasta refsing er fangelsi í 12–18 mánuði. Í tveimur tilvikum af þessum 44 var maður dæmdur fyrir fleiri brot í sama dómi og í einu tilviki var dæmt í þriggja ára fangelsisvist.

Það er svo ein hlið þessara mála hvaða þýðingu slíkir fangelsisdómar hafa. Ég hef nú um nokkurra mánaða skeið safnað úrklippum úr blöðum um ofbeldismál og er það safn óhugnanlegur vitnisburður um ástandið í þessum efnum. Í þessum mánuði sem nú er að líða er m. a. sagt frá því er lögregla var kölluð til vegna háreysti og slagsmála í íbúð í Reykjavík. Maður nokkur vildi komast yfir konu gegn vilja hennar og læsti íbúðinni svo að hún kæmist ekki undan. Konan veitti hins vegar svo harða mótspyrnu að árásarmaðurinn var særður og blóðugur þegar lögreglan frelsaði konuna úr höndum hans, en konan var orðin mjög þrekuð og í taugaáfalli. Í lok fréttarinnar segir svo að árásarmaðurinn hafi tvívegis hlotið 18 mánaða fangelsisdóma fyrir nauðganir.

Enginn vafi er á því að samúð lögreglu og almennings hefur öll verið með konunni sem sagt var frá í nefndri frétt. Hún hefur varist hetjulega við vonlitlar aðstæður. Slíku er hins vegar ekki alltaf að heilsa og er þá brotaþoli í ólíkt verri aðstöðu til að kæra. Margir eru þeirrar skoðunar að sönnunarbyrði brotaþola í nauðgunarmálum sé ankannaleg, því það sé fyrst og fremst konunnar að sanna sakleysi sitt en ekki afbrotamannsins. Þá er atferli brotaþola í nauðgunarmálum bæði í fortíð og meðan á broti stóð dregið fram í sviðsljósið í ríkari mæli en við rannsókn annars konar brota. Má t. d. benda á aðstöðumun konu sem verður fyrir nauðgun og manns sem rændur er á götu úti. Ætli það þætti ekki einkennilegt ef hann væri spurður í þaula um hvort hann hefði veitt viðnám, hvort hann hefði verið ríkmannlega klæddur, hvaða ástæður lægju til þess að hann hefði verið á ferli úti á götu á þessum tíma sólarhrings, hvort hann væri þekktur fyrir að vera örlátur á fé o. s. frv.

Núgildandi hegningarlög eru frá árinu 1940. Í áðurgildandi hegningarlögum frá 1869 var það skilyrði refsingar fyrir nauðgun að konan sem fyrir slíku varð hefði ekki á sér óorð. Það skilyrði er ekki lengur fyrir hendi, en svo virðist sem enn eimi eftir af þeim viðhorfum sem lágu til grundvallar lögunum frá 1869. Við þurfum ekki að leita lengra en 12 ár aftur í tímann til að finna skýr dæmi um slík viðhorf, en þar á ég við dóm sakadóms Húnavatnssýslu frá 7. júlí 1972. Þar voru fjórir karlmenn ákærðir og fundnir sekir um nauðgun en brotaþoli var 15 ára að aldri. Piltarnir hlutu skilorðsbundinn dóm fyrir afbrot sitt og í dómi sakadóms Húnavatnssýslu kemur mat dómara á atburðum skýrt fram en þar segir m. a. með leyfi forseta:

„Baksvið þessa nauðgunarmáls er lágt siðgæðismat eða lausung meðal þessara unglinga.“ Á öðrum stað segir: „Vændiskona er því jafnvel varin af lögunum og sé hún prúðasta prestsmaddama.“ Og á enn öðrum stað: „Þannig hafa ákærðu sennilega alls ekki litið á þessa nauðgun er þeir tóku P. í umrætt sinn heldur aðeins einhvern hversdagslegan atburð.“ Og loks segir í þessum makalausa dómi sem vonandi á sér fáar hliðstæður í íslenskri réttarsögu: „Fleiri unglingar komust á bragðið og því fór sem fór.“

Dómurinn er þannig gegnsýrður af umburðarlyndi í garð fjögurra pilta sem neyttu margfalds aflsmunar gegn 15 ára stúlku. Í dómnum kemur einnig fram að kennari brotaþola og héraðslæknir voru fengnir til að meta andlegt ástand stúlkunnar en andlegt ástand sakborninga var ekki metið af sérfræðingi. Þetta var fyrir 12 árum.

