07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5429 í B-deild Alþingistíðinda. (4702)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er fátt eitt sem gefur mér ástæðu til að auka við þessa umr. Ég tek eftir því að í nál. hv. 4. þm. Vesturl. lætur hann í ljós þann ugg sinn að sameignaraðilarnir Sumitomo og Elkem muni gera bandalag gegn meirihlutaaðilanum og virðist kvíða því að okkar réttindi og hlutur verði fyrir borð borin. Það var og. Hverju skyldi þetta í raun og veru lýsa? Að aðstaða þessara hákarla sé slík að þrátt fyrir að við eigum meiri hluta í fyrirtækinu gætu þeir borið okkar hagsmuni fyrir borð. Það vill nefnilega þannig til að mér er nær að halda að þessir hákarlar, sem ráða og ríkja í þessu hafi stóriðjuhöldanna, muni geta leikið okkur nokkurn veginn eins og þeim sýndist þótt við ættum 100% í fyrirtækinu. Þess vegna er það sem ég hef kosið að hlutur Íslendinga væri sem minnstur af því að við komum aldrei til með að ráða nokkrum sköpuðum hrærandi hlut á þessum markaði þar sem stórfiskarnir ráða í hafinu. Þess vegna er það. En að sínu leyti óttast ég ekki að alþjóðalög um stofnun slíkra fyrirtækja dugi ekki til þess að halda rétti okkar. En við erum alltaf í þessari miklu hættu, að við höfum hætt miklu til í þessu fyrirtæki. Það eigum við helst ekki að gera.

Hv. 4. þm. Vesturl., minni hl. iðnn., segir í áliti sínu á bls. 4 að með samningi þessum sé ekki trygging fyrir sölu á þeirri framleiðslu sem verksmiðjan getur afkastað. Ja, hvað má þá segja um fortíðina? Trygging er fyrir 50 þús. tonna sölu þar sem Elkem hefur með höndum 30 þús. tonn og Sumitomo 20 þús. tonn. Hann hefði átt að vera þar nær sem á lokastigi máls ætluðu samningar að ganga í sundur vegna ágreinings milli þessara fyrirtækja um forgang að sölu 5 þús. tonnanna sem menn gera ráð fyrir að meðaltali að standi út af miðað við almestu afköst árlega. Og yfirleitt vil ég nú halda því fram, af þeirri reynslu sem við höfum af þessum samningum og sér í lagi á lokastigi þeirra, að enginn er annars bróðir í leik. Það sýndi sig að átökin voru afar hörð á milli þessara aðila sem svo mikilla hagsmuna eiga að gæta, sérstaklega í markaðsmálum.

Mér kemur mjög á óvart ef hv. 11. þm. Reykv. hefur ekki fengið að sjá samning þann sem gerður var, vegna þess að ég afhenti hann formanni n., hv. 4. þm. Vestf. Auðvitað hlaut ég að gera svo þrátt fyrir beiðni aðila um að halda honum leyndum af því að þeir telja að það sé að gæta hagsmuna sinna á þessu stigi máls að upplýsa ekki alla þætti samninga. (Gripið fram í.) Nei, auðvitað er það svo. Ég mistók mig að því leyti að hv. þm. á ekki sæti í þessari nefnd. Ég missté mig af því að hv. þm. talaði í málinu, en auðvitað hefði þá legið fyrir minnihlutaálit með andstöðu gegn þessum samningi. — En ég vil benda hv. þm. á að tala við formann iðnn., sem ég fól samninginn í hendur með þeirri yfirlýsingu að til hans gætu þm. snúið sér sem vildu kynnast samningnum sjálfum því að engin hæfa er í að slíkur samningur sé dulinn fyrir hv. þm., enda þeim fulltreystandi fyrir trúnaði í þeim efnum. Áður en 3. umr. fer fram vonast ég því til, og mun reyndar greiða fyrir því sjálfur ef hv. 4. þm. Vestf. er eigi nær, en hann mun vera á erlendri grund sem stendur, en ég skal þá reyna að bæta úr því að hv. þm. fái að kynna sér efni samningsins í trúnaði.

