03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5167 í B-deild Alþingistíðinda. (4543)

169. mál, umfang skattsvika

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um úttekt á umfangi skattsvika. Með leyfi forseta vil ég lesa álit n.:

N. hefur haft málið til meðferðar og fengið umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Skattrannsóknastjóra, ríkisskattstjóra, Þjóðhagsstofnun, Hagstofunni og viðskiptadeild Háskóla Íslands.

N. mælir með samþykkt till. með brtt. sem flutt er á sérstöku þskj.

Þorsteinn Pálsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.“

Undir þetta nál. skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Benediktsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Pétur Sigurðsson, Guðrún Helgadóttir og Eggert Haukdal.

Með leyfi forseta vil ég þá lesa brtt. og hljóðar hún svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma á fót starfshópi sem í samvinnu við skattyfirvöld hafi það verkefni að gera grein fyrir og leggja mat á eftirfarandi:

1. Umfang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum gögnum annars vegar og upplýsingar um framtaldar tekjur í skattframtölum hins vegar.

2. Hvort skattsvik megi rekja sérstaklega til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina.

3. Umfang söluskattsvika hér á landi.

4. Helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir eru vænlegastar til úrbóta.

Niðurstöður skal leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 1985. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Ég vil vekja á því athygli að fyrir Alþingi liggja nú tvær till. til þál., sem ekki hafa verið ræddar, þar sem lagt er til að tekjuskattur verði afnuminn. Rök sem fram koma m. a. eru þau, að hann leggist mjög misjafnt á þjóðfélagshópana. Sú till. til þál. sem hér er lagt til að verði samþykkt með þeim smávægilegu breytingum sem um er að ræða ætti að vera gott innlegg í þá athugun hvort rétt er að breyta tekjuformi ríkisins á þann veg að tekjuskatturinn verði lagður niður.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að brtt. allshn. verði samþykkt.