Í ritgerð Ásdísar J. Rafnar lögfræðings um afbrotið nauðgun, sem birtist í tímaritinu Úlfljóti 1.–2. tbl. 1980, rekur höfundur nokkur dæmi úr íslenskum dómum varðandi sönnun um hvort um brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga sé að ræða, tilraun til þess eða önnur brot. Of langt mál er að rekja þau dæmi hér, en þetta er hin fróðlegasta lesning sem vekur óneitanlega til umhugsunar. Eftir samanburð á forsendum nokkurra dóma segir Ásdís J. Rafnar svo með leyfi forseta:

„Af þessum dómi má ráða að þau atriði sem mestu skipta varðandi sönnun fyrir nauðgunarbroti eru hvort kærandi ber líkamlega áverka, hvernig hugarástand hennar er þegar hún hittir fyrir annað fólk eftir atburðinn, lögreglu, vini etc., hvernig klæðnaði hennar er farið er hún var í er nauðgunin átti að eiga sér stað, hvort vitni hafi orðið að átökum milli aðila eða að hljóðum sem sannað gætu átök þeirra á milli, hvort þær aðfarir sem beitt er við kæranda voru til þess fallnar að vekja henni ótta um stöðu sína, og frásögn hvors aðila er metin af atburðum, þ. e. hvor þykir trúverðugri eða sennilegri eftir atvikum.“

Og Ásdís segir enn fremur: „Eins og áður segir eru nauðgunarmál mjög erfið mál að dæma, þ. e. að því er varðar sönnun um hvort verknaður hefur verið framinn. Hver maður skal talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð og ákæra um nauðgun er mjög alvarleg ákæra, bæði með tilliti til refsimarka 194. gr. almennra hegningarlaga og siðgæðisviðhorfa, og nauðgun er með alvarlegri afbrotum sem hægt er að fremja gegn nokkrum einstaklingi.

Hér að framan tel ég mig hafa að nokkru sýnt fram á sérstöðu þessara mála og enn fremur fram á það að nokkurra breytinga er þörf í því sambandi og þá ekki síst hugarfarsbreytingar gagnvart afbrotinu nauðgun. Það hefur lítið verið til umfjöllunar í skrifum manna, en meðferð nauðgunarmála hér á landi fyrir dómstólunum er samt sem áður á margan hátt gagnrýni verð og er endurskoðunar þörf í þeim efnum.“

Ég vil eindregið benda á þetta tiltekna hefti Úlfljóts, þ. e. 1.–2. tbl. ársins 1980, en auk ítarlegrar umfjöllunar Ásdísar J. Rafnar um afbrotið nauðgun, eðli þess, þolendur nauðgunar, málsmeðferð og niðurstöður dómstóla er þar grein eftir Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing og Þorgerði Benediktsdóttur lögfræðing sem fjallar um þau atriði sem skýra viðhorf til nauðgana og viðbrögð við þeim. Og loks er þar grein byggð á samtali við Arnþrúði Karlsdóttur, þáv. rannsóknarlögreglumann, sem í starfi sínu fékkst talsvert við rannsókn nauðgunarmála.

Þá vil ég vitna hér í Jónatan Þórmundsson prófessor sem fjallar um nauðgunarmál í kennsluriti sínu, Skírlífisbrot, fjölriti útgefnu árið 1981. Ég les kafla sem nefnist Atriði er varða brotaþola, en í þeim kafla koma einmitt fram ýmis þau atriði sem valda sérstöðu nauðgunarmála. Þar segir með leyfi forseta:

„Erfitt er að fjalla sameiginlega um þolendur allra þeirra brota er XXI. og XXII. kafli hegningarlaga taka til. Til þess eru ákvæðin og verndarhagsmunir þeirra of ólíkir. Í XXII. kafla þarf að huga að hverjum brotaflokki um sig.

Brotaþolar skv. 209. gr. og 210. gr. verða oft aðeins óljóst tilgreindir og þáttur þeirra hverfur í skuggann af verknaði hins brotlega. Öðru máli gegnir um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi kvenna þar sem brotaþoli er glögglega sérgreindur og þáttur hans mjög mikilvægur. Það einkennir m. a. brotaþola skv. 194.–199. gr. hegningarlaga, að þeir geta eingöngu verið konur, svo og að atferli þeirra er dregið fram í dagsljósið við rannsókn mála í ríkari mæli en við rannsókn annarra mála, bæði atferli þeirra fyrir og eftir brotið og meðan á því stóð.

Gerandi réttlætir gjarna brotið fyrir sjálfum sér og öðrum með því að tengja orsakir þess brotaþola og minnka fyrir sér afleiðingar þess. Sjálfrátt eða ósjálfrátt afneitar gerandi ábyrgð sinni með því að skella skuldinni á fórnarlambið. Hann hafði ekki ráðið við hvatir sínar á verknaðarstundinni, þar sem konan hafði eggjað hann og æst upp með lokkandi framkomu eða tilvist sinni einni saman. Skyld þessu er sú réttlæting geranda að brotaþoli hafi með líferni sínu fyrirgert virðingu samfélagsins og sé því nánast réttlaus. Fórnarlambið verðskuldi brotið vegna ögrunar sinnar við siðgæði samfélagsins.

Að sjálfsögðu er hinn brotlegi ekki einn um þessi viðhorf. Þau hefur hann tileinkað sér í samskiptum við aðra í samfélaginu. Þess eru dæmi hér á landi að því sé haldið fram sökunaut til varnar að stúlka hafi verið laus á kostunum fyrir atburðinn eða á eftir, og stúlkan hefur ekki einasta haft lakari sönnunaraðstöðu fyrir vikið heldur hefur hún notið takmarkaðrar samúðar almennings og fjölmiðla.