Um mengunarvarnir get ég aðeins tekið undir það sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., Eiði Guðnasyni, að það er fullyrt, — auðvitað er maður leikmaður sem getur ekki dæmt um málið, en það er fullyrt að þarna sé að finna fyrir fullkomnasta mengunarvarnarbúnað sem þekkist. Verksmiðjan er nýjasta verksmiðja sinnar tegundar í veröldinni. Ég átti þess kost á sínum tíma að kynna mér slíkar verksmiðjur í Noregi þar sem þessi virki hafa verið sett upp með mjög miklum kostnaði. Ég vænti þess að þessar yfirlýsingar standist og hef enda ekki ástæðu til þess að vefengja þær.

Ég ætla ekki á þessu stigi máls að setja á tölur um stóriðjuna. Margt má um þau mál segja. Ég vil aðeins taka fram að minn draumur er ekki sá að þetta land verði að mestum hluta háð rekstri slíkra iðjuvera. Ég hef þá trú og þá skoðun að þegar og ef menn ná því sem þeir hafa ætlað sér, um kísilmálm, sem er minni háttar verksmiðja við Reyðarfjörð, um álverksmiðju við Eyjafjörð, stækkun ISALs, þá mundum við láta staðar numið við það um langa framtíð og kannske mjög langa framtíð ef, sem við hljótum að leggja mjög mikla áherslu á, við getum snúið okkur að öðrum iðnaði, eins og til að mynda lífefnaiðnaði og matvælaiðnaði hvers konar þar sem við eigum stórkostlega möguleika fyrir höndum. Það er að mínum dómi hins vegar fljótvirkasta leiðin til að beisla orkuna, sem er undirstaða alls iðnaðar okkar og framtaks yfirleitt, að efna til þessara fyrirtækja og þeirrar framleiðslu sem við nú höfum í huga, fljótvirkasta leiðin, en ef við sjáum okkur önnur færi girnilegri breytum við auðvitað til. En ég mun leggja áherslu á að við hættum sem minnstu til í rekstrinum og alls þess verði gætt í viðskiptum við erlenda menn sem gæti tryggt okkar hlut sem bestan og styrkastan. Ég vek til að mynda athygli á, sem ég vil ekki dylja neinn að ég muni leggja höfuðáherslu á, aukinni rannsókn á háhita og þá alveg sérstaklega hér í næsta nágrenni við okkur, næsta nágrenni við sjó og samgöngur, sem er háhitinn á Reykjanesi. Ég held að þeir möguleikar sem þar felast í iðrum jarðar, möguleikar á fiskeldi, — sem ég trúi sannarlega að gætu innan skamms tíma, og ég kalla það skamman tíma ef maður hugsar í 1–2 áratugum, brauðfætt eins og hálfa þjóðina, — séu þó iðnaður sem við getum verið sammála um að er lífvænlegur og gefur lífinu mikið gildi, en ekki kaldur málmur eins og þessi stóriðja sem við höfum nú verið að tala um. Það er ekki minnsti vafi á því, eins og náttúruauðæfi okkar að þessu leyti eru girnileg og aðstæður frábærar og framúrskarandi og náttúra okkar hrein og á að vera og verður að vera vegna þessarar iðju einnig, stóriðjunnar, að þarna eigum við slíkra kosta völ að fáir búa við annað eins. Þess vegna er nú að hefjast handa hið allra fyrsta. Þetta verður og á að vera aukageta sem greiðir fyrir því að við náum vopnum okkar í þessum mikilsverðu málum.

Svo vil ég að lokum þakka hv. iðnn. fyrir skjótvirka afgreiðslu þessa mikilsverða máls.