10.05.1984
Neðri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5674 í B-deild Alþingistíðinda. (4981)

269. mál, erfðafjárskattur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frv. sem hér er til umr. Ég á sæti í félmn. sem hefur fjallað um þetta frv. og stend að því nál. sem hér hefur verið lýst sem mælir með samþykkt þessa frv. Ég kemst þó ekki hjá að gera eina athugasemd. Hún er sú að félmn. hefur fengið umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um þetta mál. Þar kemur fram orðrétt um hin nýju frumvarpsdrög í umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, með leyfi forseta:

„Hin nýju frumvarpsdrög munu leiða til þess að innheimtur erfðafjárskattur mun lækka um u. þ. b. 30%. Tekjutap ríkissjóðs á árinu 1984 miðað við heilt ár hefði numið 12–15 millj. kr.“

Eins og hv. þdm. vita hefur Erfðafjársjóður haft tekjur af erfðafjárskatti og með nýjum lögum um málefni fatlaðra hefur Framkvæmdasjóður fatlaðra nú tekjur úr Erfðafjársjóði. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að á undanförnum árum hafa framlög í Erfðafjársjóð af tekjuskatti verið verulega skert. Í yfirliti frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun kemur fram yfirlit um tekjur af erfðafjárskatti s. l. 10 ár og framlög ríkissjóðs í Erfðafjársjóð. Þar kemur fram að á árunum 1974–1979 voru framlög í Erfðafjársjóð ekki skert en frá árinu 1980 hafa þau verið mjög mikið skert. Svo dæmi sé tekið af þremur síðustu árum voru tekjur af erfðafjárskatti á árinu 1982 rúmar 28 millj. kr. en framlög í Erfðafjársjóð ekki nema tæpar 13 millj. Á árinu 1983 voru tekjur af erfðafjárskatti um 37 millj. en aðeins um 16 millj. gengu í Erfðafjársjóð. Nú við síðustu fjárlagaafgreiðslu var áætlað að tekjur af erfðafjárskatti yrðu á þessu ári um 40 millj. en einungis að um 19.4 millj. rynnu í Erfðafjársjóð.

Það þarf því engan að undra þó að maður hafi áhyggjur af því að það tekjutap sem ríkissjóður verður fyrir með samþykkt þessa frv. verði notað sem tilefni til þess að framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sæti skerðingu sem þessu nemur. Þetta eru auðvitað bara spár sem ég er hér að setja fram og ekki er hægt að fullyrða um, en miðað við reynslu undangenginna ára þarf engan að undra þó að slíkur ótti komi fram.

Við síðustu fjárlagaafgreiðslu varð t. d. veruleg skerðing á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra og held ég að ég megi fullyrða að enginn sjóður hafi við síðustu fjárlagaafgreiðslu þurft að sæta eins mikilli skerðingu og Framkvæmdasjóður fatlaðra. Framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra voru skert um 56%, áttu skv. lögum að vera um 91 millj., en á fjárlögum urðu þau ekki nema um 40 millj. Og eins og kom fram hjá mér áðan voru framlög úr Erfðafjársjóði skert um 52%.

Ég tel því nauðsynlegt, herra forseti, að flytja brtt. sem kemur fram á þskj. 822 og ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Guðmundi J. Guðmundssyni. Ég tel að með samþykkt þessa ákvæðis kæmi fram vilji Alþingis í þá veru að þrátt fyrir það að tekjur af erfðafjárskatti muni minnka með samþykkt þessa frv. muni það ekki leiða til lækkunar á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta, þ. e. að á eftir 25. gr. bætist við svofellt ákvæði til bráðabirgða:

„Lækki tekjur af erfðafjárskatti skv. ákvæðum laga þessara skal sú lækkun ekki leiða til skerðingar á tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra, sbr. 35. gr. laga nr. 41/1983.“