Gerandi hefur og tilhneigingu til að gera lítið úr því tjóni er af háttsemi hans kann að hafa hlotist. Nauðgun eða önnur brot gegn kynfrelsi kvenna eru í huga hans tengdari kynlífi en ofbeldisárás og þannig fremur sett í samband við eitthvað ánægjulegt en sársaukafullt. Getur þetta gengið svo langt að gerendur vitni til þeirrar fáránlegu goðsagnar að allar konur hafi ómeðvitaða löngun til að láta nauðga sér.

Algengast er að skírlífisbrot séu framin af þeim sem þekkir til brotaþola vegna fyrri tengsla eða undanfarandi samskipta í fyrri hjúskap eða sambúð, á vinnustað, í samkvæmi eða á skemmtistað. Að þessu leyti svipar brotunum til líkamsárása. Áhættan er mismunandi eftir aðstæðum. Hún getur aukist á vafasömum stöðum, svo sem úti í skipi eða í samkvæmum eftir dansleiki. Einnig skiptir ástand aðila, annars eða beggja, miklu máli, einkum hvort þeir eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa. Lokkandi framkoma aðila getur aukið hættuna á broti, ef fórnarlambið vill hætta leiknum áður en gerandi hefur fengið vilja sínum framgengt.

Erlendar rannsóknir benda til þess að nauðganir séu oftar fyrir fram undirbúnar eða skipulagðar en áður var haldið. Dæmi slíks má finna í íslenskri réttarframkvæmd en þau virðast þó sjaldgæf enn sem komið er.

Ekki verður fullyrt að þessi brot tengist alltaf neyslu áfengis eða annarra vímugjafa, en það er þó líklega algengast að annaðhvort hinn brotlegi eða fórnarlambið eða báðir aðilar séu undir slíkum áhrifum. Vafasamt er að þáttur áfengis og annarra vímugjafa sé meiri í þessum brotum en öðrum. Þetta hefur þó ekki verið kannað hér á landi svo að mér sé kunnugt.

Kærulíkur skírlífisbrota hafa helst verið kannaðar í sambandi við nauðgun. Fer ekki á milli mála að mikill fjöldi nauðgana kemur aldrei fram í dagsljósið svo að hin dulda brotastarfsemi er allmikil á þessu sviði. Enskar og bandarískar kannanir benda til þess að mikill meiri hluti nauðgunarbrota sé ekki kærður. En hvers vegna kæra konur ekki nauðgun? Til þess geta legið margar ástæður. Vandamenn vilja oft koma í veg fyrir að slík brot komist í hámæli af ótta við þá smán eða önnur óþægindi sem stúlku kunna að vera búin. Brotaþoli vill sjálfur gleyma sem fyrst niðurlægingu sinni í stað þess að auka á hana með kæru og rannsókn. Þá getur aðgerðarleysi brotaþola stafað af hræðslu við reiði foreldra eða maka og stundum jafnvel af ótta við hefndaraðgerðir hins brotlega. Hlífisemi við geranda er einnig algeng ástæða, einkum þegar fyrrverandi maki eða sambýlismaður á í hlut eða þá vinnufélagi, kunningi eða ættingi. Kærulíkur aukast eftir því sem heilsutjón er meira af völdum brotsins. Enn fremur eru kærulíkur meiri ef gerandi er ókunnugur eða útlendingur, svo og ef aldursmunur er verulegur á geranda og verknaðarþola.“

Herra forseti. Allir sem ég hef vitnað til og allir sem ég ræddi við meðan ég vann að undirbúningi þessa máls eru ótvírætt þeirrar skoðunar að aðstaða brotaþola í nauðgunarmálum sé á ýmsan hátt sérstæð og verri en brotaþola í annars konar málum. Till. sú til þál. sem ég mæli hér fyrir er tilraun til úrbóta í þeim efnum. Við flm. leggjum til að skipuð verði nefnd er kanni hvernig rannsókn og meðferð nauðgunarmála er háttað og geri tillögur til úrbóta. Lagt er til að í nefndinni eigi sæti fulltrúi Kvennaathvarfs, lögfræðingur, rannsóknarlögreglumaður, læknir og félagsráðgjafi eða sálfræðingur. Eðlilegt og sjálfsagt er að okkar mati að nefndin sé að meiri hluta skipuð konum. Meðal úrbóta sem til greina koma má nefna eftirfarandi:

Lögreglu sé skylt að benda brotaþola á aðstoð Kvennaathvarfs eða einhvers sambærilegs aðila þegar á fyrsta stigi kærumálsins. Brotaþola sé tryggð lögfræðiaðstoð og aðstoð geðlæknis, félagsráðgjafa eða sálfræðings þegar á fyrsta stigi rannsóknar. Læknirinn sem skoðar brotaþola sé kona. Rannsóknarlögreglumaðurinn sem yfirheyrir brotaþota sé kona. Haldin verði námskeið fyrir þá sem aðstoða brotaþola og þá sem annast lögreglurannsókn vegna nauðgunarmála.

Herra forseti. Að lokinni umr. um málið legg ég til að því verði vísað til allshn.