09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5560 í B-deild Alþingistíðinda. (4813)

153. mál, höfundalög

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sem fjmrh. lofað því að það gjald, sem um er rætt hér í frv. til 1. um breytingu á höfundalögum nr. 73 frá 29. maí 1972, komi ekki til með að hækka þær vörur sem hér um ræðir. Ég ætla ekki að mæta á móti þessu frv. en ég vil svara úr því að til mín var beint spurningum. Ég vil líka draga athygli að 1. gr. og með leyfi forseta lesa hana. Þar segir:

„Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra á hljóð- eða myndbönd til einkanota með heimild í 1. mgr. þessarar greinar.“

Þetta finnst mér ekki óeðlilegt. En síðan heldur áfram:

„Greiða skal gjald af tekjum til upptöku verka á hljóð- eða myndbönd til einkanota, svo og af auðum hljóð- og myndböndum og öðrum böndum sem telja má ætluð til slíkra nota.“

Þarna eiga höfundar verka sem hugsanlega gætu komið á bönd eða yrðu notuð á þessum tækjum að greiða skatt til höfunda almennt. Ég tel það óeðlilegt að hugvit þeirra sem hafa fundið upp tækin og tæki þeirra skuli vera notuð til fjáröflunar fyrir höfunda verka sem hugsanlega fara á bönd eða verða leikin á þessi tæki.

Síðan vil ég benda á í framhaldi af þessu að „menntmrn. setur nánari reglur um gjaldið, þ. á m. um viðmiðun þess og fjárhæð, að höfðu samráði við heildarsamtök rétthafa svo og innflytjendur og framleiðendur.“ (Gripið fram í: Það er komin fram brtt. um það.) Já, ég er að ræða um frv. en ekki brtt., en ég þakka fyrir. Frv. óbreytt er því að mínu mati eins fjarri fjmrn. eins og getur verið í þessum tilfellum. Það er menntmrh. sem setur allar reglur um gjöldin, hvort sem það er í brtt. eða í frv. Ég vil bara benda á að þetta er að mínu mati óeðlilegt.