10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5676 í B-deild Alþingistíðinda. (4984)

269. mál, erfðafjárskattur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hv. þd. hefur nú fellt þá brtt. sem ég flutti við þetta frv. sem ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lækki tekjur af erfðafjárskatti skv. ákvæðum frv., þá skuli sú lækkun ekki leiða til skerðingar á tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Var vísað þar í 35. gr. laga um Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Ég sagði við 2. umr. um þetta mál að ég óttaðist að þetta frv. hefði þær afleiðingar að tekjurnar mundu lækka í Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég sé að sá ótti minn hefur ekki verið ástæðulaus þar sem þd. sá ástæðu til þess að fella þessa brtt. Því sé ég ástæðu til þess, herra forseti, áður en málið er afgreitt úr deildinni að spyrja hæstv. félmrh. hver sé afstaða hans til þessa máls, hvort hann telji að ef tekjur af erfðafjárskatti lækka með samþykkt þessa frv. gefi það þá tilefni til þess að lækka þær tekjur sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur haft af erfðafjárskatti og sem runnið hafa í Erfðafjársjóð.