09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5593 í B-deild Alþingistíðinda. (4884)

314. mál, sjúkraliðar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um sjúkraliða er samið í ráðuneytinu að beiðni Sjúkraliðafélags Íslands. Það er þáttur í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda að vernda starfsheiti og réttindi hinna ýmsu heilbrigðisstétta með sérstökum lögum og þar af leiðandi kveða á um skyldur þeirra, en löngu er viðurkennd nauðsyn þess, þar sem krafist er náms og starfsreynslu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega orðum um þetta frv. Það fjallar um réttindi og skyldur sjúkraliða, sem eru orðnir nokkuð fjölmenn heilbrigðisstétt og óska eindregið eftir að fá slíka lögvernd. Þess vegna er þetta frv. flutt. Það fór í gegnum Ed. samhljóða. Heilbr.- og trn. Ed. gerði ekki á því neinar breytingar, og eins og ég sagði, það er flutt eftir beiðni Sjúkraliðafélagsins.

Ég legg áherslu á það, að sú nefnd sem fær frv. til meðferðar reyni að hraða afgreiðslu málsins, því að ég tel sjálfsagt og eðlilegt að verða við beiðni þessa félags.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.